Fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2021

Málsnúmer 202005182

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 290. fundur - 26.05.2020

Fræðslustjóri fór yfir meginliði fjárhagsáætlunar fræðslusviðs 2021. Fræðslunefnd leggur til að gjaldskrá skólamötuneytis verði hækkuð um 2,5% frá áramótum 2021. Fræðslunefnd samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir fræðslusvið 2021 með þeim breytingum sem samþykktar hafa verið í liðum 2, 4 og 5 á fundinum og vísar henni þannig til bæjarráðs.

Samþykkt með nafnakalli með 3 atkvæðum (BHS, SG, SHÞ), 1 á móti (LÞ) og 1 situr hjá (GVH).

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 292. fundur - 08.09.2020

Meirihluti fræðslunefndar samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fræðslusviðs fyrir árið 2021. Fulltrúar L-listans sátu hjá við afgreiðslu áætlunarinnar fyrir leikskóla (sjá bókun hér að neðan) en samþykkja áætlunina að öðru leyti. Áætlunin er unnin á grundvelli tillögu að rammaáætlun sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 8. júní. Inni í launalið áætlunarinnar eru allar þekktar launahækkanir en enn eru ófrágengnir samningar við grunnskólakennara og tónlistarkennara, en á þeim liðum er áætluð hlutfallshækkun sem gert var ráð fyrir við upphaf áætlunargerðar í vor.

Nefndinni var ætlað að draga saman útgjöld á sviðinu um 30 milljónir frá fyrri drögum nefndarinnar. Í fyrirliggjandi tillögu hefur nefndin mætt þeirri kröfu að nærri tveimur þriðju hluta, en um þriðjungur hennar stendur sem óskilgreind hagræðingarkrafa inni í áætluninni.

Það er mat nefndarinnar að þessari hagræðingarkröfu verði ekki mætt nema með því að taka ákvörðun um að draga úr þeirri þjónustu sem veitt er á fræðslusviði og fækka þar með starfsfólki. Hinn kosturinn er að auka fjárveitingu til sviðsins. Að mati fræðslunefndar er eðlilegt að slíkar ákvarðanir verði teknar af nýrri fagnefnd fræðslumála og nýrri sveitarstjórn, á grundvelli stefnumörkunar þeirra framboða sem gefa kost á sér í komandi kosningum.

Bókun L-listans vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir leikskóla:
"Fulltrúar L-listans sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir leikskóla. Ástæðan fyrir því er að fyrirhuguð gjaldskrárhækkun upp á 2,5% sem er hámarkshækkun samkvæmt lífskjarasamningum. Í vor barst fræðslunefnd erindi frá foreldrum vegna þess sem þau telja vera of há leikskólagjöld á Fljótsdalshéraði, t.d. í samanburði við aðra leikskóla á Austurlandi. Það erindi var afgreitt af fræðslunefnd með loforði um að farið yrði ofan í saumana á efnisatriðum erindis foreldra við endanlega afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 2021. Sú rýni hefur því miður ekki farið fram og það er mat fulltrúa L-listans að ávinningur sveitarfélagsins af þessari hækkun sé ekki slíkur að hægt sé að réttlæta að auka álögur á fjölskyldufólk í sveitarfélaginu á erfiðum efnahagslegum tímum."

Bókun L-listans vegna fjárhagsáætlunar fræðslusviðs í heild:
"Fulltrúar L-listans í fræðslunefnd árétta að engin starfsemi er nokkru sveitarfélagi jafn mikilvæg og starfsemi skóla, hvort heldur er leikskóla eða grunnskóla. Á liðnum árum hefur þjónusta við skólabörn og fjölskyldufólk aukist að umfangi, t.a.m. með auknum einstaklingsbundnum stuðningi, frístund fyrir og eftir skóla, rekstur tónlistarskóla og öflugt íþrótta- og tómstundastarf. Þó að hér sé ekki um lögbundna þjónustu að ræða, er þessi þróun jákvæð. Engin fjárfesting skilar sér betur fyrir bæði sveitarfélagið og samfélagið í heild sinni. Um þessa starfsemi verður að standa vörð.

Með tilkomu nýs sveitarfélags, gefst engu að síður kærkomið tækifæri til að rýna allar forsendur fjárhagsáætlana þessara mikilvægu stofnana og það er mikilvægt að grípa það tækifæri til að tryggja að nýting fjármuna sé sem allra best. Það er því miður of algengt að kjörnir fulltrúir þekkja ekki nægilega vel hvað býr að baki tölunum og of sjaldan gefst rúm til raunverulegrar rýni. Samhliða er einnig tilvalið að endurskoða fyrirkomulag þessa starfs með það fyrir augum að öll börn hins nýja sveitarfélags búi við frábæran aðbúnað og menntun.

Á tímum sem þessum, verða allir að taka höndum saman um að sýna ráðdeild í rekstri. Erfitt efnahagsástand kemur niður á ríki, sveitarfélögum og almenningi. Þó það sé freistandi fyrir sveitarfélög að grípa til gjaldskrárhækkana þegar harðnar á dalnum, er einnig mikilvægt að velta ekki vanda yfir á íbúana. Oft er um tiltölulega lítinn ávinning fyrir sveitarfélögin á ársgrundvelli á meðan hækkanir á allri þjónustu geta skipt miklu máli þegar saman kemur í heimilisbókhaldi. Fjölskyldur í hinu nýja sveitarfélagi, hvar sem þær eru staðsettar, verða að sitja við sama borð þó vissulega geti þjónustustig endurspeglast í verðskrám.

Það eru bjartir tímar framundan og við verðum að setja fjöregg allra samfélaga á oddinn, börn og fjölskyldur þeirra."

Samþykkt með nafnakalli með ofangreindum fyrirvara um afstöðu fulltrúa L-listans.