Atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs

91. fundur 27. maí 2013 kl. 17:00 - 18:45 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Gunnar Þór Sigbjörnsson formaður
  • Jóhann Gísli Jóhannsson aðalmaður
  • Aðalsteinn Ingi Jónsson aðalmaður
  • Kristjana Jónsdóttir varamaður
  • Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-menningar- og íþróttafulltrúi
  • Kristín Björnsdóttir aðalmaður
Fundargerð ritaði: Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi

1."Veiðimessa", viðburður

Málsnúmer 201305162

Á fundinn undir þessum lið mætti Heiður Vigfúsdóttir frá Austurför og gerir grein fyrir verkefninu.

Atvinnumálanefnd fagnar þeirri hugmynd að verkefni sem kynnt var og styrkt hefur verið af atvinnumálasjóði sveitarfélagsins. Nefndin telur viðburðinn geta verið mikilvægan lið í að draga fram tækifæri Héraðsins til veiða og útivistar, en jafnframt aðrar tengdar greinar s.s. matvælaframleiðslu, verslun, veitingar ofl.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Beiðni um stuðning Atvinnumálasjóðs Fljótsdalshéraðs við Kjötvinnsluna Snæfell

Málsnúmer 201305155

Á fundinn undir þessum lið mættu Sigurjón Bjarnason og Gestur J. Hallgrímsson.

Aðalsteinn Jónsson og Jóhann Gísli Jóhannsson lýstu sig vanhæfa við afgreiðslu þessa máls og yfirgáfu fundarsalinn á meðan henni stóð.

Fyrir liggur erindi frá Sláturfélagi Austurlands, dagsett 23. maí 2013, þar sem þess er farið á leit að Atvinnumálasjóður Fljótsdalshéraðs taki þátt í fjármögnun Kjötvinnslunnar Snæfells.

Atvinnumálanefnd fagnar framtaki Sláturfélagsins með opnun kjöt- og fiskverslunar sem ekki hvað síst sérhæfir sig í sölu á afurðum úr héraði og telur tilkomu hennar styðja við þá grósku sem er í framleiðslu á austfirskum matvælum. Atvinnumálanefnd leggur til að verkefninu verði boðið lán að upphæð 1.5 milljón krónur sem skal endurgreiðast á þremur árum með möguleika á breytingu þess í hlutafé. Nefndin felur starfsmanni og formanni að útfæra samning í samræmi við samþykktir sjóðsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Fjármál 2013

Málsnúmer 201301002

Fyrir liggur bókun bæjarráðs frá 15. maí 2013 þar sem því er beint til atvinnumálanefndar að hún taki til skoðunar að veita fjármagni úr Atvinnumálasjóði, allt að kr. 1 milljón, til verkefnis Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar varðandi uppbyggingu á þjónustu við olíuleit, til að standa straum að kostnaði Fljótsdalshéraðs við það.

Atvinnumálanefnd leggur áherslu á þá hagsmuni fyrir svæðið sem kunna að felast í þjónustu vegna olíuleitar í hafinu norður af Íslandi og mælir með því að kostnaður Fljótsdalshéraðs vegna verkefnisins, allt að kr. 1 milljón, verði greiddur úr Atvinnumálasjóði Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Styrkumsókn vegna kynningarmyndbands um Stórurð ofl

Málsnúmer 201304185

Fyrir liggur bréf frá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs með ósk um styrk til gerðar kynningarmyndbanda um Stórurð, Víkur og Borgarfjörð eystri.

Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 50.000 sem tekið verði af lið 13.69.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Fyrirkomulag kynningar- og auglýsingamála 2013

Málsnúmer 201304011

Gerð grein fyrir stöðu verkefnis um gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta og atvinnulíf. Formaður og starfsmaður kynntu stöðu verkefnisins, en m.a. er öflun gagna hafin og er markmiðið að verkefninu ljúki í vetrarbyrjun.

6.Egilsstaðaflugvöllur

Málsnúmer 201305163

Undan farin ár hefur ferðamönnum til Íslands fjölgað hratt og stöðugt. Allt bendir til þess að sú þróun haldi áfram. Í ljósi þess hvetur atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs hagsmunasamtök í ferðaþjónustu, flugrekstraraðila og yfirvöld flug- og ferðamála á Íslandi til að vinna að því að Egilsstaðaflugvöllur verði enn frekar nýttur sem millilandaflugvöllur og hann verði þannig ein af megingáttum flugfarþega inn og útúr landinu. Stöðug fjölgun á erlendum ferðamönnum til landsins kallar á skynsamlega dreifingu þeirra, m.a. til að sporna við of miklu álagi á viðkvæmar náttúruperlur á suðvesturhorni Íslands svo og til að stuðla að sem kraftmestum atvinnurekstri ferðaþjónustunnar um allt landið. Atvinnumálanefnd bendir jafnframt á að með hækkandi eldsneytisverði og sífellt auknum umhverfiskröfum þá hljóti að vera hagkvæmt að horfa til sem stystu flugleiða milli Evrópu og Íslands. Með þetta að leiðarjósi telur atvinnumálanefnd það vera þjóðhagslega skynsamlegt að nýta það mannvirki sem flugvöllurinn á Egilsstöðum er, til enn frekara millilandaflugs, samhliða Keflavíkurflugvelli.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 18:45.