Tjarnarbrautarreitur - breyting á deiliskipulagi, íþróttahús

Málsnúmer 201703038

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 66. fundur - 22.03.2017

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreitar.
Gildandi deiliskipulag Tjarnarbrautarreitar var samþykkt í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 17.12.2008.
Í breytingunni felst að stækka byggingarreit til norðurs, norðan við íþróttamiðstöð sem nemur 14,3 metrum. Þetta er gert til að koma fyrir stækkun á íþróttahúsi að stærð 29m x 44m sem til stendur að liggi samsíða núverandi áhaldageymslu norðan við hús.
Sunnan við íþróttamiðstöð verði gert ráð fyrir körfuboltavelli.
Heildarfjöldi bílastæða á lóð fækkar um níu stæði frá gildandi skipulagi, en ætlunin er að koma á móts við fækkun stæða með bílastæðum á bæjarlandi vestan við Tjarnarbrautina.
Engin breyting gerð á hámarks byggingarmagni frá gildandi skipulagi.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd samþykkir erindið og felur Skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi Tjarnarbrautarreits, dags. 16.3.2017 skv. 43.gr.Skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 31. fundur - 24.05.2017

Lagt er fram til kynningar breyting á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreitar vegna viðbyggingar við Íþróttamiðstöð.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd fagnar uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu en beinir því til umhverfis- og framkvæmdanefndar að huga vel að aðgengi fatlaðra, sem og stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur að íþróttamannvirkjunum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs - 59. fundur - 31.05.2017

Lagt er fram til kynningar breyting á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreitar vegna viðbyggingar við Íþróttamiðstöð.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs fagnar uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu en beinir því til umhverfis- og framkvæmdanefndar að huga vel að aðgengi fatlaðra, sem og stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur að íþróttamannvirkjunum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 71. fundur - 14.06.2017

Umhverfis- og framkvæmdanefnd frestar afgreiðslu málsins. Starfsmönnum falið að taka saman svör við athugasemdum og skila fyrir næsta fund.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 73. fundur - 12.07.2017

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreits ásamt athugasemdum sem bárust við grendarkynninguna.
Málið var áður á dagskrá 71. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar þann 14.6. sl. Fyrir liggur skjal unnið af skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem athugasemdir eru tilgreindar og þeim svarað.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd frestar afgreiðslu málsins og kallar eftir nákvæmum upplýsingum um húsgerð og staðsetningu á byggingarreitnum. Skipulagstillagan verður endurskoðuð og send til kynningar þegar þær upplýsingar liggja fyrir.

Skipulags- og byggingarfulltrúa falið að svara innkomnum athugasemdum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Ágústa Björnsdóttir vék af fundi undir afgreiðslu þessa liðs.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 82. fundur - 04.01.2018

Lögð er fram gögn vegna fyrirhugaðrar byggingar fimleikahúss.

Málið er í vinnslu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 83. fundur - 10.01.2018

Lögð eru fram gögn vegna fyrirhugaðrar byggingar fimleikahúss.
Málið var áður á dagskrá þann 4. janúar sl.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreits þar sem gert verður ráð fyrir viðbyggingu við Íþróttamiðstöðinna.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 84. fundur - 24.01.2018

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Tjarnarbrautarreit á Egilsstöðum. Skv. tillögunni breytist lögun byggingarreits fyrir fimleika- og frjálsíþróttahús norðan núverandi íþróttahúss, skilmálar verða ítarlegri og gert er ráð fyrir boltavelli sunnan sundlaugar. Tillagan er sett fram í greinargerð og uppdrætti sem sýnir skipulagið fyrir og eftir breytingu skv. tillögunni. Sýnt er skuggavarp nýrrar viðbyggingar.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu deiliskipulags Tjarnarbrautarreits fái umfjöllun samkvæmt 43.gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 90. fundur - 25.04.2018

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Tjarnarbrautarreit á Egilsstöðum að loknum auglýsingar og kynningarferli. Í tillögunni felst breyting á lögun byggingarreits fyrir fimleika- og frjálsíþróttahús norðan núverandi íþróttahúss, skilmálar verða ítarlegri og gert er ráð fyrir boltavelli sunnan sundlaugar. Tillagan er sett fram í greinargerð og á uppdrætti sem sýnir skipulagið fyrir og eftir breytingu skv. tillögunni. Sýnt er skuggavarp nýrrar viðbyggingar.

Við tillöguna barst ein athugasemdi undirrituð af 8 íbúum við Furuvelli og Sólbrekku. Hér undir eru athugsemdir sem bárust ásamt svörum nefndarinnar:

1. Gerð er athugasemd við framsetningu uppdráttarins almennt, sérstaklega skipulagsmarka.
Svar:
Rétt er að skýringatákn fyrir línu sem sýnir afmörkun skipulagssvæðisins er ekki í fullu samræmi við línuna á uppdrættinum og það þarf að leiðrétta en um rauða, breiða línu er að ræða í báðum tilfellum og ekki ástæða til að ætla að það valdi misskilningi, einkum þegar borið er saman við skipulagsmörk eins og þau eru sýnd í gildandi deiliskipulagi.
Á uppdrættinum fyrir breytingartillöguna er sýndur sá hluti skipulagssvæðisins sem breytingin varðar, bæði fyrir og eftir breytingu, eins og kveðið er á um í gr. 5.8.5.3. í skipulagsreglugerð. Þar er einnig tilgreint að nota skuli gildandi uppdrátt sem grunn, og var það gert í þessu tilfelli fyrir utan að loftmynd sem lá undir teiknuðum afmörkunum var ekki höfð með. Var það einmitt gert til að auðvelda samanburð milli afmarkanna fyrir og eftir breytingu. Það var því reynt að fara mjög varlega í að breyta framsetningu uppdráttarins frá gildandi skipulagi en hugsanlega hefði hann verið teiknaður öðruvísi ef um nýtt deiliskipulag hefði verið að ræða.

2. Byggingarreitur er sýndur mun stærri en fyrirhuguð bygging.
Svar:
Byggingarreitir í deiliskipulagi eru stundum hafðir rúmir til þess að hönnun mannvirkisins sé ekki of þröngur stakkur sniðinn, t.d. um uppbrot húshliða eða staka byggingarhluta sem hönnuður velur að láta ganga út úr húshliðinni, svo sem anddyri.

3. Aðkoma að nýjum byggingum er ekki sýnd og ekki heldur bílastæði fyrir hreyfihamlaða.
Svar:
Aðkoma að mannvirkjum kemur skýrt fram á uppdrættinum og breytist ekki. Í greinargerð er útskýrt að inngangur í viðbyggingu er um aðalinngang íþróttamiðstöðvarinnar. Kveðið er á um að gerð skuli grein fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóðauppdráttum.

4 og 6. Bílastæðum er fækkað og lögð til samnýting bílastæða með Menntaskólanum. Gestabílastæði við Furuvelli ekki sýnd.
Svar:
Bílastæðaframboð er talið fullnægjandi eftir breytingu skv. tillögunni. Íþróttaiðkunn þeirra sem koma akandi er einkum eftir vinnutíma og því eðlilegt að samnýta bílastæði annarra opinberra aðila sem nýta stæðin á vinnutíma. Gestastæði við Furuvelli er til komið á óformlegan hátt og á sér ekki stoð í skipulagi. Engar skorður eru settar við því að gestir íbúa í grenndinni nýti bílastæði opinberra aðila á deiliskipulagssvæðinu.

5. Óskýrt og ruglingslegt flæði bílastæða, einkum nyrst á lóðinni.
Svar:
Engin grundvallarbreyting er gerð, þótt vissulega megi búast við meiri þrengslum á bílastæðinu norðan viðbyggingarinnar. Hafa ber í huga að deiliskipulagsuppdráttur sýnir ekki nákvæma útfærslu bílastæða heldur fjölda og megindrætti í fyrirkomulagi. Endanleg útfærsla ræðst við hönnun lóðarinnar, eins og getið er um í skilmálum.

7. Snjósöfnunarsvæði og varabílastæði tapast.
Svar:
Hugsanlega tapast eitthvert hagræði af því að bílastæðið á þessum hluta lóðarinnar minnkar en það þarf að skoða í ljósi þess að fyrirhuguð mannvirki skipta samfélagið miklu máli og munu bæta íþróttaaðstöðu verulega.

8. Órökstudd þörf fyrir staðsetningu fimleikahúss á lóðinni.
Svar:
Hagræði af því að reka fimleikahúsið og íþróttamiðstöðina sem eina einingu er nokkuð augljóst.

Eftirfarandi tillaga borin upp til atkvæðagreiðslu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd hafnar innkomnum athugasemdum og leggur til við Bæjarstjórn að hún samþykki breytinguna á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreits og geri svör nefndarinnar við athugasemdum að sínum.

Já segja fjórir, (AK, EK, GRE og ÞB) einn greiðir ekki athvæði,(PS).


Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.