Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

383. fundur 24. apríl 2017 kl. 09:00 - 11:30 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Anna Alexandersdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Stefán Bogi Sveinsson aðalmaður
  • Sigrún Blöndal varaformaður
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri
Björn Ingimarsson bæjarstjóri var í símasambandi við fundinn frá Reykjavík.

1.Fjármál 2017

Málsnúmer 201701003

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri fór yfir nokkur mál tengd rekstri sveitarfélagsins og kynnti bæjarráðsmönnum.

Einnig fór Björn Ingimarsson bæjarstjóri yfir fund sem hann og Óðinn Gunnar sátu með fulltrúum Seyðisfjarðarbæjar, varðandi rekstur skíðasvæðisins í Stafdal. Birni falið að kanna með fundartíma fyrir annan fund með bæjarráði Seyðisfjarðar til að ræða þetta mál frekar, ásamt ýmsum öðrum málum.

2.Fjárhagsáætlun 2018

Málsnúmer 201702139

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri kynnti frumdrög sín að áætlun fyrir árið 2018.
Nú eru nefndir sveitarfélagsins að vinna frumdrög að áætlunum sínum fyrir árið 2018 og skila þeim inn fyrir lok maí. Rammaáætlun verður svo samþykkt og gefin út í byrjun júní.

3.Fundargerð 849. stjórnarfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201704050

Lögð fram til kynningar.

4.Brunavarnir á Héraði, stjórnarfundargerð 12.04. 2017

Málsnúmer 201704058

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

5.Ungt fólk og lýðræði 2017

Málsnúmer 201702147

Lögð fram til kynningar ályktun frá Ungmennaráðstefnu UMFÍ sem haldinn var á Laugarbakka í Miðfirði 5. til 7. apríl sl.

6.Minnisblað til sveitarfélaga sem reka HAUST

Málsnúmer 201704045

Lagt fram minnisblað HAUST til þeirra sveitarfélaga sem standa að rekstri heilbrigðiseftirlitsins.
Bæjarráð tekur undir með framkvæmdastjóra HAUST og hvetur alla sveitarstjórnarmenn til að fylgjast vel með boðuðum flutningi verkefna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til ríkisstofnanna og telur mikilvægt að heilbrigðisnefndir missi ekki forræðið yfir málaflokkum sem hafa verið farsællega á þeirra verksviði um árabil.
Bæjarráð telur augljóst að það sé hagkvæmast og skilvirkast að eftirlitsverkefnum sé sinnt í nærumhverfi, þar sem til staðar er þekking á staðháttum og aðstæðum á hverjum stað.

7.Fundur með fjárlaganefnd 2017

Málsnúmer 201704060

Lagt fram erindi frá SSA, þar sem fram kemur að landshlutasamtökunum hefur verið boðið að koma til fundar með fjárlaganefnd fimmtudaginn 27. apríl nk.
Kallað er eftir sjónarmiðum og áherslum frá sveitarfélögunum á svæði SSA varðandi fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem Alþingi kynnti nýlega og fjárlagafrumvarp næsta árs mun grundvallast á.
Farið yfir helstu áherslumál Fljótsdalshéraðs og þeim komið á framfæri við SSA.

8.Samstarfsverkefni um sjálfbæra þróun í bæjum og borgum á Norðurlöndum

Málsnúmer 201704054

Lagt fram til kynningar bréf um samstarfsverkefni um sjálfbæra þróun í bæjum og borgum á Norðurlöndum.
Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar til skoðunar.

9.Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða

Málsnúmer 201704063

Kynnt drög að bréfi bæjar- og sveitarstjóra til Umhverfis- og auðlindaráðherra vegna frumvarps til laga um skiplag haf- og strandsvæða.

Bæjarráð samþykkir að veita bæjarstjóra heimild til að undirrita bréf sveitarstjóra til umhverfis- auðlindaráðherra, varðandi frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða.

10.Almenningssamgöngur á Austurlandi

Málsnúmer 201606016

Kynnt bókun umhverfis- og framkvæmdanefndar Fljótsdalshéraðs um málið.
Bæjarráð samþykkir þátttöku í verkefninu.
Í samræmi við umsögn umhverfis- og framkvæmdanefndar verði gjaldfrjálsar almenningssamgöngur á vegum sveitarfélagsins þó ekki hluti af verkefninu að svo komnu máli.

11.Tillaga til þingsályktunar um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga

Málsnúmer 201704043

Bæjarráð veitir ekki umsögn.

12.Tillaga til þingsályktunar um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli

Málsnúmer 201704040

Bæjarráð vísar í fyrri bókanir sínar um málið og tekur undir efni tillögunnar.

13.Tillaga til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll

Málsnúmer 201704041

Bæjarráð bendir á ný á bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 20.02.2013,sem var svohljóðandi:

Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og telur þá hugmynd sem fram kemur í tillögunni allsendis ótímabæra og að skynsamlegra og hagkvæmara sé að nýta það fjármagn sem til staðar er til að byggja upp, styrkja og markaðssetja þá millilandaflugvelli sem þegar eru í landinu. Benda má tillöguflytjendum á að fleiri en ein aðkomuleið er að Vatnajökulsþjóðgarði og millilandaflugvelli er að finna bæði norðan hans og austan.

14.Frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum (íbúakosningar)

Málsnúmer 201704042

Bæjarráð veitir ekki umsögn.

15.Tillaga til þingsályktunar um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland.

Málsnúmer 201704044

Bæjarráð tekur heils hugar undir að stefna ber að því að Ísland verði kolefnishlutlaust og bendir á að skilvirkasta aðgerð sem grípa má til í þeim efnum er að stórauka framlög ríkisins til skógræktarverkefna.

16.Tillaga til þingsályktunar um skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra

Málsnúmer 201704046

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við tillöguna.

Fundi slitið - kl. 11:30.