Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Málsnúmer 201812006

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs - 74. fundur - 05.12.2018

Kristbjörg Mekkín Helgadóttir, sem er einnig fulltrúi í ungmennaráði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, bar upp erindið. Kristbjörg ræddi hvort og hvernig Fljótsdalshérað væri að vinna að Heimsmarkmiðunum. Fundarmenn sammála um mikilvægi þess að vinna markvisst með markmiðin.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 450. fundur - 10.12.2018

Bæjarráð samþykkir að óska eftir því við ungmennaráð að það geri tillögu um hvernig sveitarfélagið geti staðið að kynningu heimsmarkmiða S.Þ. fyrir íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins. Jafnframt komi ungmennaráð með ábendingar um hvernig samþætta megi markmiðin og stefnumótun sveitarfélagsins almennt.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs - 76. fundur - 24.01.2019

Fyrir liggur bókun bæjarráðs þar sem samþykkt er að óska eftir því við ungmennaráð að það geri tillögu um hvernig sveitarfélagið geti staðið að kynningu heimsmarkmiða S.Þ. fyrir íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins. Jafnframt komi ungmennaráð með ábendingar um hvernig samþætta megi markmiðin og stefnumótun sveitarfélagsins almennt.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs leggur til að stofnaður verði starfshópur um gerð umhverfisstefnu sveitarfélagsins, enda ótækt að víðfeðmasta sveitarfélag landsins skuli ekki vinna eftir markvissri umhverfisstefnu. Verði Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi við þá vinnu. Starfshópurinn kæmi þá einnig að kynningu Heimsmarkmiðanna í gegnum stefnuna og áætlun um hvernig hægt væri að framfylgja þeim.

Ungmennaráð óskar eftir virkri þátttöku í slíkum starfshópi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 109. fundur - 27.03.2019

Að tillögu ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs samþykkir bæjarstjórn að stofnaður verði starfshópur um endurskoðun á núgildandi umhverfisstefnu sveitarfélagsins og að Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna verði höfð að leiðarljósi við þá vinnu. Einnig verði horft til Heimsmarkmiðanna við endurskoðun aðalskipulags Fljótsdalshéraðs. Þess verði gætt að ungmennaráð eigi virka þátttöku í slíkum starfshópi.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarráð að starfshópur um endurskoðun umhverfisstefnu sveitarfélagsins verði skipaður einum fulltrúa frá hverju framboði, einnig verði fulltrúi úr ungmennaráði og verkefnastjóri umhverfismála í starfshópnum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 465. fundur - 01.04.2019

Með vísan í bókun umhverfis- og framkvæmdanefndar frá síðasta fundi hennar, beinir bæjarráð því til bæjarstjórnar að hún tilnefni fjóra fulltrúa, einn frá hverju framboði, á næsta fundi sínum í starfshóp um endurskoðun umhverfisstefnu Fljótsdalshéraðs. Einnig skipi ungmennaráð allt að þrjá fulltrúa í hópinn og verkefnisstjóri umhverfismála starfi með hópnum.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs - 79. fundur - 08.04.2019

Fyrir liggur að tilnefna 1-3 fulltrúa ungmennaráðs í starfshóp um umhverfisstefnu Fljótsdalshéraðs.

Ungmennaráð tilnefnir Einar Frey Guðmundsson, Kristbjörgu Mekkín Helgadóttur og Rafael Rökkva Freysson í starfshópinn. Varamenn verði Almar Aðalsteinsson, Erla Jónsdóttir og Guðrún Lára Einarsdóttir.

Eins minnir ungmennaráð á að vinna við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er ekki eingöngu tengd umhverfisstefnum eða umhverfismálum, heldur ættu þau að umvefja alla þá vinnu sem fer fram í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.