Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

310. fundur 14. september 2015 kl. 09:00 - 10:45 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Anna Alexandersdóttir varaformaður
  • Stefán Bogi Sveinsson aðalmaður
  • Sigrún Blöndal áheyrnarfulltrúi
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri

1.Fjármál 2015

Málsnúmer 201501007

Bæjarráð samþykkir að boðað verði til forstöðumannafundar nú á haustdögum í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2016. Skrifstofustjóra falið að boða til fundarins í samráði við bæjarstjóra og fjármálastjóra. Gert er ráð fyrir því að bæjarráðsmenn hafi seturétt á fundinum.

Frestað til næsta fundar að öðru leyti.

2.Fundargerð 40. fundar stjórnar Brunavarna á Austurlandi

Málsnúmer 201509021

Vegna liðar 1 í fundargerðinni leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að samþykkt verði ný reikniregla þátttökugjalda sveitarfélaganna, þannig að auk brunabótamats mannvirkja og íbúafjölda sveitarfélaganna, verði líka tekinn inn í útreikninginn breytan hlutfall launakostnaðar slökkviliðs hvers sveitarfélags, samanber meðfylgjandi gögn.

3.Almenningssamgöngur 2015

Málsnúmer 201501086

Málið er í vinnslu og verður tekið upp á næsta fundi.

4.Egilsstaðaflugvöllur og áfangastaðurinn Austurland

Málsnúmer 201410144

Fært í trúnaðarmálabók.

5.Sveitarstjórnarstigið á 21.öldinni

Málsnúmer 201509046

Lagt fram boð á ráðstefnu sem haldin verður 26. október 2015 á Grand hóteli í Reykjavík, um sveitarstjórnarstigið á 21. öldinni.

Bæjarráð telur ráðstefnuna áhugaverða, en tekur afstöðu til þátttöku þegar nánari dagskrá liggur fyrir.

6.Matslýsing vegna Kerfisáætlunar 2015-2024

Málsnúmer 201501014

Rædd drög að matslýsingu vegna Kerfisáætlunar Landsnets 2015-2024, sem er að finna á heimasíðu fyrirtækisins.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs bendir á mikilvægi þess að styrkja flutningskerfi raforku innanlands og þá sérstaklega til og frá Austurlandi. Núverandi staða þar sem fyrirtæki á Austurlandi þurfa að sæta skerðingu á afhendingu raforku, er óásættanleg og uppbygging á því kerfi verður að vera forgangsverkefni.

Komi að því loknu til lagningar sæstrengs til Evrópu lítur bæjarráð svo á að öll rök séu fyrir því að tengja hann inn á Austurland og telur ýmsar þær röksemdir sem tilgreindar eru í drögum að kerfisáætlun varðandi tengingu sæstrengs ekki eiga rétt á sér.

Bæjarráð beinir því til atvinnu- og menningarnefndar og umhverfis- og framkvæmdanefndar, að taka drög að kerfisáætlun Landsnets til skoðunar, þrátt fyrir að umsagnarfrestur sé að renna út.

7.Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2015

Málsnúmer 201509048

Lagt fram fundarboð vegna ársfundar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 23. sept. 2015.

Bæjarráð samþykkir að Björn Ingimarsson bæjarstjóri fari með umboð og atkvæði Fljótsdalshéraðs á fundinum.

8.Viðtalstímar bæjarfulltrúa 2015

Málsnúmer 201502122

Bæjarráð leggur til að viðtalstími í október verði í tengslum við lýðræðisvikuna 12. til 18. okt, samanber fyrri bókun dagsetta 10. ágúst.
Rætt um að skoða betur með tímasetningu viðtalanna og jafnvel staðsetningu.
Skrifstofustjóra falið að setja fram tillögu að dagsetningum og niðurröðun kjörinna fulltrúa í viðtölin og leggja fram í bæjarráði.

Fundi slitið - kl. 10:45.