Húsnæði barna- og leikskóla á Eiðum

Málsnúmer 201601181

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 328. fundur - 01.02.2016

Björn Ingimarsson bæjarstjóri greindi frá viðræðum við fulltrúa kvenfélags- og búnaðarfélags Eiðaþinghár, sem gert hafa tilboð í skólahúsnæðið, en hann fundaði með þeim í síðustu viku.

Fanney Hannesdóttir og Jóhann Gísli Jóhannsson mættu á fundinn, til að fara betur yfir kauptilboðið og hugmyndum félaganna varðandi nýtingu húsnæðisins.

Að lokinni yfirferð yfir málið, samþykkti bæjarráð að veita bæjarstjóra umboð til ganga til samninga við fulltrúa kvenfélags- og búnaðarfélags Eiðaþinghár, á grundvelli tilboðs þeirra. Stefnt er að því að samningsdrög verði lögð fyrir næsta fund bæjarráðs.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 329. fundur - 08.02.2016

Bæjarstjóri og og fjármálastjóri gerðu grein fyrir viðræðum við fulltrúa búnaðarfélags og kvenfélags Eiðaþinghár. Fram kom m.a. að síðar í vikunni er boðað til formlegra funda í félögunum þar sem umfjöllunarefnið verður möguleg kaup félaganna á umræddu húsnæði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjóra og fjármálastjóra falið að vinna áfram að samningi um sölu húsnæðisins til félaganna eða félags í þeirra eigu og stefna að því að leggja drög að kaupsamningi fyrir næsta fund bæjarráðs til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 330. fundur - 15.02.2016

Bæjarstjóri fór yfir viðræður við kvenfélag- og búnaðarfélag Eiðaþinghár um húsnæði barna- og leikskólans á Eiðum. Einnig fór hann yfir þann búnað sem þar er til staðar og tilheyrir skólanum.
Bæjarráð samþykkir að gengið verði frá samningi um sölu á viðkomandi eignum og lausafé og að samningurinn verður lagður fyrir næsta fund bæjarráðs.Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 331. fundur - 22.02.2016

Farið yfir drög að kaupsamningi við búnaðar- og kvenfélög Eiðaþinghár, um kaup félaganna á barna- og leikskólans á Eiðum. Kaupverð samkvæmt samningum er 23 milljónir króna.
Einnig lögð fram drög að samningi um afnot af íþróttasvæðinu á Eiðum og drög að samningi um fjarvarmaveituna sem staðsett er í húsnæði barnaskólans og lok starfsemi hennar. Báðir þessir samningar eru fylgiskjöl með kaupsamningum.

Bæjarráð samþykkir að veita bæjarstjóra umboð til að ganga frá og undirrita framangreinda samninga með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Undirritaðir samningar verði lagðir fram á næsta fundi bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 233. fundur - 02.03.2016

Afgreitt undir lið 5 í þessari fundargerð.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 233. fundur - 02.03.2016

Til máls tóku: Björn Ingimarsson, sem kynnti málið lagði fram drög að bókun. Guðmundur Kröyer,sem kynnti bókun sína og gerði grein fyrir atkvæði sínu. Páll Sigvaldason, Stefán Bogi Sveinsson,sem bar fram fyrirspurn, Gunnar Jónsson og Björn Ingimarsson, sem svaraði fyrirspurn.

Lagður fram kaupsamningur við Búnaðarfélag og Kvenfélag Eiðaþinghár, um kaup félaganna á barna- og leikskólanum á Eiðum. Kaupverð samkvæmt samningum er 23 milljónir króna.
Einnig lagður fram samningur um afnot af íþróttasvæðinu á Eiðum og samningur um fjarvarmaveituna, sem staðsett er í húsnæði barnaskólans og lok starfsemi hennar.
Báðir þessir samningar eru fylgiskjöl með kaupsamningum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir ofangreindan kaupsamning og felur bæjarstjóra að ganga formlega frá honum, ásamt fylgigögnum, til þinglýsingar.

Samþykkt með 8 atkv. en 1 sat hjá (G.S.K.)

Guðmundur Kröyer lagði fram eftirfarandi bókun:
Þegar sveitarfélag ákveður að selja fasteignir sínar tel ég það réttara verklag að það auglýsi söluna í opnu ferli á almennum markaði. Með því fá fleiri aðilar tækifæri til að bjóða í hina auglýstu fasteign sem skapar möguleika á að hámarka ávinning sveitarfélagsins á sölunni. Að mínu mati á þetta verklag að vera til staðar um allar fasteignir sem fara í söluferli hjá sveitarfélaginu. Nú er verið að selja grunn- og leikskólann á Eiðum án auglýsingar. Ég er ekki á móti sölunni sem slíkri og tel Kven- og Búnaðarfélag Eiðaþinghár verðuga eigendur að þessum eignum. En ég tel forsendur að þessu söluferli, sem samþykkt var í bæjarstjórn í júní 2012, byggjast á veikum grunni, sem getur kallað á ákveðna tortryggni í samfélaginu. Það er óljóst og tilviljunarkennt að mínu mati og því hef ég ákveðið að sitja hjá við þessa afgreiðslu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 339. fundur - 25.04.2016

Vegna framkominnar beiðni frá félaginu Eiðar ehf, kaupanda barna- og leikskólans, samþykkir bæjarráð að við undirskrift kaupsamnings verði kaupenda veitt veðheimild í húsnæði barna- og leikskólans á Eiðum allt að kr. 10 milljónir.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 340. fundur - 02.05.2016

Lögð fram drög að kaupsamningi milli Eiða ehf og Fljótsdalshéraðs, vegna kaupa Eiða ehf á húsnæði barna- og leikskólans á Eiðum. Einnig fylgir afnotasamningur um gamla íþróttasvæði UÍA á Eiðum milli sömu aðila.

Bæjarráð samþykkir að veita bæjarstjóra umboð til að undirrita samningana fh. Fljótsdalshéraðs.

Einnig lögð fram drög að yfirlýsingu vegna loka rekstrar fjarvarmaveitu á Eiðum. Bæjarstjóra falið að ganga til viðræðna við notendur veitunnar á þeim forsendum sem fram koma í henni.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 237. fundur - 04.05.2016

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Vegna framkominnar beiðni frá félaginu Eiðar ehf, kaupanda barna- og leikskólans, samþykkir bæjarstjórn að við undirskrift kaupsamnings verði kaupenda veitt veðheimild í húsnæði barna- og leikskólans á Eiðum allt að kr. 10 milljónir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 237. fundur - 04.05.2016

Lögð fram drög að kaupsamningi milli Eiða ehf og Fljótsdalshéraðs, vegna kaupa Eiða ehf á húsnæði barna- og leikskólans á Eiðum. Einnig fylgir afnotasamningur um gamla íþróttasvæði UÍA á Eiðum milli sömu aðila.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.
Að tillögur bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að veita bæjarstjóra umboð til að undirrita samningana fh. Fljótsdalshéraðs.

Einnig lögð fram drög að yfirlýsingu vegna loka rekstrar fjarvarmaveitu á Eiðum. Bæjarstjóra falið að ganga til viðræðna við notendur veitunnar á þeim forsendum sem fram koma í henni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.