Heimasíða Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201505018

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 295. fundur - 11.05.2015

Haddur Áslaugsson umsjónarmaður tölvumála mætti á fundinn undir þessum lið og gerði grein fyrir verðtilboðum sem borist hafa í gerð nýrrar heimasíðu fyrir sveitarfélagið og mati sínu á kostum og göllum þeirra.

Málið er í vinnslu og bæjarstjóra og skrifstofustjóra, í samráði við umsjónarmann tölvumála, falið að afla frekari gagna.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 296. fundur - 26.05.2015

Málinu frestað til næsta fundar bæjarráðs.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 297. fundur - 01.06.2015

Farið yfir þá valkosti sem fyrir liggja og fundi og upplýsingar sem fram hafa komið um málið.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Stefnu um gerð nýrrar heimasíðu fyrir Fljótsdalshérað, á grundvelli tilboðs frá fyrirtækinu í verkið.

Tillagan samþykkt með 2 atkvæðum, en 1 var á móti (SBS)
Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég tel að ganga eigi til samninga við AN Lausnir um gerð nýrrar heimasíðu. Það tilboð er lægra og að auki tel ég það mikilvægt að sveitarfélagið kaupi þjónustu í heimabyggð þegar hún er í boði á sambærilegum kjörum og annarsstaðar og styðji þannig við uppbyggingu á fjölbreyttri atvinnustarfsemi á svæðinu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 218. fundur - 03.06.2015

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Stefnu um gerð nýrrar heimasíðu fyrir Fljótsdalshérað, á grundvelli tilboðs fyrirtækisins í verkið.

Samþykkt með 6 atkv. meirihluta, en 3 fulltrúar minnihluta greiddu atkvæði á móti.

Stefán Bogi Sveinsson, lagði fram eftirfarandi bókun, f.h. B-listans.

Bæjarfulltrúar B-lista eru ósammála þeirri tillögu sem lögð er fram og telja að ganga eigi til samninga við AN Lausnir um gerð nýrrar heimasíðu.

Tilboð AN Lausna var lægra og þó að munur á þeim geri samanburð örðugan er það okkar mat að á grundvelli þess hefði verið unnt að ná hagstæðum samningum. Aðrir þættir sem vega þungt er annars vegar að með samningum við Stefnu er búið að festa sveitarfélagið í viðskiptum við það fyrirtæki alfarið um allar lausnir tengdar heimasíðunni.

Hins vegar er það stefna B-listans að mikilvægt sé að sveitarfélagið kaupi þjónustu í heimabyggð þegar hún er í boði á sambærilegum kjörum og annarsstaðar og styðji þannig við uppbyggingu á fjölbreyttri atvinnustarfsemi á svæðinu.

Við teljum að með þessari ákvörðun missi sveitarfélagið af gullnu tækifæri til að sína stuðning sinn við efnilegt sprotafyrirtæki á staðnum í verki.

Gunnar Jónsson, fh. meirihlutans lagði fram eftirfarandi bókun:
Við mat á því hvaða leið yrði farin við endurnýjun á heimasíðu sveitarfélagsins var horft til ýmissa þátta s.s. verðs, reynslu af heimasíðugerð fyrir sveitarfélög, hvernig staðið yrði að þróunarstarfi, samlegð með heimasíðum undirstofnana og möguleg áhrif á starfsumhverfi starfsmanna sveitarfélagsins m.m. Að öllum þessum þáttum skoðuðum var það niðurstaða meirihluta bæjarráðs að samningur við Stefnu væri líklegur til að uppfylla betur en aðrir valkostir þær kröfur sem gerðar væru til verkefnisins.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 334. fundur - 21.03.2016

Til fundarins kom Haddur Áslaugsson og fór yfir stöðu mála varðandi nýja heimasíðu sveitarfélagsins.