Tilhögun veiðitíma hreindýraveiða

Málsnúmer 201503102

Atvinnu- og menningarnefnd - 16. fundur - 23.03.2015

Á fundinn undir þessum lið mættu Jón Hávarður Jónsson og Þórhallur Borgarsson, frá Félagi hreinýraleiðsögumanna.

Farið var yfir tilhögun veiðitíma hreindýra og tekjur sem myndast á svæðinu tengdar veiðum á hreindýrum. Einnig voru ræddar hugmyndir um hvernig hægt væri að auka afleidda ferðaþjónustu á svæðinu á veiðitíma í tengslum við hreindýraveiðarnar. Gestir fundarins gerðu einnig grein fyrir umræðu um að seinka upphafi veiða á hreinkúm til 10. ágúst en lengja í staðinn veiðitímann til loka september. Að mati fulltrúa félagsins gæti seinkun veiðanna haft neikvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu sem byggir á veiðunum auk þess sem hætta væri á því að þær lendi inn í haustrigningar og jafnvel snjókomu sem gerir umferð um svæðið erfiðari og eykur líkur á landskemmdum.

Atvinnu- og menningarnefnd tekur undir það að hreindýraveiðar eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á Fljótsdalshéraði. Nefndin hvetur hlutaðeigandi aðila til að hafa samráð um skipulagninu og stýringu veiðanna með það að markmiði að draga úr álagi á hjarðir og land á afmörkuðum tímum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 214. fundur - 01.04.2015

Á fundi atvinnu- og menningarnefndar undir þessum lið mættu Jón Hávarður Jónsson og Þórhallur Borgarsson, frá Félagi hreindýraleiðsögumanna og fóru yfir ýmis mál tengd hreindýraveiðum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með atvinnu- og menningarnefnd um að hreindýraveiðar eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á Fljótsdalshéraði. Bæjarstjórn hvetur hlutaðeigandi aðila til að hafa samráð um skipulagningu og stýringu veiðanna með það að markmiði að draga úr álagi á hjarðir og land á afmörkuðum tímum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.