Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs

59. fundur 31. maí 2017 kl. 17:00 - 19:00 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Aron Steinn Halldórsson aðalmaður
  • Ásta Evlalía Hrafnkelsdóttir aðalmaður
  • Aðalheiður Sjöfn Helgadóttir varamaður
  • Árndís Birgitta Georgsdóttir varamaður
Fundargerð ritaði: Bylgja Borgþórsdóttir verkefnastjóri íþrótta- tómstunda- og forvarnarmála

1.Ormsteiti 2017

Málsnúmer 201702030

Reynir Hólm Gunnarsson kom fyrir hönd Nýungar og Vegahússins og ræddi ungmennadagskrá Ormsteitis. Bað um hugmyndir að dagskrárliðum.
Ungmennaráð er sammála um að nauðsynlegt sé að Ormsteiti ráðstafi fjármagni til ungmennaskemmtunar á hátíðinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Forvarnadagur 2017

Málsnúmer 201705178

Reynir Hólm Gunnarsson kynnti dagskrá Forvarnadags á Héraði 2017 og hvernig til tókst. Ungmennaráð Fljóstdalshéraðs lýsir ánægju sinni með daginn og þeirri samvinnu sem er á milli Ungmennaráðs og Nýungar. Ungmennaráð vonast til þess að Forvarnadegi verði haldið áfram með svipuðu sniði næstu ár.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Vegahús - fyrirkomulag

Málsnúmer 201705176

Reynir Hólm Gunnarsson kynnti tillögur að breyttu fyrirkomulagi Vegahúss veturinn 2017-2018. Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs lýsir ánægju sinni með aukna þjónustu Vegahúss og vonast til þess að sú frábæra aðstaða sem þar er til staðar verði betur nýtt.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Aðalfundur SSA 2017

Málsnúmer 201705045

Bæjarráð óskar eftir tillögum og málum til umfjöllunar á aðalfundi SSA sem verður haldinn 29. til 30. september næstkomandi.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs óskar eftir því að staða geðheilbrigðismála á Austurlandi verði rædd á aðalfundi SSA, ekki síst í ljósi aukins kvíða og vanlíðan stúlkna og sjálfsvígstíðni ungra karlmanna. Þá óskar Ungmennaráð eftir því að aðalfundur SSA ræði aukna möguleika á háskólanámi á Austurlandi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Ungmennaþing 2017

Málsnúmer 201701005

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs lýsir ánægju sinni með umgjörð Ungmennaþings 2017, sem bar yfirskriftina Ábyrgð ungs fólks á Austurlandi.

Ungmennaráð leggur fram eftirfarandi ályktun:

Þann 19. apríl 2017 stóð Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs fyrir Ungmennaþingi í Valaskjálf á Egilsstöðum. Yfirskrift þingsins var Ábyrgð ungs fólks á Austurlandi og fluttu Margrét Gauja Magnúsdóttir, kennari, bæjarfulltrúi og fyrrum varaþingmaður, og Dagur Skírnir Óðinsson og Margrét Árnadóttir, meðlimir félagsins Ungs Austurlands, erindi. Aron Steinn Halldórsson, formaður Ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs, setti þingið. Á eftir honum kom Margrét Gauja í pontu og ræddi um mikilvægi þátttöku ungmenna og leiðir fyrir þau til að taka sér vald. Eftir erindi Margrétar Gauju hófst fyrsti umræðuhópurinn undir hennar stjórn. Þá fluttu Dagur Skírnir og Margrét, frá Ungu Austurlandi, sitt erindi og að því loknu hófst síðari umræðuhópur sem þau stýrðu. Þakkar Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs Margréti Gauju, Degi Skírni og Margréti sem og öllum gestum þingsins fyrir að mæta og láta rödd sína heyrast.

Þinggestir voru sammála um að öll ungmenni ættu skilið jöfn tækifæri, óháð kyni eða öðrum breytum, og ræddar voru mögulegar ástæður þess að stelpum sem búsettar eru úti á landi virðist líða verr en strákum á sömu svæðum. Þar spilar mögulega inn í íhaldssemi samfélaga og félagsmótun sem ýtir undir streitu og vanlíðan. Þá eru sjálfsvíg algengasta dánarorsök ungra karlmanna og nauðsynlegt að bregðast enn frekar við því. Gestir voru samhuga um mikilvægi þess að ungt fólk fyndi að það gæti leitað sér hjálpar á sínum heimaslóðum, og að nauðsynleg aðstoð og þjónusta sérfræðinga væri til staðar á Austurlandi. Þá voru þinggestir sammála um að enn frekar þyrfti að efla jafnréttisumræðu og kynjafræðslu á öllum skólastigum, meðal annars til að sporna við vanlíðan ungs fólks og auka valdeflingu þess.

Gestir þingsins ræddu að auki um atvinnumarkaðinn á Austurlandi og voru sammála um að fjölbreyttari störf og meiri samkeppni við höfuðborgarsvæðið þyrfti til þess að ungt fólk sem hyggst mennta sig áfram sjái hag sinn í því að búa á Austurlandi að námi loknu.

Að lokum fer þingið fram á að sveitarfélög á Austurlandi leyfi ungmennaráðum og ungu fólki að hafa mun meira að segja á sveitastjórnarstiginu, til að hugmyndir og hugsjónir þess fái sín notið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Tjarnarbrautarreitur - breyting á deiliskipulagi, íþróttahús

Málsnúmer 201703038

Lagt er fram til kynningar breyting á deiliskipulagi Tjarnarbrautarreitar vegna viðbyggingar við Íþróttamiðstöð.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs fagnar uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu en beinir því til umhverfis- og framkvæmdanefndar að huga vel að aðgengi fatlaðra, sem og stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur að íþróttamannvirkjunum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Fjárhagsáætlun Ungmennaráðs 2018

Málsnúmer 201705177

Til umfjöllunar er fjárhagsáætlun Ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs.

Ungmennaráð vísar drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 til bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

8.Næstu verkefni og áherslur ungmennaráðs

Málsnúmer 201611009

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs leggur til, í ljósi þess að framtíð Hússtjórnarskólans á Hallormsstað er óljós, að fulltrúi skólans í Ungmennaráði árið 2017-2018 komi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þá leggur Ungmennaráð til að 9. grein samþykktar fyrir ungmennaráð verði breytt á þennan hátt "Ungmennaráð heldur allt að 2 fundi í mánuði. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og ungmennaráðs skulu halda 1-2 sameiginlega fundi á starfstíma hvers ungmennaráðs. Dagskrá fundarins skal undirbúin af formanni ungmennaráðs og bæjarstjóra."

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs leggur til að meðlimir ráðsins fái aðgang að fundagátt sveitarfélagsins, líkt og aðrir nefndarmenn sem hjá því starfa. Það hjálpar til við undirbúning og faglegt starf ráðsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á að næsta haust verði starfsemi þessi kynnt vel í öllum skólum sveitarfélagsins og að þeir sem veljist til starfa í ráðinu séu þar af heilum hug. Eru núverandi meðlimir ráðsins reiðubúnir að aðstoða við kynningu á því.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs hvetur næsta ráð til gerðar framkvæmdaáætlunar strax í haust, sem markar stefnu og áherslu þess.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Þar sem þetta er síðasti fundur Ungmennaráðs sem kosið var til starfa síðast liðið haust, þakkar Fljótsdalshérað fulltrúunum kærlega fyrir samstarfið og vel unnin störf.

Fundi slitið - kl. 19:00.