Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs

79. fundur 08. apríl 2019 kl. 16:30 - 17:10 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Kristbjörg Mekkín Helgadóttir varaformaður
  • Almar Aðalsteinsson aðalmaður
  • Erla Jónsdóttir formaður
  • Aron Steinn Halldórsson aðalmaður
  • Guðrún Lára Einarsdóttir aðalmaður
  • Einar Freyr Guðmundsson aðalmaður
  • Rafael Rökkvi Freysson aðalmaður
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir starfsmaður
Fundargerð ritaði: Bylgja Borgþórsdóttir verkefnastjóri íþrótta- tómstunda- og forvarnarmála

1.Ungmennaþing 2019

Málsnúmer 201808169

Þingsályktun ungmennaþings Fljótsdalshéraðs 2019:

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs hélt sitt árlega ungmennaþing 4. apríl 2019 í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Var yfirskrift þingsins í ár „Ég vil móta mína eigin framtíð“ og sóttu það ríflega 100 ungmenni.

Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir, sem er bæði fyrrum ungmennaráðsmeðlimur og nemi í ME, stýrði þinginu og sá til þess að allt færi skynsamlega fram og héldist á réttum tíma. Sigurbjörg minnti gesti þingsins á það hversu miklu máli ein rödd, og rödd ungmenna, getur skipt og hvatti til þess að nýta tækifærin sem gæfust til að láta sína rödd heyrast og eins að búa þau tækifæri til sjálf.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, ávarpaði þingið og ræddi mikilvægi þess að ungmenni hefðu aðkomu að stjórnsýslunni og skipulagi sveitarfélaga.

Páll Líndal, umhverfissálfræðingur, hélt magnað erindi um það hvernig aðalskipulag, sálfræði og heimsmarkmiðin haldast í hendur og kom auk þess inn á það hvernig nauðsynlegt er að horfa á aðalskipulag sem drauma framtíðarsýn sveitarfélagsins.

Það voru svo meðlimir ungmennaráðs sem sáu um að stýra vinnu þinggesta undir styrkri leiðsögn Tinnu Halldórsdóttur, sérfræðings hjá Austurbrú.

Til viðbótar við öfluga vinnu gesta ungmennaþings hafði ungmennaráð Fljótsdalshéraðs búið til spurningakönnun til að kanna viðhorf til ýmissa atriða sem tengjast sveitarfélaginu. Úr könnuninni fengust 109 svör og er áhugavert að rýna í niðurstöður hennar. 75% ungmenna sem svöruðu könnuninni eru mjög ánægð eða ánægð með að búa á Fljótsdalshéraði í dag en þó sér einungis um fjórðungur fram á að búa hér í framtíðinni og þriðjungur þinggesta er ekki búin að ákveða sig. Ungmennaráð fagnar þeirri niðurstöðu að langstærstur hluti ungmenna virðist sátt við að búa í sveitarfélaginu en sú staðreynd að enn eru svo mörg óviss um framtíðarbúsetu sýnir fram á nauðsyn þess að veita ungmennum og ungu fólki tækifæri til þess að móta sína eigin framtíð.

Rúmlega helmingur svarenda notar strætó sjaldnar en einu sinni í mánuði, en mikill meirihluti vill þó nýta sér vistvænan samgöngumáta, þ.e. ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur. 85% vilja til dæmis að vistvænn ferðamáti hafi forgang á undan einkabílnum. Þessar niðurstöður samræmast því sem fram kom í vinnu þingsins, en meðal aðgerða sem ungmenni vilja að ráðist sé í er betri snjómokstur á göngustígum, betra aðgengi að gangstígum og lýsingu á þeim.

Þriðjungi svarenda finnast grænu svæði Fljótsdalshéraðs aðlaðandi og 85% þeirra finnst mjög mikilvægt að þau séu aðgengileg fyrir alla. Í vinnu sýndu þinggestir áhuga á að vinna að uppbyggingu þessara svæða og gera þau aðgengilegri og meira aðlaðandi. Mikið var rætt um bætta aðstöðu til íþróttaiðkunar eins og körfubolta, fótbolta og hjólreiða. Sorphirðumál voru mikið til umræðu, hvort sem það voru flokkunarmál eða mikilvægi þess að geta losað sig við rusl í ruslatunnur á gangi um bæinn. Ýmsar hugmyndir um aukna afþreyingu komu fram í vinnuhópunum og helst var lögð áhersla á bíóhús og aukna listviðburði. Ungmennaráð skorar á einstaklinga að skoða þá möguleika sem eru í boði til að koma svoleiðis starfsemi á fót.

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs hefur úr miklu að moða eftir þingið og mun halda áfram úrvinnslu þeirra gagna sem öfluðust.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Mótmæli fyrir umhverfið

Málsnúmer 201904032

Nemendafélag Menntaskólans á Egilsstöðum stendur fyrir loftslagsverkfalli við skólann miðvikudaginn 10. apríl 2019 kl.12:00.

Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Nú þegar hafa tugþúsundir ungmenna farið að hennar fordæmi og flykkst út á götur til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar, m.a. annars staðar á Íslandi, í Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Svíþjóð.

Ungmennaráð hrósar NME fyrir frábært framtak og hvetur ungmenni, ráðamenn og aðra íbúa til að fjölmenna á verkfallið.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Málsnúmer 201812006

Fyrir liggur að tilnefna 1-3 fulltrúa ungmennaráðs í starfshóp um umhverfisstefnu Fljótsdalshéraðs.

Ungmennaráð tilnefnir Einar Frey Guðmundsson, Kristbjörgu Mekkín Helgadóttur og Rafael Rökkva Freysson í starfshópinn. Varamenn verði Almar Aðalsteinsson, Erla Jónsdóttir og Guðrún Lára Einarsdóttir.

Eins minnir ungmennaráð á að vinna við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er ekki eingöngu tengd umhverfisstefnum eða umhverfismálum, heldur ættu þau að umvefja alla þá vinnu sem fer fram í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 17:10.