Ylströnd við Urriðavatn

Málsnúmer 201605132

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 342. fundur - 23.05.2016

Lagt fram erindi frá forsvarsmönnum Ylstrandarinnar, þar sem óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins að fjármögnun verkefnisins.

Bæjarráð óskar eftir því að fulltrúar Ylstrandarinnar mæti á næsta fund bæjarráðs, til að fara yfir stöðu málsins.
Bæjarstjóra og fjármálastjóra falið að taka saman upplýsingar um mögulega aðkomu sveitarfélagsins, eða stofnana þess.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 343. fundur - 30.05.2016

Til fundar mættu Hilmar Gunnlaugsson og Ívar Ingimarsson fh. Ylstrandarinnar, til að fylgja úr hlaði beiðni þeirra um aðkomu sveitarfélagsins, eða undirfyrirtækja þess að uppbyggingu við Urriðavatn.
Málið er í vinnslu og stefnt á afgreiðslu þess á næsta bæjarráðsfundi.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 345. fundur - 13.06.2016

Eftirfarandi tillaga löð fram:
Bæjarráð vísar aðkomu að verkefninu til stjórnar Hitaveitunnar og leggst ekki gegn því að að stjórn HEF taki ákvörðun um framlag til verkefnisins.
Bæjarráð telur þó að forsenda fyrir aðkomu HEF sé sú að full fjármögnun verkefnisins náist áður en mögulegt framlag verði innt af hendi.

Samþykkt samhljóða.

Anna Alexandersdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi D-listans telur þetta verkefni, gerð ylstrandar við Urriðavatn, mjög spennandi og
þeir sem að því standa sýna metnað og áræðni.
Sveitarfélagið á að skapa vettvang fyrir
atvinnustarfsemi en ekki að setja beina fjármuni í einstaka verkefni/fyrirtæki og á ekki að taka þátt í
áhættufjárfestingum.

Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun.
Fulltrúi B-lista telur að sveitarfélagið ætti, auk þeirrar tillögu sem samþykkt er hér að framan, að leita leiða til að fjárfesta í verkefninu í gegnum Atvinnumálasjóð Fljótsdalshérað, með sömu fyrirvörum. Ljóst er að ef af verkefninu verður mun sveitarfélagið njóta af því beinna tekna og því réttlætanlegt að leggja fram fjármagn til þess.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 240. fundur - 15.06.2016

Eftirfarandi tillaga löð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og vísar aðkomu að verkefninu til stjórnar Hitaveitunnar og leggst ekki gegn því að að stjórn HEF taki ákvörðun um framlag til verkefnisins.
Bæjarstjórn telur þó að forsenda fyrir aðkomu HEF sé sú að full fjármögnun verkefnisins náist áður en mögulegt framlag verði innt af hendi.

Samþykkt með 8 atkv. en 1 sat hjá (GSK)


Anna Alexandersdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar D-listans leggja fram eftirfarandi bókun.
Verkefnið, Ylströnd við Urriðavatn, er mjög spennandi verkefni og þeir sem að því standa sýna metnað og áræðni. Sveitarfélagið á að skapa vettvang fyrir nýja atvinnustarfsemi en ekki leggja til beina fjármuni í einstök verkefni. Ef sveitarfélagið vill hafa beina aðkomu að verkefninu, Ylströnd við Urriðavatn, þá er það okkar skoðun, að leiðin til þess sé með afhendingu á heitu vatni til nokkurra ára sem metið yrði til hlutafjáreignar í félaginu. Með því að vísa ákvörðun í málinu til stjórnar HEF verður
afgreiðsla málsins án beinnar aðkomu bæjarstjórnar, sem þó ber ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins. Fulltrúar D listans treysta því að stjórn HEF taki til greina þær athugasemdir sem fulltrúar listans hafa komið á framfæri, á fundi bæjarráðs og í bæjarstjórn. Sveitarfélagið stendur frammi fyrir óvissutímum í rekstri sínum s.s. óvissu um þróun verðlags og lausir kjarasamningar kennara. Því er mikilvægt að sveitarfélagið sýni aðhald í rekstri og taki ekki beinan þátt í áhættufjárfestingum.


Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar B-lista telja að sveitarfélagið ætti, auk þeirrar tillögu sem samþykkt er hér að framan, að halda áfram viðræðum við forsvarsmenn verkefnisins með það í huga að fjárfesta mögulega í því í gegnum Atvinnumálasjóð Fljótsdalshérað. Ljóst er að ef af verkefninu verður mun sveitarfélagið njóta af því beinna tekna og því réttlætanlegt að leggja fram fjármagn til þess.