Tillaga að endurskoðaðri Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs

Málsnúmer 201803144

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 88. fundur - 26.03.2018

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs auglýsir hér með, skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, tillögu að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og tilgreinir nánar
markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd, í samræmi við markmið laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 89. fundur - 11.04.2018

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs auglýsir hér með, skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, tillögu að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og tilgreinir nánar markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd, í samræmi við markmið laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd lýsir furðu sinni á því að sveitarfélaginu hefur ekki borist formlegt erindi frá Vatnajökulsþjóðgarði þar sem óskað er eftir umsögn um tillöguna. Í ljósi þess mun nefndin ekki ná að skila umsögn sinni fyrr en að loknum umsagnarfresti, þar sem þetta er viðamikið mál og snertir hagsmuni margra. Lagt er til að athugasemdir nefndarinnar verði sendar lögfræðingi sveitarfélagsins til yfirlestrar og lagt svo fyrir nefndina að því loknu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi frestað kl. 21:00 og framhaldið kl. 17:00 12. apríl nk.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 90. fundur - 25.04.2018

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs auglýsir hér með, skv. 12. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, tillögu að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og tilgreinir nánar markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd, í samræmi við markmið laga um Vatnajökulsþjóðgarð


Umhverfis- og framkvæmdanefnd hefur tekið drögin til umsagnar og hér eru settar fram helstu athugasemdir við drögin. Áður hefur verið kynnt að Umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs hefur lýst furðu sinni á því að sveitarfélaginu barst ekki borist formlegt erindi frá Vatnajökulsþjóðgarði þar sem óskað var eftir umsögn um tillöguna. Nefndin gat því ekki lagt fram umsögn innan tilgreinds umsagnarfrests.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd telur óásættanlegt að málsmeðferð breytingar á verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, fari ekki eftir 4-6. mgr. 12. gr. laga um VJÞ, þar sem gert er ráð fyrir að svæðisráð leiði þá vinnu, heldur hvílir tillagan nú á undanþáguákvæði 7. mgr. um breytingar á vegum stjórnar VJÞ. Undanþáguákvæðinu var ætlað að eiga við um "lítilsháttar óumdeildar breytingar", sbr. frumvarp að lögum um VJÞ. Fyrirliggjandi breytingar á verndaráætlun, varða fjölmargar breytingar og heildarendurskoðun á framsetningu áætlunarinnar. Þá er um fyrstu endurskoðun á stjórnunar-og verndaráætlun að ræða frá setningu laga nr. 101/2016, sem fólu í sér verulegar breytingar á lögum um VJÞ.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd telur eðlilegt að vinna við endurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun VJÞ verði felld undir venju- og lögbundna málsmeðferð og gætt að hlutverki svæðisráða, sbr. einnig 2. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um VJÞ. Fyrirliggjandi drög geta nýst sem grunngagn í slíkri vinnu.

Í ljósi framangreinds og að öðru leyti með vísan til kynningarleysis á framkomnum drögum, er samráð og fyrirkomulag endurskoðunar áætlunarinnar gagnrýnt. Tillaga um breytingu á stjórnunar- og verndaráætlun VJÞ upp á 120 blaðsíður er sett fram, án þess að hægt sé að rekja þær breytingar sem lagðar eru til. Það eykur líkur á yfirsjónum og beinlínis felur breytingar. Við skoðun tillögunnar er ljóst að í áætluninni felast efnislegar breytingar varðandi mikilsháttar atriði, sem full ástæða er til að fella í samráðsferli sem almennt skal viðhafa við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og einstök svæðisráð eiga að leiða.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd gagnrýnir þann sess sem svæðisráð fá samkvæmt fyrirliggjandi drögum. Lítill sess svæðisráðanna og þeirrar þekkingar og umboðs sem þau hafa, birtist í því að lögákveðið hlutverk þeirra við endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar hefur verið sniðgengið. Þá er í áætluninni ekki fjallað um það hlutverk ráðanna að vera stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar, svo sem með nánari útfærslu á því lögákveðna hlutverki. Á sama hátt er ekki gerð nánari grein fyrir stöðu svæðisráða gagnvart þjóðgarðsvörðum. Lýsing á stöðu svæðisráða og skipurit á bls. 44 taka ekki mið af lögbundnu hlutverki ráðanna. Í áætluninni er stjórn eða þjóðgarðsvörðum falið að taka ákvarðanir um veigamikil málefni VJÞ. Áætlunin ætti að skýra nánar aðkomu svæðisráða að slíkum ákvörðunum, þ.e. annað hvort í einstökum tilfellum eða með almennri stefnumörkun, sbr. lögákveðið hlutverk ráðanna. Til dæmis mætti nefna að umfjöllun um áherslur og framkvæmd leyfisveitinga vegna lendinga á flugvöllum ætti að fá umfjöllun hjá svæðisráði.

Í drögum að verndaráætlun skortir nánast alla umfjöllun um það hvort og hvernig nýta eigi gjaldtökuheimildir innan VÞJ. Í lögum um VÞJ eru heimildir til gjaldtöku, en útfærsla og nýting þeirra fellur undir málefni stjórnunar- og verndaráætlunar. Áætlunin ætti að fela í sér stefnu um það hvernig gjaldtökuheimildir verði nýttar m.a. með tilliti til þess að ekki verði raskað atvinnustarfsemi og atvinnuuppbyggingu á svæðum. Eðli máls samkvæmt ber að fjalla nánar um þessa þætti í áætluninni, m.a. þannig að svæðisráð komi að þeirri ákvarðanatöku og að samráð verði haft við alla hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

Þá eru sett fram athugasemdir við nokkur efnisákvæði áætlunarinnar.

- Ekki hefur verið farið að ábendingum umhverfisráðherra frá 12. júlí 2013 varðandi Vonarskarð og ekki verður séð að reynt hafi verið að bregðast við þeim ábendingum í nýrri verndaráætlun.


- Slóð frá Snæfellsskála að Sauðárkofa verði opnuð og löguð . Við það verður til hringakstur sem eykur notagildi svæðisins fyrir ferðaþjónustu og ferðamenn sem skoða svæðið. Þessum slóða hefur verið haldið lokuðum og hann ekki fengið viðhald frá því að garðurinn var stofnaður, þrátt fyrir skýr fyrirmæli um annað í gildandi verndaráætlun.

- Víða í tillögunum er talað um svæði "rétt utan þjóðgarðs" Ekki er ásættanlegt að þjóðgarðurinn reyni að hlutast til um svæði sem hann hefur enga lögsögu yfir. Stjórnunar- og verndaráætlun hefur lögformlegt gildi og bindandi þýðingu, sem takmakar m.a. skipulagsvald sveitarfélags, en það getur einungis átt við um svæði innan marka VJÞ.

- Eitt af markmiðum með stofnun var að styðja við atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu á svæðunum. Ekki verður séð af drögunum að þau markmið séu í hávegum höfð þar sem vegið er að ferðum fólks með banni á tjöldun eða akstri á slóðum sem fyrir eru. Nauðsynlegt er að samræma stefnu um aðgang almennings að þjónustustöðum VJÞ. Sem dæmi má nefna að áætlunin gerir ráð fyrir að einungis verði fært fyrir jeppa að þjónustustað við Snæfell, en að þjónustustöðum á Suðursvæði er jafnan opið fyrir allar tegundir bifreiða.

- Skilgreining þjóðgarðsins á ósnortnum víðernum er til þess fallin að valda misskilningi enda hefur hugtakið ósnortin víðerni lögákveðna merkingu í náttúruverndarlögum.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd telur að fyrirliggjandi drög beri þess merki að VJÞ hafi fjarlægst þau markmið sem stofnun þjóðgarðsins hvíldi á í upphafi. Þannig er t.a.m. vísað til þýðingar svæðisráða og gildi samráðs við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Breyting á lögum um VJÞ og drög að áætlun birtast sem aðferð stjórnvalda til að sölsa undir sig skipulags- og framkvæmdavald sveitarfélaga óháð þörfum eða væntingum heimamanna. Ekki verður séð að fyrirliggjandi drög vinni að því að styrkja ferðamennsku á svæðinu, heldur felast í þeim höft og hindranir. Lítil uppbygging innviða fer fram innan garðsins og áætlunin takmarkar jafnvel að eðlileg uppbygging innviða eigi sér stað.
Loks vill Umhverfis- og framkvæmdanefnd árétta að ekki hefur verið staðið við þau loforð sem gefin voru í upphafi um að yfirstjórn garðsins hafi aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins. Um það málefni er ekki fjallað í drögum að stjórnunar- og verndaráætlun.


Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.