Samþykkt um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201406080

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 199. fundur - 24.06.2014

Lagðar fram til fyrri umræðu samþykktir um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs. Um er að ræða breytingu á 28. gr. er varðar fundartíma bæjarráðs, breytingu á 47. gr. er varðar nefndaskipan sveitarfélagsins og breytingar á fylgiskjali 1 er varðar kosningar bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í embætti, nefndir, ráð og stjórnir. Forseti fylgdi breytingum úr hlaði.

Til máls tóku: Stefán Bogi Sveinsson, Gunnar Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson, Anna Alexanderdóttir og Páll Sigvaldason.

Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun:

Framsókn vill vekja athygli á því að núverandi skipan félagsmálanefndar sveitarfélagsins sé hugsanlega ekki í samræmi við fyrirmæli 93. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og þarfnist því nauðsynlega endurskoðunar.

Þó að samstarf um félagsþjónustu milli þeirra sex sveitarfélaga sem um ræðir hafi verið farsælt teljum við að það fyrirkomulag að fulltrúar annarra sveitarfélaga eigi sæti í einni af fastanefndum Fljótsdalshéraðs sé ekki heppilegt. Af því getur bæði hlotist óhagræði og í sumum tilfellum getur það einnig verið beinlínis óheppilegt.

Við viljum þó ítreka að í þessari afstöðu felst ekki af okkar hálfu nokkur áfellisdómur yfir störfum neinna þeirra fulltrúa sem setið hafa í félagsmálanefnd, sem allir hafa unnið af mikilli trúmennsku og skilað góðu verki fyrir hönd sinna sveitarfélaga og okkar allra.

Í framhaldi af bókuninni lagði Stefán Bogi Sveinsson fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að óska eftir viðræðum um breytingar á samningi um félagsþjónustu sem veitt er öðrum sveitarfélögum, með það fyrir augum að fyrirkomulag þjónustunnar verði að fullu í samræmi við fyrirmæli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Stefán Bogi Sveinsson lagði jafnframt fram eftirfarandi bókun:

Að afloknum kosningum áttu sér stað viðræður milli fulltrúa allra flokka um breytingar á nefndaskipan. Tillögur þær sem hér liggja fyrir eru afrakstur þeirra viðræðna, að því frátöldu fulltrúar meirihlutans leggja nú til stofnun sérstakrar íþrótta- og tómstundanefndar sem taki yfir hluta þeirra verkefna sem áður heyrðu undir menningar- og íþróttanefnd og örlítinn hluta verkefna frá fræðslunefnd. Tillaga þessi var unnin án samráðs við fulltrúa Framsóknar.

Í huga bæjarfulltrúa Framsóknar er tilgangurinn með sameiningu nefnda fyrst og fremst að efla nefndirnar, láta þær funda örar til að tryggja aukna aðkomu kjörinna fulltrúa að ákvarðanatöku og auka skilvirkni í stjórnsýslunni með því að minnka skörun milli verksviða nefnda. Að auki má almennt reikna með nokkurri fjárhagslegri hagræðingu af sameiningum nefnda.

Þó að íþrótta- og tómstundamál séu mikilvægur málaflokkur má segja það sama um marga aðra málaflokka sem unnið er að innan nefndanna. B-listinn telur að stofnun sérstakrar íþrótta- og tómstundanefndar sé ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem að framan greinir og í litlu samræmi við aðrar þær breytingar sem verið er að gera á nefndaskipan sveitarfélagsins. Þá teljum við að þeim fjármunum sem um ræðir yrði betur varið til annars, en reikna má með að kostnaður við nýja nefnd nemi á bilinu 3,4 til 4,2 milljónum króna á kjörtímabilinu.

Framlögð tillaga Stefáns Boga Sveinssonar borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum. Tveir sátu hjá (RRI, SB)

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Samþykkt um um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 200. fundur - 01.07.2014

Lagðar fram til seinni umræðu samþykkt um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs ásamt samþykktum nefnda.

Til máls tóku undir þessum lið í þessari röð. Stefán Bogi Sveinsson, sem lagði fram breytingartillögu. Einnig kynnti hann og lagði fram bókun frá B-listanum. Gunnar Jónsson, Páll Sigvaldason, sem bar fram fyrirspurn. Stefán Bogi Sveinsson, Anna Alexandersdóttir og Gunnhildur Ingvarsdóttir.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Breytingatillaga B-lista við samþykkt um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs:
Bæjarstjórn samþykkir að 6. tl. 47. gr. samþykktarinnar verði felldur brott og númerum annarra töluliða breytt til samræmis við það. Einnig falli á brott sá hluti Fylgiskjals I sem er undir yfirskriftinni Íþrótta- og tómstundanefnd í kaflanum um fastanefndir.

Tillagan borin upp og felld með 6 atkv.meirihluta en 3 fulltrúar minnihluta greiddu henni atkvæði.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalhéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs og felur bæjarstjóra að senda samþykktina innanríkisráðuneytinu til staðfestingar.

Samþykkt með handauppréttingu með 6 atkv. meirihluta en 3 fulltrúar minnihluta sátu hjá.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt fyrir fræðslunefnd og felur bæjarstjóra að sjá til þess að samþykktin verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt fyrir atvinnu- og menningarnefnd og felur bæjarstjóra að sjá til þess að samþykktin verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt með handauppréttingu með 6 atk. meirihluta en 3 fulltrúar minnihluta sátu hjá.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt fyrir umhverfis- og framkvæmdanefnd og felur bæjarstjóra að sjá til þess að samþykktin verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt fyrir íþrótta- og tómstundanefnd og felur bæjarstjóra að sjá til þess að samþykktin verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt með handauppréttingu með 6 atkv. meirihluta en 3 fulltrúar minnihluta greiddu atkv. á móti.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt fyrir jafnréttisnefnd og felur bæjarstjóra að sjá til þess að samþykktin verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir fyrirliggjandi samþykkt fyrir náttúruverndarnefnd og felur bæjarstjóra að sjá til þess að samþykktin verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Bókun B-lista vegna nýrrar samþykktar um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs:

Bæjarfulltrúar Framsóknar vísa til fyrri bókunar sinnar á fundi bæjarstjórnar 24. júní og leggjast sem fyrr gegn því að stofnuð verði sérstök íþrótta- og tómstundanefnd í sveitarfélaginu. Við teljum að stofnun nefndarinnar sé í ósamræmi við það sem við töldum megintilgang þeirra nefndabreytinga sem öll framboð komu sér saman um að ráðast í. Það var að auka skilvirkni í nefndastarfi og stjórnsýslu, samræma viðfangsefni nefnda og koma eins og kostur er í veg fyrir skörun á milli þeirra og að síðustu að ná fram fjárhagslegri hagræðingu. Með stofnun íþrótta- og tómstundanefndar liggur fyrir að atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa er eins og fyrr ætlað að starfa með tveimur nefndum og er verkaskipting þeirra á milli að okkar mati óljós. Ætla má að kostnaður við nefndina verði um ein milljón króna á ári. Þá vekur það athygli að í tillögu meirihlutans er ekki gert ráð fyrir að bæjarfulltrúi sitji í nefndinni, eins og gilt hefur um aðrar fastanefndir.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 206. fundur - 05.11.2014

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir framlagðar samþykktir fyrir náttúruverndarnefnd og atvinnu- og menningarnefnd með þeim orðalagsbreytingum sem gerðar hafa verið frá samþykkt þeirra í bæjarstjórn 1. júlí sl.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 370. fundur - 23.01.2017

Farið yfir mögulegar breytingar á samþykktunum, sem lúta aðallega að fjölda funda nefnda og störfum þeirra almennt.
Málið áfram í vinnslu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 372. fundur - 06.02.2017

Bæjarstjóri kynnti hugmynd að breytingu á 7. grein í samþykktum umhverfis- og framkvæmdanefndar og
9. grein í samþykktum fyrir fræðslunefnd.
Þar er gert ráð fyrir að standi: Nefndin fundi að jafnaði einu sinni til tvisvar í mánuði, í stað þess að nú er gert ráð fyrir tveimur fundum í mánuði.

Bæjarráð samþykkir að tillaga að breyttum samþykktum verði lögð fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu.