Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs

291. fundur 25. ágúst 2020 kl. 16:00 - 18:16 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður
  • Leifur Þorkelsson aðalmaður
  • Sigurður Gunnarsson varaformaður
  • Garðar Valur Hallfreðsson varamaður
Fundargerð ritaði: Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri
Áheyrnarfulltrúar tónlistarskóla, Drífa Sigurðardóttir og Tryggvi Hermannsson tóku þátt í fundinum undir liðum 1-2. Áheyrnarfulltrúar leikskóla, Sóley Valdimarsdóttir, Jóhanna Harðardóttir og Sigríður Herdís Pálsdóttir, auk Guðmundar Völu Jónasdóttur, skólastjóra Hádegishöfða, tóku þátt í fundinum undir liðum 3 og 4.

1.Tímabundin undanþága vegna starfsemi Tónlistarskólans í Fellabæ í kjallarahúsnæði Fellaskóla

Málsnúmer 202006152

Fræðslustjóri fór yfir forsögu málsins og forsendur þess að málið er á dagskrá nefndarinnar. Hún nefndi jafnframt tillögu um tímabundna viðbót við kennsluhúsnæði skólans sem reifuð hefur verið við skólastjóra. Drífa Sigurðardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans í Fellabæ ræddi jafnframt stöðuna í skólanum, en starfsfólk skólans mun leggjast á eitt um að láta skólastarfið ganga tímabundið við núverandi aðstæður, en lögð er áhersla á að horft verði til varanlegri lausnar á húsnæðisvanda skólans.

Fyrir liggur samþykkt um að fram fari kostnaðargreining á að bætt verði hæð ofan á nýrri álmu Fellaskóla. Yfirmaður Eignasjóðs leggur áherslu á að fyrir liggi frumþarfagreining á hvernig slík hæð verði nýtt. Fræðslunefnd leggur til að skólastjórar Fellaskóla, Tónlistarskólans í Fellabæ, yfirmaður Eignasjóðs og fræðslustjóri vinni drög að slíkri þarfagreiningu sem fyrst.

Samþykkt samhljóða með nafnakalli.

2.Tónlistarskólagjöld, erindi frá foreldri

Málsnúmer 202008104

Fræðslustjóri kynnti erindið sem varðar beiðni um að systkinaafsláttur verði víkkaður út og taki til allrar fjölskyldunnar.

Fræðslunefnd þakkar erindið og vísar ákvörðun um málið til endanlegrar afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

Samþykkt samhljóða með nafnakalli.

3.Innritun í leikskóla 2020

Málsnúmer 202005080

Fræðslustjóri og leikskólastjórar kynntu málið, en eftir aðalúthlutun leikskólaplássa sl. vor hafa borist nokkrar umsóknir sem ekki hefur verið unnt að bregðast við. Fram kom í máli leikskólastjóranna að ekki er mögulegt að gera ráð fyrir fleiri börnum í húsnæði leikskólanna tveggja á Egilsstöðum og í Fellabæ og því er verið að skoða hvort unnt sé að finna húsnæði sem nýta mætti fyrir viðbótardeild fyrir leikskólabörn til að mæta þeirri viðbótareftirspurn eftir leikskólaplássum sem hefur myndast.

Fræðslunefnd leggur til að kannað verði hvort hægt sé að finna hentugt húsnæði sem gæti þjónað hlutverki leikskólahúsnæðis til skamms tíma. Jafnframt leggur nefndin áherslu á þó gert sé ráð fyrir viðbótarleikskóladeild í nýjum leikskóla í Fellabæ, mun það duga skammt til að tryggja varanlega langtímaþörf fyrir leikskólarými í sveitarfélaginu. Því verði strax farið að hefja undirbúning að framkvæmd við leikskóla á Suðursvæðinu á Egilsstöðum.

Samþykkt samhljóða með nafnakalli.

4.Reglur leikskóla Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 202008103

Fræðslunefnd samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi reglur fyrir leikskóla Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða með nafnakalli.

5.Fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2021

Málsnúmer 202005182

Í vinnslu.

6.Skýrsla fræðslustjóra

Málsnúmer 201108127

Til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:16.