Hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf

Málsnúmer 202003096

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 507. fundur - 23.03.2020

Farið yfir minnisblað frá Sambandinu varðandi aðgerðir til viðspyrnu fyrir Íslenskt atvinnulíf að hálfu sveitarfélaga.
Bæjarstjóra og fjármálastjóra falið að skoða þessar ábendingar frekar og leggja minnisblað fyrir næsta bæjarráðsfund.
Með vísan til afgreiðslu bæjarstjórnar á máli nr. 202003045, afleiðingar og aðgerðir vegna Covid 19 og að skoðaðar verði leiðir til aukinnar atvinnusköpunar fyrir ungt fólk í sumar, er því máli jafnframt vísað til þessarar vinnu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 508. fundur - 30.03.2020

Björn fór yfir nokkrar tillögur að framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins og Hitaveitunnar, sem mögulega væri hægt að flýta til að vinna á móti samdrætti í atvinnu á svæðinu í kjölfar Covid 19.
Fram kom að ekki er gert ráð fyrir að draga úr þeim framkvæmdum sem eru tilteknar í fjárhags- og framkvæmdaáætlun Fljótsdalshéraðs árið 2020.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að seinka eindaga á fasteignagjöldum sem gjaldfalla í apríl og maí fram til nóvember og desember 2020.
Jafnframt verði því beint til eigenda fasteigna sem leigja út húsnæði sitt, að þeir láti leigjendur sína nóta þessa gjaldfrests, kjósi leigjendur svo.

Einnig kom fram að þjónustugjöld sveitarfélagsins verði leiðrétt í samræmi við skerta þjónustu, en frekari útfærsla liggur ekki fyrir.

Bæjarráð beinir því til umhverfis- og framkvæmdanefndar að skoðaður verði meiri sveigjanleiki á magni vegna umframsorps heimila sem skilað er á gámaplan, td. á þann veg að viðmiðunartímabil verði lengt úr einum mánuði í þrjá.

Bæjarstjóra og fjármálastjóra falið að vinna áfram að öðrum mögulegum aðgerðum og leggja þær hugmyndir fyrir næsta fund.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 509. fundur - 06.04.2020

Guðlaugur kynnti nokkrar sviðsmyndir sem hann hefur sett upp vegna fyrirsjáanlegra breytinga bæði á tekjum og útgjöldum sveitarfélagsins.
Einnig fóru hann og Björn yfir nokkrar hugmyndir að verkefnum á vegum Fljótsdalshéraðs sem mögulega mætti fara í til að skapa störf sem unnið gætu á móti atvinnuleysi í kjölfar COVID-19 og hvaða áhrif þau gætu haft á rekstur sveitarfélagsins á árinu.
Bæjarráð samþykkir að fela fjármálastjóra og bæjarstjóra að vinna málið áfram út frá sviðsmynd 3.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og fjármálastjóra, í samstarfi við framkvæmdastjóra HEF, að undirbúa yfirlit yfir mögulegar framkvæmdir og fjármögnun þeirra næstu þrjú árin.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 312. fundur - 15.04.2020

Ræddar hugmyndir að aðgerðum, vegna Covid19, sem til skoðunar eru auk mögulegra áhrifa á rekstur og fjárhag sveitarfélagsins.

Eftirtaldir tóku til máls undir liðnum og í þessari röð:
Björn Ingimarsson, sem kynnti málið, Björg Björnsdóttir, Gunnar Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson og Björn Ingimarsson.

Málið er áfram í vinnslu hjá bæjarráði.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 510. fundur - 20.04.2020

Björn og Guðlaugur fóru yfir tillögur og hugmyndir að viðbótaverkefnum á vegum sveitarfélagsins, sem hugsuð eru sem viðspyrna vegna aukins atvinnuleysis í kjölfar Covid 19 faraldursins.
Bæjarráð samþykkir þessar tillögur fyrir sitt leyti og vísar þeim til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 313. fundur - 24.04.2020

Björn Ingimarsson bæjarstjóri gerði grein fyrir helstu aðgerðum sem mótaðar hafa verið hjá Fljótsdalshéraði, sem viðbrögð og viðspyrna við breyttum aðstæðum í atvinnulífinu í kjölfar Covid-19.
Fram kom m.a. að lögð er áhersla á að skapa tímabundin störf í sumar fyrir bæði námsfólk og einstaklinga sem kunna að hafa fallið út af vinnumarkaði vegna samdráttar er rekja má til Covid-19. Áhersla verður lögð á störf er tengjast umhverfismálum, þjónustu við barnafjölskyldur, þróun stjórnsýslu og þjónustu almennt við íbúa sveitarfélagsins.

Aðrir sem til máls tóku undir þessum lið voru: Anna Alexandersdóttir, Björg Björnsdóttir, Gunnar Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson, Gunnhildur Ingvarsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson og Berglind Harpa Svavarsdóttir.

Að öðru leyti er vísað til liðar 2 í þessari fundargerð hvað varðar samþykktar aðgerðir sveitarfélagsins og kostnað við að mæta þeim.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 517. fundur - 15.06.2020

Lagðar fram upplýsingar um aðsókn barna og ungmenna í vinnuskólann í sumar og atvinnuskapandi verkefni sem sett voru af stað í kjölfar Covid 19 faraldursins.