Umhverfis- og framkvæmdanefnd

90. fundur 25. apríl 2018 kl. 17:00 - 21:27 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Árni Kristinsson formaður
  • Þórhallur Borgarson 2. varaforseti
  • Guðrún Ragna Einarsdóttir aðalmaður
  • Ester Kjartansdóttir aðalmaður
  • Páll Sigvaldason aðalmaður
  • Gunnlaugur Rúnar Sigurðsson skipulags- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Gunnlaugur Rúnar Sigurðsson skipulags- og byggingarfulltrúi
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir að eftirfarandi atriðum verði bætt við dagskrá fundar og eru það, Umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr Brávöllum 2, Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, breyting á deiliskipulagi Flugvallar og afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 161. og verða þeir því nr. 13, 14, 15 og 16.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

1.Norðvestursvæði Egilsstaðir, deiliskipulag

Málsnúmer 201804035

Deiliskipulag Norðvestursvæðis Egilsstaða tekið til umfjöllunnar vegna áforma um uppbyggingu á lóðinni Lagarás 21 - 33.

Málið er í vinnslu.

2.Æskulýðsstefna Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201803138

Lögð eru fram lokadrög að æskulýðsstefnu Fljótsdalshéraðs.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd gerir ekki athugasemdir við æskulýðstefnunna.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Rafbílavæðing

Málsnúmer 201702095

Lagður er fram samningur milli Fljótsdalshéraðs og Hlöðu ehf.

Málið er í vinnslu.

4.Óveruleg breyting á deiliskipulagi, Selbrekku, 2 áfangi-efra svæði (6050)

Málsnúmer 201802135

Fyrir nefndinni liggur niðurstaða grenndarkynningar vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi, Selbrekku, 2 áfangi-efra svæði. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 9. apríl sl. ein athugasemd barst frá Aðalsteinni Þórhallssyni og Gyðu Guttormsdóttur.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að óverulegri breyting á deiliskipulagi Selbrekku verði samþykkt. Vegna upplýsinga um heildarumfang ósamræmis staðsetningar húsa að Bjarkaseli 14, 16 og 18, er sýnt að fyrri ákvörðun Fljótsdalshéraðs varðandi bílskúr Bjarkasels 16, hvíldi ekki á réttum/fullnægjandi upplýsingum. Krafa um niðurrif bygginga er afar íþyngjandi gagnvart eigendum fasteigna. Eins er ljóst að út frá jafnræðissjónarmiðum þarf Fljótsdalshérað að gæta samræmis varðandi viðbrögð vegna staðsetningar allra bygginga utan byggingarreits, á lóðunum Bjarkaseli 14, 16 og 18. Með vísan til þessa, sjónarmiða um meðalhóf og að ekki þurfi að koma til eyðileggingar verðmæta, er breyting á deiliskipulagi samþykkt eins henni er lýst í grenndarkynningu. Í ljósi athugasemda sem bárust er vísað til þess að afgreiðsla málsins er til hagsbóta fyrir eigendur allra lóða sem málið varðar.
Skipulags- og byggingafulltrúa er falið að svara athugasemdinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Tillaga að endurskoðaðri Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs

Málsnúmer 201803144

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs auglýsir hér með, skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, tillögu að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og tilgreinir nánar markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd, í samræmi við markmið laga um Vatnajökulsþjóðgarð


Umhverfis- og framkvæmdanefnd hefur tekið drögin til umsagnar og hér eru settar fram helstu athugasemdir við drögin. Áður hefur verið kynnt að Umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs hefur lýst furðu sinni á því að sveitarfélaginu barst ekki borist formlegt erindi frá Vatnajökulsþjóðgarði þar sem óskað var eftir umsögn um tillöguna. Nefndin gat því ekki lagt fram umsögn innan tilgreinds umsagnarfrests.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd telur óásættanlegt að málsmeðferð breytingar á verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, fari ekki eftir 4-6. mgr. 12. gr. laga um VJÞ, þar sem gert er ráð fyrir að svæðisráð leiði þá vinnu, heldur hvílir tillagan nú á undanþáguákvæði 7. mgr. um breytingar á vegum stjórnar VJÞ. Undanþáguákvæðinu var ætlað að eiga við um "lítilsháttar óumdeildar breytingar", sbr. frumvarp að lögum um VJÞ. Fyrirliggjandi breytingar á verndaráætlun, varða fjölmargar breytingar og heildarendurskoðun á framsetningu áætlunarinnar. Þá er um fyrstu endurskoðun á stjórnunar-og verndaráætlun að ræða frá setningu laga nr. 101/2016, sem fólu í sér verulegar breytingar á lögum um VJÞ.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd telur eðlilegt að vinna við endurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun VJÞ verði felld undir venju- og lögbundna málsmeðferð og gætt að hlutverki svæðisráða, sbr. einnig 2. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um VJÞ. Fyrirliggjandi drög geta nýst sem grunngagn í slíkri vinnu.

Í ljósi framangreinds og að öðru leyti með vísan til kynningarleysis á framkomnum drögum, er samráð og fyrirkomulag endurskoðunar áætlunarinnar gagnrýnt. Tillaga um breytingu á stjórnunar- og verndaráætlun VJÞ upp á 120 blaðsíður er sett fram, án þess að hægt sé að rekja þær breytingar sem lagðar eru til. Það eykur líkur á yfirsjónum og beinlínis felur breytingar. Við skoðun tillögunnar er ljóst að í áætluninni felast efnislegar breytingar varðandi mikilsháttar atriði, sem full ástæða er til að fella í samráðsferli sem almennt skal viðhafa við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og einstök svæðisráð eiga að leiða.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd gagnrýnir þann sess sem svæðisráð fá samkvæmt fyrirliggjandi drögum. Lítill sess svæðisráðanna og þeirrar þekkingar og umboðs sem þau hafa, birtist í því að lögákveðið hlutverk þeirra við endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar hefur verið sniðgengið. Þá er í áætluninni ekki fjallað um það hlutverk ráðanna að vera stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar, svo sem með nánari útfærslu á því lögákveðna hlutverki. Á sama hátt er ekki gerð nánari grein fyrir stöðu svæðisráða gagnvart þjóðgarðsvörðum. Lýsing á stöðu svæðisráða og skipurit á bls. 44 taka ekki mið af lögbundnu hlutverki ráðanna. Í áætluninni er stjórn eða þjóðgarðsvörðum falið að taka ákvarðanir um veigamikil málefni VJÞ. Áætlunin ætti að skýra nánar aðkomu svæðisráða að slíkum ákvörðunum, þ.e. annað hvort í einstökum tilfellum eða með almennri stefnumörkun, sbr. lögákveðið hlutverk ráðanna. Til dæmis mætti nefna að umfjöllun um áherslur og framkvæmd leyfisveitinga vegna lendinga á flugvöllum ætti að fá umfjöllun hjá svæðisráði.

Í drögum að verndaráætlun skortir nánast alla umfjöllun um það hvort og hvernig nýta eigi gjaldtökuheimildir innan VÞJ. Í lögum um VÞJ eru heimildir til gjaldtöku, en útfærsla og nýting þeirra fellur undir málefni stjórnunar- og verndaráætlunar. Áætlunin ætti að fela í sér stefnu um það hvernig gjaldtökuheimildir verði nýttar m.a. með tilliti til þess að ekki verði raskað atvinnustarfsemi og atvinnuuppbyggingu á svæðum. Eðli máls samkvæmt ber að fjalla nánar um þessa þætti í áætluninni, m.a. þannig að svæðisráð komi að þeirri ákvarðanatöku og að samráð verði haft við alla hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

Þá eru sett fram athugasemdir við nokkur efnisákvæði áætlunarinnar.

- Ekki hefur verið farið að ábendingum umhverfisráðherra frá 12. júlí 2013 varðandi Vonarskarð og ekki verður séð að reynt hafi verið að bregðast við þeim ábendingum í nýrri verndaráætlun.


- Slóð frá Snæfellsskála að Sauðárkofa verði opnuð og löguð . Við það verður til hringakstur sem eykur notagildi svæðisins fyrir ferðaþjónustu og ferðamenn sem skoða svæðið. Þessum slóða hefur verið haldið lokuðum og hann ekki fengið viðhald frá því að garðurinn var stofnaður, þrátt fyrir skýr fyrirmæli um annað í gildandi verndaráætlun.

- Víða í tillögunum er talað um svæði "rétt utan þjóðgarðs" Ekki er ásættanlegt að þjóðgarðurinn reyni að hlutast til um svæði sem hann hefur enga lögsögu yfir. Stjórnunar- og verndaráætlun hefur lögformlegt gildi og bindandi þýðingu, sem takmakar m.a. skipulagsvald sveitarfélags, en það getur einungis átt við um svæði innan marka VJÞ.

- Eitt af markmiðum með stofnun var að styðja við atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu á svæðunum. Ekki verður séð af drögunum að þau markmið séu í hávegum höfð þar sem vegið er að ferðum fólks með banni á tjöldun eða akstri á slóðum sem fyrir eru. Nauðsynlegt er að samræma stefnu um aðgang almennings að þjónustustöðum VJÞ. Sem dæmi má nefna að áætlunin gerir ráð fyrir að einungis verði fært fyrir jeppa að þjónustustað við Snæfell, en að þjónustustöðum á Suðursvæði er jafnan opið fyrir allar tegundir bifreiða.

- Skilgreining þjóðgarðsins á ósnortnum víðernum er til þess fallin að valda misskilningi enda hefur hugtakið ósnortin víðerni lögákveðna merkingu í náttúruverndarlögum.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd telur að fyrirliggjandi drög beri þess merki að VJÞ hafi fjarlægst þau markmið sem stofnun þjóðgarðsins hvíldi á í upphafi. Þannig er t.a.m. vísað til þýðingar svæðisráða og gildi samráðs við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Breyting á lögum um VJÞ og drög að áætlun birtast sem aðferð stjórnvalda til að sölsa undir sig skipulags- og framkvæmdavald sveitarfélaga óháð þörfum eða væntingum heimamanna. Ekki verður séð að fyrirliggjandi drög vinni að því að styrkja ferðamennsku á svæðinu, heldur felast í þeim höft og hindranir. Lítil uppbygging innviða fer fram innan garðsins og áætlunin takmarkar jafnvel að eðlileg uppbygging innviða eigi sér stað.
Loks vill Umhverfis- og framkvæmdanefnd árétta að ekki hefur verið staðið við þau loforð sem gefin voru í upphafi um að yfirstjórn garðsins hafi aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins. Um það málefni er ekki fjallað í drögum að stjórnunar- og verndaráætlun.


Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Ósk um breytingu á deiliskipulagi, Ylströnd við Urriðavatn

Málsnúmer 201710005

Fyrir nefndinni liggur ósk um breytingu á deiliskipulagi, Ylströnd við Urriðavatn, fyrir liggur jákvæð umsögn Vegagerðarinnar á deiliskipulagstillögunni.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við Bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.

Byggingarleyfi verður gefið út að lokinni minjaskráningu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Tjarnarbrautarreitur - breyting á deiliskipulagi, íþróttahús

Málsnúmer 201703038

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Tjarnarbrautarreit á Egilsstöðum að loknum auglýsingar og kynningarferli. Í tillögunni felst breyting á lögun byggingarreits fyrir fimleika- og frjálsíþróttahús norðan núverandi íþróttahúss, skilmálar verða ítarlegri og gert er ráð fyrir boltavelli sunnan sundlaugar. Tillagan er sett fram í greinargerð og á uppdrætti sem sýnir skipulagið fyrir og eftir breytingu skv. tillögunni. Sýnt er skuggavarp nýrrar viðbyggingar.

Við tillöguna barst ein athugasemdi undirrituð af 8 íbúum við Furuvelli og Sólbrekku. Hér undir eru athugsemdir sem bárust ásamt svörum nefndarinnar:

1. Gerð er athugasemd við framsetningu uppdráttarins almennt, sérstaklega skipulagsmarka.
Svar:
Rétt er að skýringatákn fyrir línu sem sýnir afmörkun skipulagssvæðisins er ekki í fullu samræmi við línuna á uppdrættinum og það þarf að leiðrétta en um rauða, breiða línu er að ræða í báðum tilfellum og ekki ástæða til að ætla að það valdi misskilningi, einkum þegar borið er saman við skipulagsmörk eins og þau eru sýnd í gildandi deiliskipulagi.
Á uppdrættinum fyrir breytingartillöguna er sýndur sá hluti skipulagssvæðisins sem breytingin varðar, bæði fyrir og eftir breytingu, eins og kveðið er á um í gr. 5.8.5.3. í skipulagsreglugerð. Þar er einnig tilgreint að nota skuli gildandi uppdrátt sem grunn, og var það gert í þessu tilfelli fyrir utan að loftmynd sem lá undir teiknuðum afmörkunum var ekki höfð með. Var það einmitt gert til að auðvelda samanburð milli afmarkanna fyrir og eftir breytingu. Það var því reynt að fara mjög varlega í að breyta framsetningu uppdráttarins frá gildandi skipulagi en hugsanlega hefði hann verið teiknaður öðruvísi ef um nýtt deiliskipulag hefði verið að ræða.

2. Byggingarreitur er sýndur mun stærri en fyrirhuguð bygging.
Svar:
Byggingarreitir í deiliskipulagi eru stundum hafðir rúmir til þess að hönnun mannvirkisins sé ekki of þröngur stakkur sniðinn, t.d. um uppbrot húshliða eða staka byggingarhluta sem hönnuður velur að láta ganga út úr húshliðinni, svo sem anddyri.

3. Aðkoma að nýjum byggingum er ekki sýnd og ekki heldur bílastæði fyrir hreyfihamlaða.
Svar:
Aðkoma að mannvirkjum kemur skýrt fram á uppdrættinum og breytist ekki. Í greinargerð er útskýrt að inngangur í viðbyggingu er um aðalinngang íþróttamiðstöðvarinnar. Kveðið er á um að gerð skuli grein fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóðauppdráttum.

4 og 6. Bílastæðum er fækkað og lögð til samnýting bílastæða með Menntaskólanum. Gestabílastæði við Furuvelli ekki sýnd.
Svar:
Bílastæðaframboð er talið fullnægjandi eftir breytingu skv. tillögunni. Íþróttaiðkunn þeirra sem koma akandi er einkum eftir vinnutíma og því eðlilegt að samnýta bílastæði annarra opinberra aðila sem nýta stæðin á vinnutíma. Gestastæði við Furuvelli er til komið á óformlegan hátt og á sér ekki stoð í skipulagi. Engar skorður eru settar við því að gestir íbúa í grenndinni nýti bílastæði opinberra aðila á deiliskipulagssvæðinu.

5. Óskýrt og ruglingslegt flæði bílastæða, einkum nyrst á lóðinni.
Svar:
Engin grundvallarbreyting er gerð, þótt vissulega megi búast við meiri þrengslum á bílastæðinu norðan viðbyggingarinnar. Hafa ber í huga að deiliskipulagsuppdráttur sýnir ekki nákvæma útfærslu bílastæða heldur fjölda og megindrætti í fyrirkomulagi. Endanleg útfærsla ræðst við hönnun lóðarinnar, eins og getið er um í skilmálum.

7. Snjósöfnunarsvæði og varabílastæði tapast.
Svar:
Hugsanlega tapast eitthvert hagræði af því að bílastæðið á þessum hluta lóðarinnar minnkar en það þarf að skoða í ljósi þess að fyrirhuguð mannvirki skipta samfélagið miklu máli og munu bæta íþróttaaðstöðu verulega.

8. Órökstudd þörf fyrir staðsetningu fimleikahúss á lóðinni.
Svar:
Hagræði af því að reka fimleikahúsið og íþróttamiðstöðina sem eina einingu er nokkuð augljóst.

Eftirfarandi tillaga borin upp til atkvæðagreiðslu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd hafnar innkomnum athugasemdum og leggur til við Bæjarstjórn að hún samþykki breytinguna á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreits og geri svör nefndarinnar við athugasemdum að sínum.

Já segja fjórir, (AK, EK, GRE og ÞB) einn greiðir ekki athvæði,(PS).


Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Fjárhagsáætlun umhverfis- og framkvæmdanefndar fyrir 2019

Málsnúmer 201803145

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir fjárhagsramma fyrir árið 2019. Jafnframt telur nefndin að gera þurfi greiningu á málaflokknum sorphirða og -förgun til fá betri yfirsýn yfir málaflokkinn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Óverulega breyting á Athafna- og iðnaðarsvæði við Miðás og Brúnás

Málsnúmer 201804089

Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Athafna- og iðnaðarsvæði við Miðás og Brúnás.

Málinu er frestað.

10.Náttúrustofa Austurlands, 1. fundur stjórnar 2018

Málsnúmer 201804059

Lagt fram til kynningar.

11.Tilkynning um niðurfellingu Hleinargarðsvegar af vegaskrá

Málsnúmer 201804046

Lögð er fram tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaða niðurfellingu Hleinargarðsvegar nr. 949-01 af vegaskrá.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd gerir athugasemd við áformin í ljósi þess að fyrirhuguð er atvinnustafsemi á jörðinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

12.Sorporka

Málsnúmer 201804001

Lögð er fram kynning á verkefninu Sorporkustöð á Vestfjörðum.

13.Umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu við íbúðarhús. Brávellir 2.

Málsnúmer 201712114

Umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu við íbúðarhús, Brávellir 2. Grenndarkynning hefur farið fram, engar athugasemdir bárust.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir erindið og felur Skipulags- og byggingarfulltrúa það til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

14.Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum

Málsnúmer 201804133

Lagt er fram erindi frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, frestur til að gera athugasemdir er til 4. maí nk.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd gerir ekki athugasemd við frumvarpið að svo stöddu. Nefndinn átelur þann stutta frest sem gefin er til að gera athugasemdir við frumvarpið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

15.Breyting á deiliskipulagi Flugvallar

Málsnúmer 201802076

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan fái afgreiðslu í samræmi við 43. gr. skipulaglaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

16.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs - 161

Málsnúmer 1802024F

Lögð fram fundargerð 161. afgreiðslufundar byggingarfulltrúa til kynningar.
  • 16.1 201705197 Umsókn um byggingarleyfi/Tjarnarlandi
  • 16.2 201802178 Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Einarsstaði 8.
  • 16.3 201802181 Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Einarsstaði 7.
  • 16.4 201802184 Umsókn um byggingarleyfi vegna breyting á Lyngás 15
  • 16.5 201801032 Umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á Fagradalsbraut 13
  • 16.6 201803124 Umsókn um byggingarleyfi vegna niðurrifs á byggingum að Fögruhlíð

Fundi slitið - kl. 21:27.