Friðlýsingar á Fljótsdalshéraði

Málsnúmer 201902089

Náttúruverndarnefnd - 12. fundur - 25.02.2019

Farið yfir möguleg næstu skref hvað varðar friðlýsingar á Fljótsdalshéraði og m.a. sagt frá fundi sem formaður og starfsmaður náttúruverndarnefndar áttu með fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar.

Á fundinum var rætt um alls sjö svæði eins og fram kemur í minnisblaði af fundinum. Þar af er þrjú, Eyjólfsstaðaskóg, Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta, að finna á gildandi náttúruverndaráætlun. Hin fjögur svæðin eru Stórurð og nærliggjandi svæði í Hjaltastaðaþinghá, Grímstorfa í Hafrafelli, Þingmúli/Múlakollur í Skriðdal og Stuðlagil, Stuðlafoss og Eyvindarárgil á Jökuldal.
Fulltrúi landeigenda Hrafnabjarga sat fundinn þegar rætt var um mögulega friðlýsingu Stórurðar og nærliggjandi svæða og fulltrúi landeigenda Egilsstaða þegar rætt var um mögulega friðlýsingu Egilsstaðaskógar og Egilsstaðakletta.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd óskar eftir því að af hálfu friðlýsingateymis Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verði aflað frekari gagna varðandi þau svæði í sveitarfélaginu sem eru á náttúruverndaráætlun svo unnt sé að móta skýrari afstöðu sveitarfélagsins til friðlýsingar þeirra í einhverri mynd.
Jafnframt er formanni nefndarinnar, í samráði við verkefnastjóra umhverfismála, falið að ræða við fulltrúa umhverfis- og framkvæmdanefndar um kosti þess og galla að vinna að friðlýsingu Selskógar sem fólkvangs samhliða yfirstandandi vinnu við deiliskipulag svæðisins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd leggur til við bæjarstjórn að óskað verði eftir því við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að hafin verði vinna við friðlýsingu jarðanna Hrafnabjarga, Unaóss og Heyskála í Hjaltastaðaþinghá, að hluta eða í heild, með sérstakri áherslu á Stórurð. Lögð er áhersla á að samstarfshópur þar sem fulltrúar landeigenda og sveitarfélagsins eigi sæti verði skipaður sem fyrst og að þeim hópi verði falið að móta nánari tillögur um flokkun og umfang friðlýsingar og friðlýsingarskilmála.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd felur formanni nefndarinnar, í samráði við verkefnastjóra umhverfismála, að afla frekari upplýsinga um afstöðu landeigenda, ábúenda og annarra hagsmunaaðila til mögulegrar friðlýsingar Grímstorfu í Hafrafelli, Þingmúla/Múlakolls í Skriðdal og Stuðlagils, Stuðlafoss og Eyvindarárgils á Jökuldal. Jafnframt að afla frekari gagna um verndargildi viðkomandi svæða.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu

Náttúruverndarnefnd - 13. fundur - 24.06.2019

Fyrir fundinum liggur erindi þar sem óskað er eftir tilnefningu sveitarfélagsins á fulltrúa í starfshóp um friðlýsingu Hrafnabjarga, Unaóss og Heyskála.

Náttúruverndarnefnd tilnefnir Stefán Boga Sveinsson sem fulltrúa Fljótsdalshéraðs í starfshópinn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Náttúruverndarnefnd - 14. fundur - 13.08.2019

Til kynningar eru áform Umhverfisstofnunar, landeigenda jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss og Fljótsdalshéraðs um friðlýsingu fyrrgreindra jarða.

Lagt fram til kynningar.

Náttúruverndarnefnd - 15. fundur - 07.10.2019

Aðalsteinn Jónsson og Ruth Magnúsdóttir viku sæti undir afgreiðslu þessa liðar. Ragnhildur Rós Indriðadóttir tók sæti Ruthar.
Á 12. fundi náttúruverndarnefndar þann 25. febrúar 2019 var m.a. bókað: "Náttúruverndarnefnd óskar eftir því að af hálfu friðlýsingateymis Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verði aflað frekari gagna varðandi þau svæði í sveitarfélaginu sem eru á náttúruverndaráætlun svo unnt sé að móta skýrari afstöðu sveitarfélagsins til friðlýsingar þeirra í einhverri mynd."
Fyrir fundinum liggur afstaða Náttúrustofu Austurlands til verndargildis þriggja svæða þ.e. Grímstorfu í Hafrafelli, Múlakolls í Skriðdal og Stuðlagils, Stuðlafoss og Eyvindarárgils á Jökuldal.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Náttúruverndarnefnd þakkar Náttúrustofu Austurlands fyrir greinargott yfirlit. Með vísan til þess sem þar kemur fram samþykkir nefndin að vinna áfram að því að kanna möguleika á friðlýsingu þeirra svæða sem tilgreind eru. Nefndin samþykkir að fela formanni og starfsmanni nefndarinnar að boða landeiganda Grímstorfu í Hafrafelli til fundar til að ræða afstöðu til mögulegrar friðlýsingar hennar. Varðandi Þingmúla/Múlakoll verði áfram unnið í samræmi við bókun náttúruverndarnefndar frá 25. febrúar 2019. Varðandi Stuðlafoss, Stuðlagil og Eyvindarárgil verði áfram unnið í samræmi við bókun bæjarstjórnar frá 21. ágúst 2019.

Samþykkt samhljóða með tveimur atkvæðum (SBS og RRI).

Náttúruverndarnefnd - 16. fundur - 20.01.2020

Málinu frestað til næsta fundar.