Framkvæmdaáætlun jafnréttisáætlunar 2015 - 2019

Málsnúmer 201606004

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 58. fundur - 06.06.2016

Farið yfir þau verkefni í framkvæmdaáætlun sem gert er ráð fyrir að fara í á árinu 2016. Búið er að taka saman fjölda fulltrúa í nefndum á vegum Fljótsdalshéraðs og er hlutfall kvenna rúm 40% og karla tæp 60%.

Fyrsta verkefnið væri að hafa samband við Jafnréttisstofu og reyna að koma á með haustinu fræðsludegi um jafnréttismál fyrir stjórnendur og kjörna fulltrúa. Talið æskilegt að stefna á seinni hluta septembermánaðar, eða byrjun október.

Kallað verði eftir jafnréttisáætlunum frá skólum sveitarfélagsins, svo upplýsingar liggi fyrir áður en að fræðsludeginum kemur.

Einnig að skoða hvaða upplýsingar er hægt að taka út úr launakerfinu, varðandi kynjahlutföll á vinnustöðum og aldursflokkun starfsmanna.

Vegna fyrirspurnar um umfjöllunarefni á aðalfundi SSA á komandi hausti, mælist jafnréttisnefnd til þess að jafnréttismál verði sett á dagskrá og bendir á að hægt er að fá fræðsluefni frá Jafnréttisstofu, svo sem um kynjaða áætlanagerð og fl.

Stefnt að því að halda næsta fund 22. ágúst.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 240. fundur - 15.06.2016

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu jafnréttisnefndar leggur bæjarstjórn til að jafnréttismál verði sett á dagskrá aðalfundar SSA á komandi hausti.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Mál að öðru leyti í vinnslu.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 59. fundur - 03.10.2016

Farið yfir þau atriði sem eru á framkvæmdaáætlun ársins í jafnréttismálum. Kallað hefur verið eftir jafnréttisáætlun frá grunn- og leikskólum Fljótsdalshéraðs og hafa þær borist nefndinni. Fenginn var listi frá launafulltrúa yfir kynja- og aldursskiptingu starfsmanna Fljótsdalshéraðs, til að sjá hvernig staðan er hjá sveitarfélaginu. Eins og áður hefur komið fram eru um það bil 80% starfsmanna sveitarfélagsins konur.
Jafnréttisnefnd telur áhugavert að slíkar upplýsingar verði birtar í árskýrslu sveitarfélagsins, ásamt upplýsingu um aldursdreifingu íbúa og kynjaskiptingu þeirra.
Fram kom að áhersla var lögð á við stjórnendur að í starfsauglýsingum sveitarfélagsins væru umsækjendur af báðum kynjum hvattir til að sækja um þau störf sem auglýst eru. Fundarmenn fögnuðu því að þetta var gert nú nýverið þegar umhverfissvið auglýsti tvö störf.

Jafnréttisnefnd leggur til að fyrirhugaður fræðsludagur fyrir stjórnendur og kjörna fulltrúa verði haldinn nú í október. Þangað verði fengnir starfsmenn Jafnréttisstofu til að fara yfir ýmis mál sem tengjast þeirra starfsemi og snerta jafnréttismál sveitarfélaga. Mögulega mætti skipuleggja slíkan fund í tengslum við forstöðumannafund sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 244. fundur - 05.10.2016

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með jafnréttisnefnd og leggur til að fyrirhugaður fræðsludagur fyrir stjórnendur og kjörna fulltrúa verði haldinn nú í október. Þangað verði fengnir starfsmenn Jafnréttisstofu til að fara yfir ýmis mál sem tengjast þeirra starfsemi og snerta jafnréttismál sveitarfélaga. Mögulega mætti skipuleggja slíkan fund í tengslum við forstöðumannafund sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 60. fundur - 12.12.2016

Farið yfir framkvæmdaáætlun jafnréttisáætlunar og skoðað hvað er búið að framkvæma og hvað er framundan. Merkt við þá liði sem gert var ráð fyrir að komi til framkvæmda á næst ári.
Jafnréttisnefnd mælist til þess að þegar sveitarfélagið veitir rekstrarstyrki t.d. í íþrótta- og menningarstarfi, verði kallað eftir greinargerð,eða ársskýrslum þar sem fram komi hvernig styrkjunum var varið og hvernig þeir nýtast með tilliti til kynja- og jafnréttissjónarmiða.

Jafnréttisnefnd stefnir að því að haldið verði námskeið fyrir yfirmenn og trúnaðarmenn á vinnustöðum Fljótsdalshéraðs um ráðstafanir gegn áreitni, ofbeldi og einelti á vinnustöðum.
Jafnframt felur hún starfsmanni að kanna hjá Vinnueftirlitinu, hvort það getur haldið slíkt námskeið og hver kostnaður við það gæti orðið.
Gert er ráð fyrir að aðgerðaáætlanir liggi fyrir á hverjum vinnustað varðandi viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og einelti, eigi síðar en í maí 2017.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 367. fundur - 19.12.2016

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð tekur undir með jafnréttisnefnd og mælist til þess að þegar sveitarfélagið veitir rekstrarstyrki t.d. í íþrótta- og menningarstarfi, og við skil á greinargerð eða ársskýrslum komi fram hvernig styrkir nýtast með tilliti til kynja- og jafnréttissjónarmiða.

Framkvæmdaáætlun jafnréttisáætlunar 2015 - 2019 er að öðru leyti í vinnslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 61. fundur - 10.04.2017

Farið yfir framkvæmdaáætlun jafnréttisáætlunar og einnig framkvæmdaáætlun fræðslustofnanna og stærri vinnustaða. Jafnréttisnefnd hvetur þær skólastofnanir sem hafa gert jafnréttisáætlanir að ljúka gerð framkvæmdaáætlana fyrir næsta haust.
Þar sem ekki hefur tekist að halda námseið um einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nú í vor, er stefnt að því að á haustdögum verði það námskeið haldið fyrir stjórnendur og trúnaðarmenn. Rætt hefur verið við fræðslusvið Vinnueftirlitsins um að halda þetta námskeið og er starfsmanni falið að vinna áfram að því.
Í framhaldi af þessu námskeiði verði farið í gerð aðgerðaáætlana í stofnunum vegna þessara mála.
Samþykkt að óska eftir við forstöðumann félagsmiðstöðvar að hann sendi nefndinni sundurliðun á mætingu í viðburði og tómstundir á vegum félagsmiðstöðvarinnar, þar sem fram komi hvað margar stúlkur og drengir hafa mætt hverju sinni.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 62. fundur - 10.10.2017

Rætt um framkvæmdaáætlanir jafnréttisáætlana stofnanna, en ítrekað var við stofnanir sveitarfélagsins í apríl í vor að ljúka við gerð framkvæmdaáætlana. Jafnréttisstofa er að kalla eftir þeim. Starfsmanni falið að ítreka þessa beiðni við fjölmennari stofnanir Fljótsdalshéraðs.
Stefnt er að því að fá fyrirlestur um einelti, áreitni, og ofbeldi á vinnustöðum, frá fræðslusviði Vinnueftirlits inn á næsta forstöðumannafund sem verður í nóvember nk.

Tölur frá forstöðumanni félagsmiðstöðva yfir kyngreinda mætingu unglinga í félagsmiðstöðina, hafa ekki borist fyrir fund, en er væntanleg. Verða sendar fundarmönnum í tölvupósti þegar þær berast.

Nefndin óskar eftir að fá senda fyrir næsta fund lista yfir kynjaskiptingu í nefndum Fljótsdalshéraðs.

Jafnréttisnefnd bendir bæjarstjórn á að fyrir árslok 2018, ber sveitarfélaginu að innleiða vottað jafnlaunakerfi. Það þarf því að hug að því verkefni við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

Jafnréttisnefnd telur áhugavert fyrir sveitarfélagið að láta gera kannanir á starfsánægju meðal starfsmanna sveitarfélagsins. Hliðarafurð gæti líka verið könnun á nýtingu fæðingarorlofs meðal starfsmanna. Hugað verði að því, með hvaða móti væri hagstæðast að framkvæma svona kannanir og jafnframt að þá verði gert ráð fyrir kostnaði við slíkar kannarir á sameiginlegum liðum fjárhagsáætlunar.

Jafnréttisnefnd mun á næsta fundi sínum uppfæra upplýsingar í framkvæmdaáætlun, með tilliti til stöðu verkefna.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 403. fundur - 23.10.2017

Bæjarráð vísar bókun jafnréttisnefndar til starfshóps um endurskoðun starfsmannastefnu Fljótsdalshéraðs. Starfshópurinn hvattur til að koma saman sem fyrst, með því markmiði að skila niðurstöðum fyrir áramót.
Jafnframt verði kannað hvort fyrirliggjandi jafnlaunaúttekt uppfylli kröfur um jafnlaunavottun.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 63. fundur - 10.04.2018

Farið yfir aðgerðaáætlun nefndarinnar og hún uppfærð miðað við stöðuna. Jafnréttisnefnd hvetur sveitarfélagið til að hefja sem fyrst undirbúning að vinnu við jafnlaunavottun, þannig að hún geti legið fyrir í lok þessa árs, eða eins og lög og reglur mæla fyrir um.
Að öðru leyti er framkvæmdaáætluninni vísað til næstu jafnréttisnefndar til áframhaldandi vinnu.

Jafnréttisnefnd mælist einnig til þess að aðgerðaáætlun gegn einelti, ofbeldi og kynferðislegri- og kynbundinni áreitni, verði staðfest af bæjarstjórn sem fyrst, þó svo að hún verði síðar afgreidd sem hluti af endurskoðaðri starfsmannastefnu Fljótsdalshéraðs.

Jafnréttisnefnd hvetur framboð til sveitarstjórnarkosninga á Fljótsdalshéraði til að velja frambjóðendur þannig á lista að hlutföll kynjanna verði þar sem jöfnust. Einnig verði hugað mjög að því við skipan í nefndir á næsta kjörtímabili að kynjahlutföll verði þar sem jöfnust. Undanfarin kjörtímabil hefur hlutfall kvenna í nefndum sveitarfélagsins náð lágmarki, eða um 40%, en æskilegt er að jafna það hlutfall enn frekar.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs - 64. fundur - 30.08.2018

Farið yfir framkvæmdaáætun jafnréttisáætlun Fljótsdalshéraðs og sérstaklega horft á þau verkefni sem þar eru skráð í vinnslu eða er ólokið.
Málinu vísað til næsta fundar til frekari úrvinnslu.