Atvinnu- og menningarnefnd

29. fundur 25. janúar 2016 kl. 17:00 - 19:45 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Guðmundur Sveinsson Kröyer formaður
  • Ragnhildur Rós Indriðadóttir aðalmaður
  • Þórður Mar Þorsteinsson aðalmaður
  • Gunnar Þór Sigbjörnsson aðalmaður
  • Kristjana Jónsdóttir aðalmaður
  • Óðinn Gunnar Óðinsson
Fundargerð ritaði: Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-. menningar- og íþróttafulltrúi
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir að nýtt mál væri tekið á dagskrá og var það samþykkt samhljóða. Það mál er síðast á dagskrá.

1.Galtastaðir fram

Málsnúmer 201506073

Erindinu frestað til næsta fundar.

2.Egilsstaðaflugvöllur og áfangastaðurinn Austurland

Málsnúmer 201410144

Á fundinn undir þessum lið mættu Sigrún Hólm Þórleifsdóttir og Ívar Ingimundarson, fulltrúar Þjónustusamfélagsins á Héraði.

Atvinnu og menningarnefnd leggur til að haldinn verði opinn borgarafundur í febrúar í samstarfi við Þjónustusamfélagið á Héraði og hagsmunaaðila, um flug Discover the world um Egilsstaðaflugvöll í sumar. Á fundinum verði verkefnið kynnt og áhersla lögð á að ræða aðgerðir heimaðila vegna móttöku gesta með fluginu og tækifæri sem tengjast því.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum/Frummatsskýrsla

Málsnúmer 201512055

Fyrir liggur slóð á Frummatsskýrslu vegna markaðsrannsókna á eldsneytismarkaðnum frá Samkeppnisstofnun og bréf frá stofnuninni þar sem sveitarfélagingu er gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum og athugasemdum vegna skýrslunnar.
Málinu var vísað til nefndarinnar frá bæjarráði 14. desember 2015 og var einnig á dagskrá síðasta fundar nefndarinnar.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur fram eftirfarandi bókun:
Verð á eldsneyti, t.d. á farartæki hefur mikil áhrif á hag almennings og rekstur fyrirtækja í sveitarfélagi eins og Fljótsdalshéraði, enda oft langt að sækja atvinnu eða sérhæfða þjónustu á milli byggðarlaga og landssvæða. Atvinnu- og menningarnefnd leggur því ríka áherslu á að allra leiða sé leitað til að gera úrbætur á núverandi umhverfi eldsneytismarkaðarins þannig að eldsneytisverð sé ætíð eins lágt og kostur er og endurspegli jafnframt heimsmarkaðsverð. Eldsneytisverð innan lands sé alls staðar það sama og raski þannig ekki möguleikum til búsetu og atvinnuuppbyggingar.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur sérstaka áherslu á að Samkeppniseftirlitið skoði í markaðsrannsókn sinni þau samkeppnishindrandi áhrif sem hærra eldsneytisverð á Egilsstaðaflugvelli hefur á millilandaflug um völlinn, ef miðað er við eldsneytisverð á öðrum millilandaflugvöllum hérlendis. Nefndin leggur jafnframt til að útfærðar verði leiðir til að jafna verð á flugvélaeldsneyti sem selt er á flugvöllum landsins þannig að eldsneytisverð og eldsneytisbúnaður sé ekki þáttur sem hafi neikvæð áhrif á þróun millilandsflugs um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Afgreiðsla menningarstyrkja, janúar 2016

Málsnúmer 201601053

Fyrir liggja umsóknir um menningarstyrki en umsóknarfrestur var til og með 18. desember 2015. Alls bárust 29 umsóknir með beiðni um styrki að upphæð rúmar 10 milljónir, þar af barst ein umsókn eftir að umsóknarfrestur rann út og var hún ekki tekin til greina við úthlutun. Til úthlutunar voru kr. 3.500.000. Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að styrkjum til menningarmála verði úthlutað með eftirfarandi hætti:

- Félag um minningarreit við Sleðbrjótskirkju vegna útilistaverks við Sleðbrjótskirkju kr. 100.000

- Emelía Antonsdóttir vegna námskeiða í listdansi kr. 250.000

- Kammerkór Egilsstaðakirkju vegna tónleika á Íslandi og í Vesteralen kr. 250.000

- Leikfélag Fljótsdalshéraðs vegna almennrar liststarfsemi félagsins kr. 500.000

- Kvennakórinn Héraðsdætur vegna almennrar liststarfsemi kórsins kr. 100.000

- Þroskahjálp Austurlandi vegna Listar án landamæra 2016 kr. 200.000

- Leiksmiðja Austurlands vegna gönguleiksýningarinnar Hér verða vegamót kr. 200.000

- Héraðsskjalasafn Austfirðinga vegna sýningar á verkum Jóns A. Stefánssonar frá Möðrudal kr. 150.000

- Söguslóðir Austurlands vegna dagskrár um fornminjar og austfirska landnámskonu kr. 90.000

- Myndlistarfélag Fljótsdalshéraðs vegna afmælissýningar myndlistarfélagsins 2016 kr. 200.000

- Rótarýklúbbur Héraðsbúa vegna dagskrár helgaðri fjölmenningu kr. 50.000

- Suncana Slamnig vegna tónlistarsumarbúða kr. 100.000

- Charles Ross vegna tónverka sem byggja á verkum Stórvals og tónleika kr. 200.000

- Djassklúbbur Egilsstaða vegna Jasshátíðar Egilsstaða kr. 400.000

- Leikfélagið Frjálst orð vegna uppsetningar á leikriti um síðustu aftökuna á Austurlandi kr. 100.000

- Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs vegna leiklistarhátíðar áhugaleikfélaga á Austurlandi kr. 150.000

- Breki Steinn Mánason vegna raftónlistarhátíðar á Egilsstöðum kr. 100.000

- Stúlknakórinn Liljurnar vegna samnorræns kóramóts kr. 100.000

- Tónlistarstundir tónleikaröð í Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju kr. 250.000

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Samstarfssamningur við Fimleikadeild Hattar um hátíðahöld og dagskrá 17. júní

Málsnúmer 201601135

Fyrir liggja drög að samningi við Fimleikadeild Hattar um umsjón með hátíðahöldum og dagskrá 17. júní, Þjóðhátíðardagsins.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að gerður verði nýr samningur við Fimleikadeild Hattar sem verði fjármagnaður af liðum 0571 kr. 1.000.000 og 0574 kr. 200.000.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Tækja- og tækniminjasafn í miðbæ Egilsstaða

Málsnúmer 201512088

Fyrir liggur bréf frá Samgöngu- og tækjasafni Austurlands ásamt Mótorhjólaklúbbnum Goðum um formlegar viðræður um uppbyggingu tækja- og tækniminjasafns í miðbæ Egilsstaða.

Á fundi bæjarráðs 11. janúar 2016 var samþykkt að fela bæjarstjóra að ræða við núverandi leigutaka að Miðvangi 31 um framtíðarstaðsetningu þeirrar starfsemi sem þar er í dag. Bæjarráð vísaði jafnframt erindinu til atvinnu- og menningarnefndar til umsagnar.

Atvinnu- og menningarnefnd lýst vel á hugmyndir um staðsetningu tækja- og tækniminjasafns að Miðvangi 31. En samkvæmt núverandi skipulagi yrði um tímabundna lausn að ræða á lóðinni. Nefndin telur að ef vel tekst til muni safn af þessum toga geta orðið áhugaverður áfangastaður ferðamanna og íbúa svæðisins. Nefndin leggur áherslu á, ef til kemur, að umgengni á svæðinu verði ávallt til fyrirmyndar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Uppreikningur launaliða 2016

Málsnúmer 201601094

Fyrir liggur til kynningar endurreiknuð launaáætlun vegna 2016.

8.Breytingar á starfsreglum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða

Málsnúmer 201601168

Fyrir liggur bréf frá Ferðamálastofu, dagsett 18. janúar 2016, þar sem tilkynnt er um breytingar á starfsreglum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Einnig fylgir með reglugerð um starfsreglur sjóðsins vegna styrkveitinga. Umsækjendum sem lögðu inn umsóknir í haust s.l. er jafnframt gefinn kostur á að endurskoða umsóknir sínar með tilliti til nýrra reglna sjóðsins.

Atvinnu- og menningarnefnd fagnar breytingunum og leggur til að starfsmaður nefndarinnar endurskoði og endursendi þær umsóknir sem sveitarfélagið sendi til Framkvæmdastjóðsins í haust.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Ræsing, átaksverkefni NMÍ um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni

Málsnúmer 201601211

Fyrir liggur bréf frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, dagsett 22. janúar 2016, þar sem Fljótsdalshérað er boðið samstarf um verkefnið Ræsing, sem er átaksverkefni til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að Fljótsdalshérað taki þátt í verkefninu og felur starfsmanni að undirbúa samning við NMÍ. Þáttur sveitarfélagsins í verkefninu er kr. 1.000.000 og leggur nefndin til að það framlag komi úr Atvinnumálasjóði Fljótsdalshéraðs. Mótframlag Nýsköpunarmiðstöðvarinnar til verkefnisins verður kr. 2.000.000.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 19:45.