Atvinnu- og menningarnefnd

16. fundur 23. mars 2015 kl. 17:00 - 19:00 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Guðmundur Sveinsson Kröyer formaður
  • Ragnhildur Rós Indriðadóttir aðalmaður
  • Þórður Mar Þorsteinsson aðalmaður
  • Gunnar Þór Sigbjörnsson aðalmaður
  • Kristjana Jónsdóttir aðalmaður
  • Óðinn Gunnar Óðinsson
Fundargerð ritaði: Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-. menningar- og íþróttafulltrúi

1.Tilhögun veiðitíma hreindýraveiða

Málsnúmer 201503102Vakta málsnúmer

Á fundinn undir þessum lið mættu Jón Hávarður Jónsson og Þórhallur Borgarsson, frá Félagi hreinýraleiðsögumanna.

Farið var yfir tilhögun veiðitíma hreindýra og tekjur sem myndast á svæðinu tengdar veiðum á hreindýrum. Einnig voru ræddar hugmyndir um hvernig hægt væri að auka afleidda ferðaþjónustu á svæðinu á veiðitíma í tengslum við hreindýraveiðarnar. Gestir fundarins gerðu einnig grein fyrir umræðu um að seinka upphafi veiða á hreinkúm til 10. ágúst en lengja í staðinn veiðitímann til loka september. Að mati fulltrúa félagsins gæti seinkun veiðanna haft neikvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu sem byggir á veiðunum auk þess sem hætta væri á því að þær lendi inn í haustrigningar og jafnvel snjókomu sem gerir umferð um svæðið erfiðari og eykur líkur á landskemmdum.

Atvinnu- og menningarnefnd tekur undir það að hreindýraveiðar eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á Fljótsdalshéraði. Nefndin hvetur hlutaðeigandi aðila til að hafa samráð um skipulagninu og stýringu veiðanna með það að markmiði að draga úr álagi á hjarðir og land á afmörkuðum tímum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Skógrækt á Héraði

Málsnúmer 201503112Vakta málsnúmer

Málinu frestað.

3.Atvinnumálasjóður,umsóknir 2015

Málsnúmer 201503019Vakta málsnúmer

Fyrir liggja sjö umsóknir til Atvinnumálasjóðs Fljótsdalshéraðs, en umsóknarfrestur rann út 1. mars 2015. Samtals var sótt um styrki að upphæð kr. 11.945.000 en 2.200.000 voru til úthlutunar.
Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að eftirfarandi verkefni hljóti styrk úr Atvinnumálasjóði:

Ormurinn langi, leiðsögð gönguferð um gamla þorpið á Egilsstöðum. Umsækjandi Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. Styrkupphæð kr. 200.000.

Ræktun hafþyrnis. Umsækjandi Jana Janickova. Styrkupphæð kr. 200.000.

Rekstrar- og markaðsrannsókn vegna stofnunar bruggverksmiðju. Umsækjandi Karl S. Lauritzson. Styrkupphæð kr. 800.000.

Viðarkurlari. Umsækjandi Félag skógarbænda á Héraði. Styrkupphæð kr. 300.000.

Gerð viðskipta- og kostnaðaráætlunar vegna Ylstrandar. Umsækjandi Ylströndin ehf. Styrkupphæð kr. 300.000.

Menningartengd ferðaþjónusta á Mjóanesi. Umsækjandi Elsa Björg Reynisdóttir. Styrkupphæð kr. 400.000.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Fyrirkomulag úthlutunar menningarstyrkja

Málsnúmer 201502147Vakta málsnúmer

Málið var áður á dagskrá síðasta fundar nefndarinnar.

Atvinnu- og menningarnefnd óskar eftir umfjöllun vinnuhóps um menningarstefnu um úthlutun fjár til menningarstyrkja og felur starfsmanni að undirbúa tillögur að reglum sem lagðar verði fyrir nefndina.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Samstarfssamningur sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál

Málsnúmer 201503084Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að nýjum menningarsamningi á milli sveitarfélaga á Austurlandi til kynningar og umfjöllunar en hann hefur verið uppfærður með tilliti til nýs samnings um sóknaráætlun. Einnig fylgir fyrri menningarsamningur á milli sveitarfélaganna og nýr samningur um sóknaráætlun.

Málinu var vísað frá bæjarráði 16. mars 2015, með ósk um að nefndin veiti bæjarráði umsögn um samninginn.

Atvinnu- og menningarnefnd fagnar því að samningur um menningarmál milli sveitarfélaga á Austurlandi liggur nú fyrir, á grundvelli samnings um sóknaráætlun milli ríkis og SSA. Atvinnu- og menningarnefnd leggur áherslu á að áfram, eins og hingað til, verði fyrst og fremst faglegt mat haft til hliðsjónar við úthlutun styrkja til menningarmála úr uppbyggingarsjóðnum. Nefndin gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi drög.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 19:00.