Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

258. fundur 27. júní 2014 kl. 08:00 - 10:30 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Anna Alexandersdóttir varaformaður
  • Stefán Bogi Sveinsson aðalmaður
  • Sigrún Blöndal áheyrnarfulltrúi
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Björn Ingimarsson Bæjarstjóri

1.Fjármál 2014

Málsnúmer 201401002

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum lið og fór yfir nokkur atriði sem tengjast fjármálum og bókhaldi sveitarfélagsins.

M.a. var kynnt bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dags. 12.06.14, þar sem fram kemur staðfesting á móttöku nefndarinnar á aðlögunaráætlun sem samþykkt var í sveitarstjórn 07.05.14 og að Eftirlitsnefnd óskar ekki eftir frekari upplýsingum vegna aðlögunaráætlunarinnar.

Fjármálastjóri gerði grein fyrir bréfi frá innanríkisráðuneytinu, dags. 18.06.14, varðandi meðferð og afgreiðslu viðauka við fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og lagði fram til kynningar framsetningu, í samræmi við leiðbeiningar ráðuneytisins, á þegar samþykktum viðaukum við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins vegna yfirstandandi árs.

Einnig fór fjármálastjóri yfir möguleg áhrif kjarasamninga og nýs fasteignamats á rekstur sveitarfélagsins 2015.

2.Fundargerðir byggingarnefndar hjúkrunarheimilis 2014

Málsnúmer 201401046

Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarnefndar hjúkrunarheimilis frá 4.júní 2014.

Lagt fram til kynningar.

3.Fundargerð stjórnar SSA, nr.7, 2013-2014

Málsnúmer 201406070

Lögð fram til kynningar, fundargerð 7. fundar stjórnar SSA sem haldinn var 10. júní 2014.

Bæjarráð tekur undir bókun SSA varðandi mikilvægi þess að dreifikerfi Landsnets verði þannig uppbyggt að það geti þjónað íbúum og atvinnulífi á svæðinu með fullnægjandi hætti. Bæjarráð telur æskilegt að sveitarfélög í norðausturkjördæmi taki sig saman um að þrýsta á um úrbætur í þessum málum. Bæjarstjóra falið að kanna hug annarra sveitarfélaga til málsins.

4.Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201405155

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 28. maí 2014 frá Vali Rafni Halldórssyni fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, með kynningu á siðanefnd sambandsins.

Lagt fram til kynningar.

5.Fjármál sveitarfélaga

Málsnúmer 201310118

Lagt fram bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dags. 12.júní 2014.

Fjármálastjóri sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

Í bréfi Eftirlitsnefndar, sem sent var öllum sveitarfélögum, er gerð grein fyrir sýn Eftirlitsnefndar á því hvernig haga skuli virkri fjármálastjórn sveitarfélaga. Fjármálastjóri og bæjarstjóri fóru yfir það verklag sem viðhaft er hjá Fljótsdalshéraði og er það í samræmi við það verklag sem mælt er með af hálfu Eftirlitsnefndar.

6.Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á vatnsborð og grunnvatn á láglendi á Héraði

Málsnúmer 201210107

Lagt fram svar við bréfi sem Fljótsdalshérað sendi Orkustofnun 22.maí 2014.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að óska eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til málsins m.a. með tilliti til stöðu skipulagsákvarðana Lagarfossvirkjunar m.v. raunverulega landsnotkun, þýðingu yfirlýsingar um virkjunartilhögun í framkvæmdalýsingu o.fl.

Varðandi fund bæjarráðs með landeigendum um stöðu málsins kom fram hjá bæjarstjóra að stefnt er á að koma á fundi síðsumars eða með haustinu.

7.Dyrfjöll - Stórurð - Gönguparadís. Umsókn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Málsnúmer 201311018

Vísað frá 257. fundi bæjarráðs, til frekari umfjöllunar.

Lagðir fram minnispunktar frá atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa varðandi stöðu verkefnisins.

Fram kom m.a. að unnið er að verkefninu ásamt fulltrúum Borgafjarðarhrepps og er gert ráð fyrir að farið verði á þessu ári í að ljúka við hönnun þjónustuhúss, sem staðsett verður á Vatnsskarði, bekkja, stika o.fl. Framleiddar verða stikur og áfangastaða-, skiltaundirstöður eins og svigrúm verður til. Stefnt er að því að byrja grunnvinnu á Vatnsskarði þar sem þjónustuhúsið mun rísa auk þess að fyrirhugað er að stika leiðir og koma því upp sem tilbúið verður. Auglýst hefur verið óveruleg breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna þjónustuhússins. Á næsta ári er síðan áformað að reisa þjónustuhúsið og ljúka stikun, ef fjármagn leyfir.

Bæjarráð fagnar því að verkefnið er komið af stað og bindur vonir við að áform um framvindu þess gangi eftir.

8.Umdæmamörk sýslumanna og lögreglustjóra

Málsnúmer 201406037

Lagður fram tölvupóstur, dags. 5.júní 2014 frá Guðjóni Bragasyni, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi umsagnir um nýsett lög um umdæmamörk sýslumanna og lögreglustjóra.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs gerir ekki athugsemd við tillögur innanríkisráðuneytisins en leggur áherslu á að tekið verði tillit til þeirra athugsemda sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur áður gert í þessu máli. Þ.e. að starfsstöðin á Egilsstöðum verði efld hvað varðar hefðbundar afgreiðslur embættisins.

Bæjarstjóra falið að koma á fundi bæjarráðs með sýslumanni þar sam farið verði yfir málefni embættisins og starfsstöðvarinnar á Egilsstöðum.

9.Beiðni um stuðning við starf Hróksins á Grænlandi

Málsnúmer 201406063

Lagt fram erindi, dagsett 11.júní 2014, frá Hrafni Jökulssyni forseta skákfélagsins Hróksins, með beiðni um stuðning við starfsemi Hróksins á Grænlandi.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs hafnar erindinu að þessu sinni.

10.Myndasafn til varðveislu

Málsnúmer 201406071

Lagður fram tölvupóstur frá Þórarni Hávarðssyni f.h. Hafdal kvikmyndagerðar með boð um að Fljótsdalshérað taki við fréttamyndasafni Þórarins frá árunum 1989-2005.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til atvinnu- og menningarmálanefndar.

11.Heimildamynd um strand Bergvíkur VE-505 í Vöðlavík

Málsnúmer 201406072

Lagður fram tölvupóstur frá Þórarni Hávarðssyni f.h. Hafdal kvikmyndagerðar, með beiðni um styrk vegna töku heimildamyndar um strand Bergvíkur VE-505, sem strandaði í Vöðlavík 18.desember 1993.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til atvinnu- og menningarmálanefndar.

12.Skýrsla yfirkjörstjórnar vegna sveitarstjórnarkosninga 2014

Málsnúmer 201406100

Lögð fram skýrsla yfirkjörstjórnar vegna sveitarstjórnarkosninga 31. maí 2014.

Einnig fylgdu útgefin kjörbréf til kjörinna aðal- og varamanna er skipa sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs næsta fjögurra ára kjörtímabil.

Bæjarráð samþykkir að fela skrifstofu- og starfsmannastjóra að koma frumritum kjörbréfa til hlutaðeigandi og sjá til þess að afrit kjörbréfa verði vistuð í skjalageymslu sveitarfélagsins.

13.Kortlagning auðlinda í ferðaþjónustu

Málsnúmer 201406101

Lagður fram tölvupóstur frá Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur hjá Ferðamálastofu, með beiðni um tilnefningu fulltrúa í samráðshóp.

Bæjarráð leggur til að Óðinn Gunnar Óðinsson, atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi Fljótsdalshéraðs verði tilnefndur sem fulltrúi sveitarfélagsins í svæðisbundinn stýrihóp verkefnis á vegum Ferðamálastofu sem snýst um kortlagningu auðlinda í ferðaþjónustu á Íslandi.

Fundi slitið - kl. 10:30.