Náttúruverndarnefnd

15. fundur 07. október 2019 kl. 16:00 - 17:30 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Stefán Bogi Sveinsson formaður
  • Aðalsteinn Ingi Jónsson varaformaður
  • Sigríður Ruth Magnúsdóttir aðalmaður
  • Ragnhildur Rós Indriðadóttir varamaður
  • Freyr Ævarsson starfsmaður
Fundargerð ritaði: Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir að bæta einu máli á dagskrá, Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda 2019 og var það samþykkt samhljóða.

1.Landvarsla á Víknaslóðum og nágrenni 2020

Málsnúmer 201906037

Bæjarstjórn vísaði til náttúruverndarnefndar erindi sem varðar stuðning við landvörslu á Víknaslóðum, í Stórurð, Stapavík og Gönguskarði.
Erindið var áður á dagskrá 13. fundar náttúruverndarnefndar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd telur að brýnt sé að gera ráð fyrir landvörslu á svæðinu. Nefndin leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár geri sveitarfélagið ráð fyrir fjármunum til þess að styrkja Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahóp Borgarfjarðar eystri til að sinna landvörslu 2020. Jafnframt hvetur nefndin til þess að í yfirstandandi vinnu við friðlýsingu svæðisins verði haft samráð við framangreinda aðila þegar kemur að því að ræða fyrirkomulag landvörslu á svæðinu til frambúðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Aðalsteinn Jónsson og Ruth Magnúsdóttir viku sæti undir afgreiðslu þessa liðar. Ragnhildur Rós Indriðadóttir tók sæti Ruthar.

2.Friðlýsingar á Fljótsdalshéraði

Málsnúmer 201902089

Á 12. fundi náttúruverndarnefndar þann 25. febrúar 2019 var m.a. bókað: "Náttúruverndarnefnd óskar eftir því að af hálfu friðlýsingateymis Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verði aflað frekari gagna varðandi þau svæði í sveitarfélaginu sem eru á náttúruverndaráætlun svo unnt sé að móta skýrari afstöðu sveitarfélagsins til friðlýsingar þeirra í einhverri mynd."
Fyrir fundinum liggur afstaða Náttúrustofu Austurlands til verndargildis þriggja svæða þ.e. Grímstorfu í Hafrafelli, Múlakolls í Skriðdal og Stuðlagils, Stuðlafoss og Eyvindarárgils á Jökuldal.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd þakkar Náttúrustofu Austurlands fyrir greinargott yfirlit. Með vísan til þess sem þar kemur fram samþykkir nefndin að vinna áfram að því að kanna möguleika á friðlýsingu þeirra svæða sem tilgreind eru. Nefndin samþykkir að fela formanni og starfsmanni nefndarinnar að boða landeiganda Grímstorfu í Hafrafelli til fundar til að ræða afstöðu til mögulegrar friðlýsingar hennar. Varðandi Þingmúla/Múlakoll verði áfram unnið í samræmi við bókun náttúruverndarnefndar frá 25. febrúar 2019. Varðandi Stuðlafoss, Stuðlagil og Eyvindarárgil verði áfram unnið í samræmi við bókun bæjarstjórnar frá 21. ágúst 2019.

Samþykkt samhljóða með tveimur atkvæðum (SBS og RRI).

3.Áskorun vegna hamfarahlýnunar

Málsnúmer 201909093

Fyrir fundinum liggur áskorun til umhverfisráðherra, ríkisstjórnar og sveitarfélaga Íslands frá Samtökum grænkera á Íslandi, þess efnis að auka framboð grænkerafæðis í mötuneytum stofnana ríkis og sveitarfélaga.

Lagt fram til kynningar.

4.Ósk um umsögn vegna breytingar á matskyldu mannvirki, Vopnafjarðarlína 1.

Málsnúmer 201909102

Erindi frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir umsögn vegna breytingar á matskyldu mannvirki, Vopnafjarðarlínu 1. Leitað er eftir áliti Fljótsdalshéraðs á hvort fyrirhuguð breyting sé í samræmi við aðalskipulag Fljótsdalshéraðs 2008-2028.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs staðfesti á fundi sínum þann 2. október að fyrirhuguð framkvæmd, sem felur í sér að hluti Vopnafjarðarlínu 1 verði settur í jörð, kalli ekki á breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Lagt fram til kynningar.

5.Starfs- og fjárhagsáætlun náttúruverndarnefndar 2020

Málsnúmer 201906103

Á 13. fundi náttúruverndarnefndar þann 24. júní 2019 var m.a. bókað: "Náttúruverndarnefnd beinir því til bæjarráðs að nefndinni verði markað fjármagn til að sinna verkefnum sínum og að hún vinni eigin fjárhagsáætlun fyrir 2020."
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 1. júlí "að vísa tilmælum nefndarinnar til gerðar fjárhagsáætlunar á komandi hausti."

Í vinnslu.

6.Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda 2019

Málsnúmer 201910038

Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda mun verða haldinn 14. nóvember.

Náttúruverndarnefnd samþykkir að starfsmaður og formaður nefndarinnar sæki fundinn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 17:30.