Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

239. fundur 28. ágúst 2013 kl. 16:00 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Stefán Bogi Sveinsson varaformaður
  • Sigrún Blöndal aðalmaður
  • Karl Sigfús Lauritzson áheyrnarfulltrúi
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri

1.Fjármál 2013

Málsnúmer 201301002Vakta málsnúmer

"Bæjarstjóri kynnti skammtímafjármögnunarsamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sem ætlað er að standa undir hluta af framkvæmdakostnaði vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs veitir Birni Ingimarsyni, bæjarstjóra, hér með heimild til skammtímalántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð allt að 250.000.000 kr. Heimildin gildi út árið 2013."
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Bæjarstjóri kynnti erindi frá HEF, varðandi nýja lagnaleið fyrir heitavatnslögn frá Austurlandsvegi upp í brekkuna vestan Menntaskólans. Hugmynd HEF gengur út á að við frágang lagnarinnar verði uppbyggður garður yfir lögninni breikkaður og nýttur sem göngustígur.
Að höfðu samráði við skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir bæjarráð samhljóða með handauppréttingu að fela bæjarstjóra að semja við HEF um að gengið verði frá lögninni þannig að nýst geti við lagningu göngustígs. Sá aukakostnaður sem fellur til við breytinguna verði greiddur úr bæjarsjóði.

Bæjarstjóri kynnti einnig staðgreiðsluyfirlit ágústmánaðar og kemur þar fram að staðgreiðsla ársins virðist vera í samræmi við fjárhagsáætlun.

2.Fjárhagsáætlun 2014

Málsnúmer 201302034Vakta málsnúmer

Í vinnslu.

3.Langtíma fjárfestingaráætlun

Málsnúmer 201306083Vakta málsnúmer

Til fundarins mætti Esther Kjartansdóttir formaður umhverfis- og héraðsnefndar og Úlfar Trausti Þórðarson framkvæmda- og þjónustufulltrúi og fylgdu úr hlaði fjárfestingaáætlunum nefndarinnar.

Málinu síðan vísað til gerðar fjárfestingaráætlunar Fljótsdalshéraðs.

4.Fundargerð stjórnar SSA nr.9 2012-2013

Málsnúmer 201308048Vakta málsnúmer

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

5.Fundargerð 3.fundar samgöngunefndar SSA 2012-2013

Málsnúmer 201308084Vakta málsnúmer

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð tekur undir þær megináherslur sem fram koma í tillögum meirihluta samgöngunefndar SSA til aðalfundar um forgangsröðun framkvæmda við jarðgöng og aðrar nýframkvæmdir í vegagerð á Austurlandi. Þar eru fremst í flokki Fjarðarheiðargöng og heilsársvegur um Öxi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundargerðin lögð fram til kynningar að öðru leyti.

6.Fundargerð 153. fundar Hitaveitu Egilsstaða og Fella

Málsnúmer 201308088Vakta málsnúmer

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.Fjarskiptasamband í dreifbýli

Málsnúmer 201302127Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi, dags. 14.08.2013 frá Einari Ben Þorsteinssyni varðandi netsamband í dreifbýli. Þar kvartar hann undan lélegu og sveiflukenndu netsambandi víða i dreifbýli sveitarfélagsins. Hvetur hann bæjaryfirvöld til að leita úrbóta í þeim efnum, fh. viðkomandi íbúa.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð tekur undir með bréfritara og telur að við fyrsta tækifæri þurfi að gera verulegt átak til að bæta net- og fjarskiptasamband víða í dreifðum byggðum Fljótsdalshéraðs. Það á bæði við um þéttbýlið á Hallormsstað, Brúarási og Eiðum og einnig á einstökum sveitabæjum á Fljótsdalshéraði.
Vísað er til bréfs Símans dagsett 13.02.2013, en þar kemur fram að ekki verði uppfærður búnaður á Hallormsstað á árinu 2013. Í því bréfi er heldur ekki minnst á aðra hluta dreifbýlisins.
Bæjarráð beinir því til Símans að í framkvæmdaáætlun vegna ársins 2014, verði símstöðin á Hallormsstað uppfærð þannig að notendur þar njóti sambærilegra gæða í net- og sjónvarpsþjónustu og íbúar í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði. Jafnframt að skoðaðar verði aðrar símstöðvar í sveitarfélaginu td. í Brúarásskóla en hún þjónar næsta nágrenni, svo sem í Hótel Svartaskógi og einnig verði símstöð á Eiðum skoðuð.
Einnig verði sérstaklega hugað að þeim svæðum í dreifbýli Fljótsdalshéraðs, þar sem netsambandi með stuðningi Fjarskiptasjóðs var ekki komið á, eða fengu ekki ásættanlega úrlausn mála í því átaki.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Tilnefningar í Samstarfsnefnd og Samgöngunefnd SSA 2013

Málsnúmer 201308061Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Ólafi Áka Ragnarssyni dags. 19. ágúst 2013 með erindi frá aðalfundi SSA sem haldinn var 14.september 2012 um kosningar í samstarfsnefnd og samgöngunefnd SSA. Tilnefna skal 2 fulltrúa, einn karl og eina konu og verður annar fulltrúinn þá aðalmaður og hinn varamaður. Reynt verður að ná fram sem jöfnustu kynjahlutfalli í nefndunum.

Bæjarráð samþykkir með handauppréttingu að tilnefna Gunnhildi Ingvarsdóttur og Karl Lauritzson sem fulltrúa Fljótsdalshéraðs í samstarfsnefnd SSA, og Gunnar Jónsson og Sigrúnu Blöndal sem fulltrúa Fljótsdalshéraðs í samgöngunefnd SSA.

9.Aðalfundur SSA 2013

Málsnúmer 201308064Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dags. 19. ágúst 2013, frá Ólafi Áka Ragnarssyni fyrir hönd stjórnar SSA þar sem óskað er eftir tillögum/málefnum til umræðu og afgreiðslu í nefndum aðalfundar SSA sem haldinn verður 13.og 14.september n.k.

Bæjarráð tók saman nokkrar hugmyndir að umfjöllunarefnum og hefur þeim verið komið á framfæri við SSA með tölvupósti.

10.Umsókn um tónlistarnám í öðru sveitarfélagi

Málsnúmer 201308075Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi, dags. 20.ágúst 2013 frá Elísabetu Svövu Kristjánsdóttur, Möðrudal á Fjöllum, með beiðni um að dóttir hennar fái að stunda tónlistarnám á Akureyri þar sem hún er þar grunnskólanemandi.

Á grundvelli sérstakrar tímabundinnar undanþágu umsækjandans frá meginreglum um grunnskólavist utan heimasveitarfélags, samþykkir bæjarráð tímabundna kostnaðarþátttöku í grunnnámi í tónlist við Tónlistarskólann á Akureyri skólaárið 2013-2014.

11.Samþykkt um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201308078Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf innanríkisráðuneytisins, þar sem fram kemur að Samþykkt um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs hefur verið staðfest af ráðuneytinu og send til birtingar í B-deild stjórnartíðinda.
Einnig kemur fram að ráðuneytið staðfestir ekki fylgiskjal 1 með samþykktinni, en þar er gerð ítarlegri grein fyrir skipan allra nefnda en gert er í sjálfri samþykktinni. Starfsmenn ráðuneytisins benda á að rétt sé að dagsetning á samþykkt bæjarstjórnar á fylgiskjalinu komi fram í því og einnig að ákveðið ósamræmi sé þar í texta á einum stað, miðað við texta í samþykktinni.

Bæjarráð samþykkir að gera leiðréttingu á fylgiskjalinu svo það samræmist samþyktinni og bæta inn dagsetningu á samþykkt fylgiskjalsins í bæjarráði. Það verði síðan hengt við samþykktina.

12.Sláturhúsið menningarsetur ehf. Ársreikningur 2012

Málsnúmer 201308086Vakta málsnúmer

Ársreikningurinn lagður fram og staðfestur. Bæjarráð samþykkir jafnframt að fela Guðlaugi Sæbjörnssyni fjármálastjóra að fara með atkvæði sveitarfélagsins á næsta aðalfundi Sláturhússins menningarsetur ehf.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

13.Málþing um austfirsk málefni og aðalfundur Landsbyggðin lifi 2013

Málsnúmer 201308049Vakta málsnúmer

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var erindinu vísað til bæjarráðs til afgreiðslu.
Í erindinu er farið fram á að Fljótsdalshérað veiti framfarafélaginu styrk vegna málþings sem haldið verður á Hótel Héraði sunnudaginn 1. sept. næstkomandi.

Bæjarráð samþykkir samhljóða með handauppréttingu að veita framfarafélaginu 75.000 kr. styrk til ráðstefnuhaldsins. Kostnaðurinn færist á liðinn 21-50.

14.Leiga á Hlymsdölum.

Málsnúmer 201307027Vakta málsnúmer

Erindið var áður á dagskrá 238. fundar bæjarráðs.
Bæjarstjóri hefur fengið afrit að öllum reikningum og leigusamningum ársins vegna Hlymsdala og borið þá saman. Þar er í öllum tilfellum verið að innheimta miðað við gjaldskrá og tímalengd viðkomandi samninga.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð sér ekki annað en að reikningur vegna viðkomandi samnings sé í fullu samræmi við reglur og undirritaðan samning milli aðila.
Bæjarráð telur því ekki forsendur til að lækka áður útsendan reikning.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

15.Viðtalstímar bæjarfulltrúa

Málsnúmer 201201015Vakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir að leggja til að tillaga að viðtalstímum bæjarstjórnarfulltrúa á komandi vetri verði sendir bæjarfulltrúum til kynningar og síðan afgreiddir á næsta fundi bæjarstjórnar.

16.Evrópsk lýðræðisvika

Málsnúmer 201308107Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 23.ágúst 2013, þar sem sveitarfélög eru hvött er til að halda lýðræðisviku í kringum 15. október. Að þessu sinni verður lögð áhersla á virka þátttöku íbúa í sveitarstjórnarmálum og kosningum til sveitarstjórna.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarstjóra að móta tillögur fyrir næsta fund bæjarráðs.

17.Umsókn um styrk í styrktarsjóð EBÍ

Málsnúmer 201308108Vakta málsnúmer

Björn Ingimarsson bæjarstjóri kynnti umsókn í styrktarsjóð EBÍ, sem Óðinn Gunnar Óðinsson hefur unnið f.h. Fljótsdalshéraðs. Einnig mætti Óðinn Gunnar á fundinn undir þessum lið til að fylgja málinu eftir.
Umsóknin er vegna hönnunar og undirbúnings sýningar með áherslu á Lagarfljótsorminn og umhverfi hans.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti, með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

18.Skólaakstur

Málsnúmer 201308112Vakta málsnúmer

Fyrir liggja tvö erindi varðandi skólaakstur. Annað frá Kolbrúnu Evu Ríkarðsdóttur, en hitt frá Elísabetu S Kristjánsdóttur og Vilhjálmi Vernharðssyni.

Í reglum um innritun í grunnskóla á Fljótsdalshéraði og skilgreiningu á skólahverfum er gert ráð fyrir sveigjanlegu skólavali innan sveitarfélagsins en búseta ráði skipulagi skólahverfa og nemendur eigi skilyrðislausan forgang í hverfisskólann sinn. Umsóknir um skólavist utan lögheimilissveitarfélags eru hins vegar afgreiddar á grundvelli einstaklingsbundinna forsenda. Í fyrrnefndum reglum kemur einnig fram að þrátt fyrir sveigjanlegt skólaval innan sveitarfélagsins tryggir sveitarfélagið ekki skólaakstur fyrir nemendur sem eiga ekki lögheimili í því skólahverfi sem þeir sækja skóla í. Skólaakstur er skilgreindur sem skipulagður akstur grunnskólabarna úr dreifbýli í hverfisskóla sinn. Akstur frá þéttbýli í dreifbýlisskólana er samstarfsverkefni almenningssamgangna og skólaaksturs, þar sem boðið er upp á almenningssamgöngur frá tilteknum stað í þéttbýlinu að upphafsstað skólaaksturleiðar í viðkomandi skóla. Annar akstur en sá sem skipulagður er með fyrrnefndum samræmdum hætti er á ábyrgð og kostnað forráðamanna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð hafnar báðum erindunum á framangreindum forsendum.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

19.Reykjavíkurflugvöllur - framtíðarstaðsetning

Málsnúmer 201011096Vakta málsnúmer

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til auglýsts aðalskipulags Reykjavíkurborgar ítrekar bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs fyrri athugasemdir við fyrirhugaða lokun Reykjavíkurflugvallar á komandi árum.
Það viðhorf sem kemur fram í auglýstri tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem og í viðtölum við forsvarsmenn borgarinnar, vekur furðu þegar haft er í huga það hlutverk sem Reykjavíkurborg er ætlað sem höfuðborg landsins. Gangi hugmyndir borgaryfirvalda eftir er eðlilegt að stjórnvöld taki til endurskoðunar staðsetningu stofnana ríkisins sem hingað til hefur þótt eðlilegt að væru staðsettar í höfuðborg landsins.
Hér er í húfi tenging landsbyggðarinnar við nær alla opinbera þjónustu sem staðsett er í höfuðborginni, auk þess sem Reykjavíkurflugvöllur er lífæð sjúkraflugs og órjúfanlegur hluti af uppbyggingarhugmyndum um byggingu hátæknisjúkrahúss á Landspítalareitnum.
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs hvetur önnur sveitarfélög sem og hagsmunaaðila til að koma á framfæri athugasemdum vegna umrædds auglýsts aðalskipulags.
Bæjarráð hvetur íbúa Fljótsdalshéraðs til að láta skoðun sína á málinu í ljós og bendir meðal annars á undirskriftasöfnun þá sem nú er í gangi vegna framtíðar Reykjavíkurflugvallar.

Fundi slitið.