Samningur sveitarfélagsins við Fimleikadeild Hattar um undirbúning, stjórnun og framkvæmd 17. júní hátíðarhaldanna á Fljótsdalshéraði, rann út á síðasta ári.
Atvinnu- og menningarnefnd felur formanni og starfsmanni nefndarinnar að óska eftir viðræðum við fulltrúa fimleikadeildar Hattar um framkvæmd 17. júní hátíðarhaldanna árið 2019.
Fyrir liggur fundargerð framhaldsaðalfundar Héraðsskjalasafns Austfirðinga frá 14. desember 2018. Jafnframt liggur fyrir fundargerð stjórnar safnsins frá 14. desember 2018.
Jafnframt liggur fyrir bókun bæjarráðs frá 7. janúar 2019, sem beinir því til atvinnu- og menningarnefndar að taka málefni Héraðsskjalasafns Austfirðinga á dagskrá með hliðsjón af nýkominni skýrslu Þjóðskjalasafns um starfsemi héraðsskjalasafna, nýjum verkefnum sem tengjast löggjöf um persónuvernd og mögulegum sérverkefnum Héraðsskjalasafnsins fyrir Fljótsdalshérað.
Atvinnu- og menningarnefnd felur starfsmanni að ræða við forstöðumann Héraðsskjalasafnsins um möguleg sérverkefni og óskar jafnframt eftir að forstöðumaður safnsins mæti á næsta fund nefndarinnar.
Atvinnu- og menningarnefnd auglýsti í október síðast liðnum eftir aðila eða aðilum sem áhuga hefðu á að taka að sér framkvæmd og rekstur bæjarhátíðarinnar Ormsteitis 2019 og eða til næstu ár. Frestur til að skila inn tillögum um framkvæmd og rekstur hátíðarinnar var til og með 19. nóvember 2018. Engin umsókn barst við auglýsingunni.
Jafnframt liggur fyrir tölvupóstur, dagsettur 28. desember 2018, frá Halldóri Waren, þar sem vísað er til fyrrnefndar auglýsingar og lýst er vilja til samráðs og umræðna um framkvæmd bæjarhátíðar.
Atvinnu- og menningarnefnd óskar eftir að Halldór mæti við fyrsta tækifæri á fund nefndarinnar þar sem hann geri grein fyrir hugmyndum sínum.
Fyrir liggur bréf dagsett 30. desember 2018, frá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi, þar sem leitað er eftir stuðningi við ljóðabókaútgáfu félagsins á árinu 2019. En þá gefur félagið út þrjár bækur, höfundar tveggja þeirra eru af Fljótsdalshéraði og þýðandi þeirrar þriðju er þar búsettur.
Atvinnu- og menningarnefnd sér sér ekki fært að styrkja útgáfuna.
Farið yfir umsóknirnar sem bárust og verður málið tekið fyrir aftur á næsta fundi.