Umhverfis- og framkvæmdanefnd

74. fundur 09. ágúst 2017 kl. 17:00 - 20:45 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Árni Kristinsson formaður
  • Guðrún Ragna Einarsdóttir aðalmaður
  • Ester Kjartansdóttir aðalmaður
  • Benedikt Hlíðar Stefánsson varamaður
  • Freyr Ævarsson starfsmaður
Fundargerð ritaði: Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála
Sigurður Jónsson starfandi skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn.

Í upphafi fundar óskaði formaður eftir að bæta tveimur liðum sem eru: Umsókn um byggingarleyfi og Styrkvegir 2017 og verða þeir númer 15 og 16.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

1.Vegabætur að og frá Rauðholti. Beiðni um aðstoð.

Málsnúmer 201707059

Lagt fram bréf frá Þórunni Ósk Benediktsdóttur þar sem hún óskar eftir aðstoð varðandi vegabætur að Rauðholti.

Málið heyrir undir umhverfis- og framkvæmdanefnd og mun það verða tekið fyrir á næsta samráðsfundi með Vegagerðinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu

2.Áform um breytta landnotkun lóðar 1 úr landi Mýness,Eiðaþinghá.

Málsnúmer 201707043

Lagt fram erindi Strympu f.h. Yls ehf varðandi áform um breytta landnotkun á lóð 1 í landi Mýness.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd gerir ekki athugasemdir við áform landeiganda. Nefndin bendir á að Mýnes/lóð 2 vantar inn á uppdráttinn og að staðfest landamerki verða að liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Umferðaröryggisáætlun Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201707060

Lögð er fram Umferðaröryggisáætlun 2016-2020 Fljótsdalshérað, sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf.

Málið er í vinnslu.

4.Eyjólfsstaðaskógur 24,umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 201111062

Lagt fram bréf frá Steindóri Jónssyni og Önnu Þórnýju Jónsdóttur lóðarhöfum lóðar nr 24 í Eyjólfsstaðaskógi, þar sem þau gera athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar á erindi frá þeim. Málið var á dagskrá nefndarinnar þann 12.7.2017.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd bendir á að í gildandi deiliskipulagi fyrir Eyjólfsstaðaskóg svæði D, E og F, unnið af landeiganda, eru ákvæði um að mænishæð megi mest vera 540 cm yfir gólfplötu. Einnig er í deiliskipulaginu kveðið á um að rotþró skuli staðsett innan byggingarreits. Á þeim forsendum hlaut erindið neikvæða afgreiðslu. Því stendur fyrri bókun nefndarinnar óbreytt.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að koma ábendingum til Skógræktarfélags Austurlands um hvort rétt sé að endurskoða gildandi deiliskipulag þar sem komið verði til móts við óskir bréfritara.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Hróarstunguvegur um Urriðavatn

Málsnúmer 201708003

Lagt fram til kynningar erindi frá Sveini Sveinssyni f.h. Vegagerðarinnar þar sem kynnt eru áform um endurbætingu á 1,3 km kafla Hróarstunguvegar við Urriðavatn.

Lagt fram til kynningar.

6.Umgengni í þéttbýlinu

Málsnúmer 201708004

Til umræðu eru ábendingar frá íbúum um umgengni á íbúðasvæðum í þéttbýlinu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd beinir þeim eindregnu tilmælum til þeirra íbúa sem nota óbyggðar lóðir sveitarfélagsins sem geymslusvæði, að fjarlægja eignir sínar hið fyrsta. Jafnframt felur nefndin verkefnastjóra umhverfismála að hefja undirbúning að aðgerðum skv. Samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss nr. 668/2010.

Nefndin hvetur íbúa til að halda lóðum sínum snyrtilegum þannig að sveitarfélagið sé okkur öllum til sóma.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Plastpokalaust Fljótsdalshérað

Málsnúmer 201701004

Fyrir liggja upplýsingar um söluaðila og verð á margnota burðarpokum.

Málið er í vinnslu.

8.Grásteinn, deiliskipulag

Málsnúmer 201703008

Fyrir liggur Deiliskipulagstillaga - Grásteinn, að afloknu auglýsingaferli. Frestur til að gera athugasemdir var til 12.7.2017. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatímabilinu en fyrir liggja ábendingar við tillöguna frá Skipulagsstofnun.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir að vísa ábendingum Skipulagsstofnunar til skipulagsráðgjafa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Eyvindará II deiliskipulag

Málsnúmer 201601236

Fyrir liggur erindi frá Birni Sveinssyni, Verkís, þar sem óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi Eyvindarár II. Breytingin felst í uppfærslu staðsetningar byggingarreits sem ætlaður er til framtíðar stækkunar.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd óskar eftir við skipulagshöfundinn að hann geri betur grein fyrir í hverju breytingar á skilmálum um byggingar, eru fólgnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

10.Davíðsstaðir - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 201706094

Lögð er fram Verkefnalýsing fyrir tillögu að breyttu Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, Davíðsstaðir.

Umsagnir og athugasemdir bárust frá: Seyðisfjarðarkaupstað, Fjarðabyggð, Skipulagsstofnun, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Skógræktinni, Vegagerðinni, Hjalta Stefánssyni og Philip Vogler.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir að vísa umsögnum til umfjöllunar hjá skipulagsráðgjafa.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd hefur yfirfarið athugasemdir Hjalta Stefánssonar og Philips Vogler. Álit nefndarinnar er að með þessari breytingu sem snýr að því að færa landnotkun til fyrra horfs, sé verið að minnka umhverfisáhrif og álag á náttúru svæðisins verulega.

Jafnframt bendir nefndin á að stærð skógræktarsvæðisins er vel innan þeirra marka sem gerir kröfu um mat á umhverfisáhrifum og að í skógræktaráætlunum á að taka tillit til þess lands sem fyrirhugað er að planta í.

Nefndin hafnar því framkomnum athugasemdum Hjalta Stefánssonar og Philips Vogler.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

11.Snjómokstur og hálkuvarnir 2017

Málsnúmer 201708005

Til umræðu eru samningar um snjómokstur og hálkuvarnir.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir að stofna starfshóp sem fer yfir það vinnuferli sem verið hefur á snjómokstri og hálkuvörnum og gerir tillögu að áframhaldi og/eða breytingum á vinnuferlum.

Nefndin samþykkir að tilnefna Árna Kristinsson, Pál Sigvaldason, Kjartan Róbertsson og Kára Ólason í starfshópinn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

12.Aðkoma og græn svæði á Egilsstöðum og Fellabæ

Málsnúmer 201609049

Til umræðu er Tjarnargarðurinn og kynning á tillögum að verkefnum fyrir árið 2018.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir að í fjárhagsáætlun fyrir 2018 verði gert ráð fyrir fjármunum sem ætlaðir verða til viðhalds og uppbyggingar á gróðri í Tjarnargarðinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

13.Umsókn um skráningu nýrrar landeignar

Málsnúmer 201703005

Lögð er fram umsókn um skráningu nýrrar landeignar í fasteignaskrá - Snæfellsskáli.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa það til úrvinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

14.Skýrsla um gróðurvöktun á Fljótsdalsheiði.

Málsnúmer 201707051

Fyrir liggur skýrslan Gróðurvöktun á Fljótsdalsheiði - Samanburður á samsetningu og þekju gróðurs árin 2008 og 2016.

Lagt fram til kynningar.

15.Umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 201301227

Lagt fram bréf frá VERITAS lögmönnum slf. f.h. Björns Oddssonar þar sem reikningi Fljótsdalshéraðs er mótmælt.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd frestar afgreiðslu málsins og óskar eftir áliti bæjarlögmanns.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

16.Styrkvegir 2017

Málsnúmer 201703048

Fyrir liggur bréf frá Vegagerðinni um úthlutun úr Styrkvegasjóði. Í hlut Fljótsdalshéraðs komu kr. 1.200.000.-

Umhverfis- og framkvæmdanefnd felur forstöðumanni þjónustumiðstöðvar að gera tillögu um hvernig nýta megi fjármagnið sem best.

Nefndin furðar sig á þeirri upphæð sem landstærsta sveitarfélag landsins fær úthlutað og óskar eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um hversu hárri fjárhæð var úthlutað úr Styrkvegasjóði í ár og hvernig henni var skipt á milli sveitarfélaga.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 20:45.