Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs

292. fundur 08. september 2020 kl. 16:00 - 19:20 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Björg Björnsdóttir aðalmaður
  • Jón Björgvin Vernharðsson aðalmaður
  • Leifur Þorkelsson aðalmaður
  • Sigurður Gunnarsson varaformaður
  • Sigrún Hólm Þórleifsdóttir varamaður
Fundargerð ritaði: Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri
Skólastjórnendur tónlistarskóla, Sóley Þrastardóttir og Drífa Sigurðardóttir tóku þátt í fundinum undir liðum 1 og 2 á dagskránni. Tryggvi Hermannsson, áheyrnarfulltrúi tónlistarkennara boðaði forföll.

Áheyrnarfulltrúar leikskóla, Jóhanna Harðardóttir og Sóley Valdimarsdóttir, auk skólastjóra leikskólanna, Sigríðar Herdísar Pálsdóttur og Guðmundu Völu Jónasdóttur tóku þátt í fundinum undir liðum 3 og 4 á dagskránni.

Áheyrnarfulltrúar grunnskóla, Ingibjörg Sóley Guðmundsdóttir og Lísa Leifsdóttir auk skólastjóranna Ruthar Magnúsdóttur, Önnu Birnu Einarsdóttur og Ásgríms Inga Arngrímssonar tóku þátt í fundinum undir liðum 5, 6 og 7.

1.Upphaf skólastarfs í tónlistarskólum skólaárið 2020-2021

Málsnúmer 202009018

Sóley Þrastardóttir sagði frá upphafi skólastarfs í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum en þar hefur nemendum fjölgað frá síðasta skólaári, enda stórir árgangar að skila sér inn í skólann. Skólinn hefur nú tekið í notkun 2 nýjar skólastofur sem bæta aðstöðu hans mjög mikið.

Drífa Sigurðardóttir sagði frá upphafi skólastarfs í Tónlistarskólanum í Fellabæ, þar eru ekki miklar breytingar frá síðasta ári, þó er nú sú nýbreytni að samstarf er við grunnskólann um forskóla fyrir nemendur í 1. bekk. Húsnæðismál skólans eru hamlandi þar sem skólinn getur nú ekki nýtt stofu í kjallara hússins sem hefur verið notuð hingað til en mál eru leyst í góðu samstarfi skólans við grunnskólann.

Skólastarf í Tónlistarskólanum í Brúarási fer vel af stað og er með hefðbundnum hætti.

Lagt fram til kynningar.

2.Fjárhagsáætlun tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs 2021

Málsnúmer 202005073

Afgreitt undir lið 8 á fundinum.

3.Upphaf skólastarfs í leikskólum skólaárið 2020-2021

Málsnúmer 202009019

Skólastjórar leikskólanna sögðu frá upphafi skólastarfs á nýju skólaári en aðlögun nýrra leikskólabarna er að ljúka um þessar mundir.

Guðmunda Vala sagði frá að á Hádegishöfða er áfram unnið að þróun samstarfs í teymum í skólanum. Menntunarstig starfsmannahópsins hefur hækkað frá síðasta skólaári.

Sigríður Herdís sagði frá að í Tjarnarskógi hafa 44 ný börn hafið leikskólagöngu nú í haust. Langflestir nemendur í Tjarnarskógi eru í leikskólanum í 7 eða 8 tíma daglega. Hún benti á að kjarasamningsbundinn réttur til aukins undirbúnings skv. nýjum samningum nemur tæpum 2 stöðugildum í skólanum, en sá réttur virkjast frá 1. október nk.

Lagt fram til kynningar.

4.Fjárhagsáætlun leikskóla Fljótsdalshéraðs 2021

Málsnúmer 202005072

Afgreitt undir lið 8.

5.Upphaf skólastarfs í grunnskólum skólaárið 2020-2021

Málsnúmer 202009020

Ruth Magnúsdóttir sagði frá að skólastarf í Egilsstaðaskóla hafi farið af stað með þeim takmörkunum sem covid faraldurinn hefur sett því. Nemendur eru nú samtals 381. Fullmannað er í öll störf við skólann.

Anna Birna Einarsdóttir sagði frá að í Fellaskóla hafi verið lögð áhersla á alls kyns útiveru í upphafi skólastarfs í Fellaskóla. Fullmannað er í allar stöður við skólann. Gerðar hafa verið breytingar á kennsluháttum og nú er unnið í teymum í öllu skólastarfinu.

Ásgrímur Ingi sagði frá að litlar breytingar hafi orðið á nemendafjölda. Nokkrar breytingar eru á starfsmannahópnum en fullmannað er í allar stöður við skólann.

Lagt fram til kynningar.

6.Sjálfsmatsskýrsla Egilsstaðaskóla skólaárið 2019-2020

Málsnúmer 202009013

Ruth Magnúsdóttir kynnti stuttlega fyrirliggjandi sjálfsmatsskýrslu. Nokkur umræða spannst um atriði í skólastarfi á grundvelli skýrslunnar. Fram kemur að kennarar kalla eftir auknum úrræðum til að bregðast við agamálum. Fræðslunefnd hvetur sveitarstjórn í nýju sveitarfélagi að huga sérstaklega að úrræðum fyrir nemendur með félags-, tilfinninga- og hegðunarvanda.

Það er áhyggjuefni að svo virðist sem foreldrar fylgist síður með námi barnanna en gerist á landsvísu. Vera kann að minnkandi áhugi á lestri yngri nemenda tengist þessu.

Fræðslunefnd þakkar afar vel unna og greinargóða skýrslu og hvetur til að hún verði nýtt til úrbóta þar sem tilefni er til.

Lagt fram til kynningar.

7.Fjárhagsáætlun grunnskóla Fljótsdalshéraðs 2021

Málsnúmer 202005066

Afgreitt undir lið 8.

8.Fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2021

Málsnúmer 202005182

Meirihluti fræðslunefndar samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fræðslusviðs fyrir árið 2021. Fulltrúar L-listans sátu hjá við afgreiðslu áætlunarinnar fyrir leikskóla (sjá bókun hér að neðan) en samþykkja áætlunina að öðru leyti. Áætlunin er unnin á grundvelli tillögu að rammaáætlun sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 8. júní. Inni í launalið áætlunarinnar eru allar þekktar launahækkanir en enn eru ófrágengnir samningar við grunnskólakennara og tónlistarkennara, en á þeim liðum er áætluð hlutfallshækkun sem gert var ráð fyrir við upphaf áætlunargerðar í vor.

Nefndinni var ætlað að draga saman útgjöld á sviðinu um 30 milljónir frá fyrri drögum nefndarinnar. Í fyrirliggjandi tillögu hefur nefndin mætt þeirri kröfu að nærri tveimur þriðju hluta, en um þriðjungur hennar stendur sem óskilgreind hagræðingarkrafa inni í áætluninni.

Það er mat nefndarinnar að þessari hagræðingarkröfu verði ekki mætt nema með því að taka ákvörðun um að draga úr þeirri þjónustu sem veitt er á fræðslusviði og fækka þar með starfsfólki. Hinn kosturinn er að auka fjárveitingu til sviðsins. Að mati fræðslunefndar er eðlilegt að slíkar ákvarðanir verði teknar af nýrri fagnefnd fræðslumála og nýrri sveitarstjórn, á grundvelli stefnumörkunar þeirra framboða sem gefa kost á sér í komandi kosningum.

Bókun L-listans vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir leikskóla:
"Fulltrúar L-listans sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir leikskóla. Ástæðan fyrir því er að fyrirhuguð gjaldskrárhækkun upp á 2,5% sem er hámarkshækkun samkvæmt lífskjarasamningum. Í vor barst fræðslunefnd erindi frá foreldrum vegna þess sem þau telja vera of há leikskólagjöld á Fljótsdalshéraði, t.d. í samanburði við aðra leikskóla á Austurlandi. Það erindi var afgreitt af fræðslunefnd með loforði um að farið yrði ofan í saumana á efnisatriðum erindis foreldra við endanlega afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 2021. Sú rýni hefur því miður ekki farið fram og það er mat fulltrúa L-listans að ávinningur sveitarfélagsins af þessari hækkun sé ekki slíkur að hægt sé að réttlæta að auka álögur á fjölskyldufólk í sveitarfélaginu á erfiðum efnahagslegum tímum."

Bókun L-listans vegna fjárhagsáætlunar fræðslusviðs í heild:
"Fulltrúar L-listans í fræðslunefnd árétta að engin starfsemi er nokkru sveitarfélagi jafn mikilvæg og starfsemi skóla, hvort heldur er leikskóla eða grunnskóla. Á liðnum árum hefur þjónusta við skólabörn og fjölskyldufólk aukist að umfangi, t.a.m. með auknum einstaklingsbundnum stuðningi, frístund fyrir og eftir skóla, rekstur tónlistarskóla og öflugt íþrótta- og tómstundastarf. Þó að hér sé ekki um lögbundna þjónustu að ræða, er þessi þróun jákvæð. Engin fjárfesting skilar sér betur fyrir bæði sveitarfélagið og samfélagið í heild sinni. Um þessa starfsemi verður að standa vörð.

Með tilkomu nýs sveitarfélags, gefst engu að síður kærkomið tækifæri til að rýna allar forsendur fjárhagsáætlana þessara mikilvægu stofnana og það er mikilvægt að grípa það tækifæri til að tryggja að nýting fjármuna sé sem allra best. Það er því miður of algengt að kjörnir fulltrúir þekkja ekki nægilega vel hvað býr að baki tölunum og of sjaldan gefst rúm til raunverulegrar rýni. Samhliða er einnig tilvalið að endurskoða fyrirkomulag þessa starfs með það fyrir augum að öll börn hins nýja sveitarfélags búi við frábæran aðbúnað og menntun.

Á tímum sem þessum, verða allir að taka höndum saman um að sýna ráðdeild í rekstri. Erfitt efnahagsástand kemur niður á ríki, sveitarfélögum og almenningi. Þó það sé freistandi fyrir sveitarfélög að grípa til gjaldskrárhækkana þegar harðnar á dalnum, er einnig mikilvægt að velta ekki vanda yfir á íbúana. Oft er um tiltölulega lítinn ávinning fyrir sveitarfélögin á ársgrundvelli á meðan hækkanir á allri þjónustu geta skipt miklu máli þegar saman kemur í heimilisbókhaldi. Fjölskyldur í hinu nýja sveitarfélagi, hvar sem þær eru staðsettar, verða að sitja við sama borð þó vissulega geti þjónustustig endurspeglast í verðskrám.

Það eru bjartir tímar framundan og við verðum að setja fjöregg allra samfélaga á oddinn, börn og fjölskyldur þeirra."

Samþykkt með nafnakalli með ofangreindum fyrirvara um afstöðu fulltrúa L-listans.

9.Skýrsla fræðslustjóra

Málsnúmer 201108127

Til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:20.