Náttúruverndarnefnd

10. fundur 21. september 2018 kl. 16:00 - 19:00 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson formaður
  • Sigríður Ruth Magnúsdóttir aðalmaður
  • Freyr Ævarsson starfsmaður
  • Eyrún Arnardóttir varamaður
Fundargerð ritaði: Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála

1.Auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis.

Málsnúmer 201807038

Erindi frá Umhverfisstofnun þar sem því er beint til sveitarfélaganna að vera vakandi fyrir ólöglegum skiltum í náttúru landsins. Greint er frá reglum náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og reglugerðar nr. 941/2011 um auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis. Þá er leitast við að útskýra hvað telst vera látlaust auglýsingaskilti.

Náttúruverndarnefnd samþykkir að fela starfsmanni að kynna gildandi reglur og viðmið sem kynnt eru í erindi Umhverfisstofnunar með auglýsingu, ásamt því að óska eftir ábendingum frá íbúum um auglýsingar sem ekki eru í samræmi við þær. Nefndin taki að því loknu saman ábendingar og sendi stofnuninni til viðeigandi meðferðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Átak í friðlýsingum, svæði í verndarflokki rammaáætlunar

Málsnúmer 201808005

Erindi frá Umhverfisstofnun þar sem farið er yfir áform um átak í friðlýsingu á svæðum í verndarflokki rammaáætlunar. Erindið er sent Fljótsdalshéraði vegna virkjunarkosta í Jökulsá á Fjöllum sem eru í verndarflokki.

Lagt fram til kynningar.

3.Stórurð - Náttúruperla

Málsnúmer 201808188

Náttúruverndarnefnd vill minna alla þá sem ferðast um náttúru landsins á mikilvægi þess að ganga vel um viðkvæm náttúrusvæði. Sérstaklega verður að gera þá kröfu til þeirra sem skipuleggja hópferðir á hestum eða farartækjum að tekið sé tillit til landgæða á einstökum stöðum og að umgengni um land sé með þeim hætti að ekki hljótist skaði af.

Náttúruverndarnefnd samþykkir að fela formanni nefndarinnar og starfsmanni að ræða við landeigendur að Stórurðarsvæðinu um það hvort og með hvaða hætti þessir aðilar geti unnið saman að vernd svæðisins, ásamt því að tryggja áhugasömum aðgengi að þessari dýrmætu náttúruperlu án þess að það komi niður á hefðbundnum nytjum landsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Uppbygging vindorku innan Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201706031

Erindi frá Orkusölunni varðandi nýtingu vindorku innan sveitarfélagsins. Bæjarráð vísaði erindinu til atvinnu- og menningarnefndar og umhverfis- og framkvæmdanefndar auk náttúruverndarnefndar.

Náttúruverndarnefnd telur að nýting vindorku hér á landi og innan sveitarfélagsins geta verið jákvætt skref enda er um að ræða sjálfbæran og umhverfisvænan orkugjafa og umhverfisáhrif af nýtingu vindorku að mestu leyti afturkræf.

Nefndin leggur þó áherslu á að við allar ákvarðanir um hugsanlega vindorkunýtingu innan sveitarfélagsins sé tekið fullt tillit til hagsmuna umhverfis og náttúruverndar. Meta verði gaumgæfilega hvaða svæði innan sveitarfélagsins henti best til slíkrar nýtingar með hliðsjón af sjónrænum áhrifum og fleiri þáttum sem tengjast náttúruvernd. Þannig verði að horfa heildstætt til sveitarfélagsins alls áður en ákvörðun er tekin um ráðstöfun einstakra svæða til slíkrar vinnslu.

Að mati nefndarinnar er eðlilegt að afstaða verði tekin til hugmynda um nýtingu vindorku við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, enda gefist þá tækifæri til heildstæðrar yfirferðar yfir landnotkun innan sveitarfélagsins, með lögbundinni aðkomu hagsmunaaðila og almennings. Nefndin telur ekki rétt að veita vilyrði til nýtingar vindorku innan sveitarfélagsins áður en þeirri vinnu er lokið.

Samþykkt með tveimur atkvæðum og einn situr hjá (EA).

5.Þjóðgarðastofnun

Málsnúmer 201808014

Fyrir fundinum liggja drög að frumvarpi um nýja stofnun sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu allra þjóðgarða á Íslandi og annarra friðlýstra svæða auk almennrar náttúruverndar.
Bæjarráð vísaði erindinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar auk náttúruverndarnefndar.

Náttúruverndarnefnd leggur áherslu á eftirfarandi atriði í tengslum við stofnun Þjóðgarðastofnunar:
1) Skýra þarf samspil stjórna og ráða sem sveitarfélög eiga aðild að annars vegar og forstjóra og annarra starfsmanna stofnunarinnar hins vegar.
2) Mikilvægt er að stjórnun svæða og ákvarðanir séu á hendi heimafólks.
3) Mikilvægt er að innviðauppbygging nýrrar stofnunar verði víða um land í samræmi við markmið 4. tl. 5. gr. frumvarpsdraganna.
4) Áríðandi er að innan hvers umdæmis sé starfstöð með föstu starfsfólki.
5) Mikilvægt er að stofnunin verði landsbyggðastofnun og að staðsetning höfuðstöðva hennar endurspegli það.
6) Forsenda þess að vel takist til með nýja stofnun, ef af verður, er að tryggt verði nægt fjármagn til að hún geti sinnt verkefnum sínum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Kolefnisjöfnun Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201809020

Erindi frá stýrihópi Heilsueflandi samfélags á Fljótsdalshéraði þar sem m.a. er lagt til að Fljótsdalshérað gangi fram með góðu fordæmi og kolefnisjafni útblástursmengun ökutækja sinna og flugferðir starfsmanna og gesta sveitarfélagsins.

Náttúruverndarnefnd þakkar erindið og telur mikilvægt að sveitarfélagið leggi sitt af mörkum við að draga úr losun á kolefni út í andrúmsloftið eins og kostur er, auk þess að hvetja til aðgerða sem miða að því að binda kolefni.

Nefndin felur starfsmanni að leggja fyrir næsta fund nefndarinnar tillögu að því með hvaða hætti unnt sé að meta kolefnisspor sveitarfélagsins, enda sé æskilegt að þær upplýsingar liggi fyrir svo hægt sé að setja sveitarfélaginu markmið um minnkun þess.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Starfsáætlun náttúruverndarnefndar

Málsnúmer 201806148

Fyrir fundinum liggja m.a. tillögur UST að friðlýsingum frá 2003 og tillögur Helga Hallgrímssonar frá 2008.

Náttúruverndarnefnd samþykkir að óska eftir því við bæjarráð að nefndin setji sér sjálf fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Innan hennar verði gert ráð fyrir kostnaði við rekstur nefndarinnar og fjármunum til að vinna að verkefnum á verksviði nefndarinnar, meðal annars framlag til landvörslu sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 22. ágúst síðastliðinn að gera ráð fyrir við gerð fjárhagsáætlunar 2019.

Áfram verði unnið að gerð starfsáætlunar fyrir komandi ár á næstu fundum nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 19:00.