2. fundur vinnuhóps um þjónustusamfélagið

Málsnúmer 201312042

Þjónustusamfélgið vinnuhópur - 2. fundur - 10.12.2013

Í upphafi var farið yfir fundargerð síðasta fundar sem var þannig:

"Fulltrúar skipulags- og mannvirkjanefndar og umhverfis- og héraðsnefndar í verkefninu Þjónustusamfélagið Fljótsdalshérað leggja áherslu á að í viðhalds- og fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins fyrir 2014 verði fjármunir nýttir til verkefna sem fram koma í drögum að aðgerðaáætlun til eflingar á ferðaþjónustu og verslun á Héraði. Starfshópurinn leggur til að farið verði fyrst í eftirfarandi verkefni á árinu 2014:
- Hönnun aðkomuleiða og opinna svæða í og við þéttbýlið
- Í framhaldinu verði leitað samstarfs við íbúa um framkvæmd verkefna
- Gerð þjónustuskiltis
- Útskot og upplýsingaskilti við aðkomuleiðir í samstarfi við Vegagerðina"

Gerð var grein fyrir því að í framhaldi af síðasta fundi vinnuhópsins gerði bæjarráð eftirfarandi bókun:
"Bæjarráð fór yfir fyrirliggjandi sundurliðun. Að því búnu var samþykkt að kalla eftir endanlegri afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar á áætluninni. Tekið verði tillit til þeirra áherslna sem fram komu í starfshópi um þjónustusamfélagið."

---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að skipulags- og byggingafulltrúi, framkvæmda- og þjónustufulltrúi og atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi geri tillögu að því með hvaða hætti heppilegast er að láta hanna aðkomuleiðir að þéttbýlinu, t.d. hvort það gæti verið nemendaverkefni og eða hvaða fagaðilar væru ákjósanlegir í verkefnið. Hluti af þessi verkefni væri jafnframt að gera tillögur að leiðum sem styrkja ásýnd og yfirbragð miðbæjarins. Vinna við verkefnið hefjist fyrrihluta árs 2014. Vísað er til hliðsjónar til neðangreindra tillagna í aðgerðaáætlun um þjónustusamfélagið:

Myndaður verði starfshópur á vegum skipulags- og mannvirkjanefndar og umhverfis- og héraðsnefndar sem ásamt þar til bærum fagaðila (arkitekt, hönnuði, skipulagsfræðingi sem ráðinn verði til verksins) verði falið að gera tillögur um umhverfið meðfram aðkomuleiðunum næst þéttbýlinu Egilsstöðum og Fellabæ. Þær breytingar á umhverfinu sem tillögurnar ganga út frá þurfa með einhverjum hætti að ýta undir þá ímynd af sveitarfélaginu sem samstaða er um og kalla fram hugrenningar um að viðkomandi sé á leiðinni á spennandi og huggulegan stað þar sem áhugavert gæti verið að staldra við. Aðgerðirnar gætu t.d. falist í gróðursetningu trjáa, t.d. bogadregin trjágöng (í samræmi við áherslur á Orminn annars staðar í þessari áætlun), annars konar gróðri, lagfæringu vegkanta, hlöðnum veggjum, tiltekt á lóðum osfr.

Gerð verði útskot við vegina sem liggja að Egilsstöðum og Fellabæ, t.d. á þessum stöðum:
Við Fagradalsbraut hjá Bílamálun (ATH kannski enn ofar, áður en komið er í þéttbýlið?)
Við þjóðveg 1 til móts við Vegagerðina í Fellabæ
Við þjóðveg 1, við kirkjugarðinn (á milli Dagsverks og Landflutninga)
Öll útskotin verði verði útbúin með líkum hætti:
Plan þar sem 2-4 bílar geta stöðvað
Við útskotið verði stórt kort í lerkiramma sem m.a. sýni staðsetningu helstu þjónustu, áfangastaði og leiðir á myndrænan hátt.
Planið og umhverfi þess verði snyrtilegt, t.d. með trjágróðri og blómkörfum, borði, bekk og ruslatunnu.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að málið verði tekið upp á fundi sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar í janúar 2014.

Lagt er til að fagaðili verði sem fyrst fenginn til að gera tillögu að því með hvaða hætti megi bæta og styrkja ásýnd og yfirbragð miðbæjarins miðað við skipulag og fyrirkomulag mannvirkja eins og það er í dag. Áhersla verði m.a. lögð á trjárgróður sem annan gróður, skjólmyndun, miðbæjartorg og útivistarstaði, skipulag og merkingar bílastæða s.s. söfnunarbílastæði???????.., leiðir til að hægja á umferð um Fagradalsbrautina eða gera umferð gangandi fólks á miðbæjarsvæðinu þægilegri og öruggari. Samstarf verði haft við eigendur lóða á svæðinu og þjónustuaðila enda um hagsmunamál allra að ræða. Spurning um að útfæra þetta betur af starfshópnum áður en fagaðili verður fenginn í verkefnið. Sumt af þessu á heima í fyrirhugaðri deiliskipulagsvinnu!!!!!


Síðan var farið yfir aðrar tillögur í aðgerðaráætlun um þjónustusamfélagið með eftirfarandi hætti:

Koma þarf fyrir upplýsingaskiltum á útskot við vegina rétt áður en komið er að Egilsstöðum og Fellabæ (sjá einnig undir Aðkomuleiðirnar að Egilsstöðum og Fellabæ). Skiltin sýni staðsetningu helstu þjónustu, áfangastaði og leiðir á Héraði á myndrænan hátt. Gerð upplýsingaskiltanna verði samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Vegagerðar og hagsmunaaðila.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að til að málið verði tekið upp á fundi sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar í janúar 2014. Í framhaldinu verði atvinnumálafulltrúa falið að vinna málið áfram.

Fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu verði með markvissum hætti hvattar samstarfs um að fegra lóðir sínar og halda þeim snyrtilegum. Haldinn verði sérstakur fyrirtækjadagur þar sem aðilar eru hvattir til að vera komin með lóðir og frágang í gott horf fyrir ákveðinn tíma. Þetta mætti t.d. gera í samstarfi við félaga hagsmunaaðila. Þá verði veittar viðurkenningar til þeirra fyrirtækja sem best þykja standa sig á þessu sviði.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að sveitarfélagið komi að þessu verkefni og að myndaður verði vinnuhópur sem útfæri verkefnið í samstarfi við hagsmunaaðila. Verkefnið verði tekið til umræðu og afgreiðslu í umhverfis- og héraðsnefnd.

Lagt er til að stuðlað verði að því, t.d. í samstarfi við Vinnuskólann, að lifandi leiklistarstarfsemi fari fram utandyra á sumrin a.m.k. þá daga sem Norræna kemur til landsins. Markmiðið með starfseminni er að skapa líf og fjör, fanga athygli og hægja á för farþeganna út úr sveitarfélaginu. Ráðinn verði verkstjóri á vegum Vinnuskólans til að hafa umsjón með þessu verkefni.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs tekur undir þessa tillögu og leggur til að Vinnuskólinn komi að verkefninu.

Lagt er til að útbúin verði smekkleg aðstaða t.d. á torginu við Nettó fyrir útimarkað. Aðstaðan gæti verið litrík tjöld eða með öðrum hætti sem hentar og er færanleg. Með þessu er aðilum gefið tækifæri til að selja varning sinn en um leið er ýtt undir líflega og áberandi starfsemi í miðbænum og aukið við þá flóru sem gestir svæðisins geta dvalið við.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að þessi tillaga verði útfærð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun deiliskipulags fyrir miðbæinn.

Lagt er til að fundnar verði leiðir til að koma upp almenningssalernum í miðbænum. Þetta mætti t.d. gera í samstarfi við þjónustuaðila eða með sérstökum færanlegum útisalernum.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að þessi tillaga verði útfærð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun deiliskipulags fyrir miðbæinn.

Farið verði yfir staðsetningar íláta fyrir rusl á svæðinu og þeim fjölgað þannig að ætíð sé eitthvert ílát í sjónmáli.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að starfmaður umhverfissviðs taki út fjölda og staðsetningu stauratunna á svæðinu og geri tillögur um málið. Jafnframt verði hagsmunaaðilar hvattir til að huga að aðgengi ruslatunna hjá sér.

Fagradalsbrautin er umferðarmikil gata oft á tíðum, jafnvel þannig að gangandi fólki stafar hætta af. Hraðinn og sá fjöldi aðreina sem liggur að Fagradalsbrautinni á stuttu svæði getur einnig skapað vissa óreiðu í umferðarmálum þannig að hún er hvorki árennileg gangandi eða akandi. Fagradalsbrautin klýfur þannig athafnasvæðið sem miðbærinn er og dregur úr því eðlilega flæði fólks, ekki síst gangandi, sem æskilegt er og auðvelt ætti að vera að koma við í litlum miðbæ. Mikilvægt er að bregðast við þessu, bæði með hugsanlegum skammtímaaðgerðum (sjá neðar) og með lengri tíma sjónarmið í huga s.s. í deiliskipulagi. Margar hugmyndir hafa komið fram, s.s. að helluleggja Fagradalsbrautina frá Kaupvangi niður að krossgötunum og skpa þannig hrjúft yfirborð, setja upp hraðahindranir, setja eyjar á miðja brautina, setja upp gangbrautarljós osfr.
Þá hafa komið fram hugmyndir um að loka akstursleiðinni fyrir framan eða vestan megin við Símstöðina. Til að komast að Nettó væri þá ekið inn af Kaupvangi og hugsanlega þyrfti að opna akstursleið niður á N1 planið. Athuga ber þó að samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir göngugötu þar sem nú er vegur við Símstöðina. Einnig hefur verið velt upp þeim möguleika hvort hægt sé eða æskilegt að hafa einstefnu af Fagradalsbrautinni inn á N1 planið. Sem liður í að tengja betur saman verslunar og þjónstusvæðið sitt hvoru megin Fagradalsbrautar og skapa heildstæðara svæði mætti leggja breiða gangbraut framan við gömlu símstöðina og Nettó og ná þannig betur til þeirrar þjónustu sem er syðst í því húsi.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að þessi tillaga verði útfærð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun deiliskipulags fyrir miðbæinn.

Taka þarf til skoðunar málefni bílastæða á miðbæjarsvæðinu en þar sem umferð t.d. ferðafólks vex stöðugt má búast við enn frekari vandamálum á annatímum en þegar er. Verkefnið snýst m.a. um að skipuleggja bílastæði betur, merkja þau og hafa vegvísa sem sýna hvar bílastæði eru. Einnig þarf að huga að bílastæðum þar sem má leggja bílum með húsvagna í afturdragi, en þeir taka mikið pláss og oft á tíðum mikið um þá á sumrin og stoppiplön fyrir flutningabíla á praktískum stað. Ekki er sjálfgefið að hægt sé að leggja slíkum plássfrekum umferðartækjum við hvern þjónustustað. Yfir mesta annatímann á sumrin íhugi starfsfólk þjónustustaða á svæðinu að leggja bílum sínum ekki í miðbænum. Mikilvægt er að þjónustuaðilar ræði sjálfir þessi mál sín á milli.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að þessi tillaga verði útfærð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun deiliskipulags fyrir miðbæinn.

---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur jafnframt til að hagsmunaaðilar á svæðinu ræði með hvaða hætti þeir sjálfir geti stuðlað að betri nýtingu bílastæða.

Mikið lýti er af snjófjöllum sem verða til þegar götur og bílastæði eru rudd á miðbæjarsvæðinu. Þau hefta aðgengi, byrgja útsýni og hætta er á skemmdum vegna snjólosunar á svæðum sem verið er að byggja upp til útveru og afþreyingar. Fyrir verslun og þjónustu í miðbæ Egilsstaða skipta þessir þættir máli. Því er lagt til að fundnar verði leiðir sem koma sem mest í veg fyrir að snjó sé safnað á þessum viðkvæmu og áberandi stöðum t.d. með því að aka honum burt af svæðinu.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að á vegum skipulags- og umhverfissviðs verði endurskoðað skipulag snjólosunar í miðbænum þannig að ekki myndist sambærileg "snjófjöll" og veturinn 2012-2013.

---Niðurstaða fundar: Starfshópur um Fljótsdalshéraðs leggur jafnframt til að við endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins verði hugað að þessum málum.

Í miðbæjum má oft finna rými eða torg sem gefur íbúunum tækifæri til að safnast saman á tyllidögum, þegar hátíðir fara fram osfr. Sums staðar má þar einnig finna athafnasemi sem blómstrar á sumrin og laðar að fólk á góðviðrisdögum, s.s. markaði, skemmtikrafta osfr. Hér þarf ekki alltaf að vera um stór svæði að ræða, heldur frekar að þau gefi tilefni til að dvelja þar, þar sé eitthvað fyrir augað, svæðið sé notalegt, skjólsælt, þokkafullt á einhvern hátt og þar megi koma fyrir hreyfanlegri starfsemi og þar sé aðgangur að salernum. Á Egilsstöðum hefur stundum verið horft til svæðisins við gömlu símstöðina, milli Fagradalsbrautar og Nettó. Þar mætti afmarka svæðið til norðurs og austurs með trjárgróðri og mynda þannig skjólríkan reit. Í dag er það svæði varla til sóma. Einnig hafa komið fram hugmyndir um "sumartorg" með því að loka helmingi bílastæða við við Miðvang 2, framan við Birtu, TM, VÍS, Valný og Salt. Svæðið væri þannig á sumrin afmarkað með blómakerjum ofl. sem væri svo fjarlægt á haustin.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að þessi tillaga verði útfærð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun deiliskipulags fyrir miðbæinn.

Skilti Vegagerðarinnar á planinu við N1 eru illa staðsett, enda bílastæði beint fyrir framan þau, sem bæði skyggja og þrengja að þeim. Þessi skilti þyrfti að færa á betri stað t.d. nálægt upplýsingamiðstöð.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að fundin verði heppilegri staðsetning fyrir skiltin eða núverandi aðstæður verði lagfærðar þannig að aðgengi- og sýnileiki verði betri. Lagt er til að starfsmanni á skipulags- og umhverfissviði verði falið að vinna í málinu í samstarfi við Vegagerðina og lóðarhafa.

Auka þarf merkingar bæði fyrir akandi og gangandi með vegvísum sem benda á leiðir að áhugaverðum stöðum á Héraði, s.s. sundlaugum, söfnum, kirkjum og náttúruperlum. Gjarnan með vegalengd. Sem dæmi vekur athygli að við fjölförnustu gatnamót Austurlands er ekkert sem gefur til kynna hvernig hægt er að komast að stærsta þjóðgarði Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarði. Í þettbýlinu á Egilsstöðum og Fellabæ þarf einnig að gera ókunnugum eins og ferðafólki auðveldara að rata og nálgast þannig ýmsa þjónustu, með vegvísum / þjónustuskiltum.
---Niðurstaða fundar: Starfshópur Fljótsdalshéraðs leggur til að skipulags- og byggingafulltrúi, framkvæmda- og þjónustufulltrúi og atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi geri tillögur að merkingum og staðsetningu þeirra og leggi fyrir yfirvöld.


Eftirfarandi tillögur úr aðgerðaáætlun fyrir þjónustusamfélagið lágu einnig fyrir en var frestað til næsta fundar starfshópsins:

Sett verði upp upplýsingaskilti á nokkrum stöðum á Egilsstöðum og Fellabæ sem sýni áhugaverði staði þar og þjónustu á korti / loftmynd af þéttbýlinu. Þessir staðir gætu verið við upplýsingamiðstöðina, í horninu á Bónusplaninu við Miðvang, á planinu við Olís í Fellabæ. Gerð upplýsingaskiltanna verði samstarfsverkefni hagsmunaaðila.

Upplýsingagjöf með merkingum, s.s. skiltum og vegvísum, þarf verulega að bæta á miðbæjarsvæðinu (sjá nánar undir Merkingar og vegvísar), enda hlutverk þeirra að upplýsa og þannig um leið að ýta undir að gestir svæðisins noti þjónustu þess og heimsæki áfangastaði.

Vinna þarf að því með landeigendum náttúrulaugarinnar á Laugavöllum að koma skipulagi á aðstöðuna þannig að ekki verði þar slys eða náttúra svæðisins spillist vegna ágangs.

Kárahnjúkavirkjun er með stærstu sambærilegum mannvirkjum í Evrópu. Umhverfi virkjunnarinnar er stórbrotið með jöklana í baksýn og Dimmugljúfur framundan. Vinna þarf betur að því að kynna mannvirkið og umhverfi þess betur sem áhugaverðan áfangastað. Bæta þarf úr merkingum á leiðinni að virkjuninni koma fyrir borðum og útskotum.

Lögð verði meiri áhersla á að gera Tjarnargarðinn að áhugaverðari stað til útiveru og afþreyingar, en garðurinn er ekki mikið notaður almennt. Skipaður verði starfshópur sem geri tillögur um hlutverk garðsins þannig að hann geti enn frekar orðið áfangastaður íbúa sveitarfélagsins og ferðafólks.

Selskógurinn er vin sem býður upp á tækifæri þannig að hann verði enn frekar áfangastaður íbúa og ferðafólks.

Sett verði upp stórt skilti eða rammi t.d. við Hafursá þar sem fólk gæti stillt sér upp með Fljótið í baksýn og myndað sig. Á skiltinu væru upplýsingar um Orminn og þar gæti staðið Lagarfljót eða Welcome to the surroundings of the Wyrm, Lake of the Wym osfr.

Lögð verði áhersla á að merkja svæði eða staði sem hafa einhverja sérstöðu s.s. náttúruminjasvæði, gönguleiðir, minnisvarða sem nokkrir eru á svæðinu, svæði þar sem fuglalíf er sérstakt. Einnig staði sem eiga sér merkilega eða áhugaverða sögu.

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs - 65. fundur - 21.01.2014

2. fundur vinnuhóps um þjónustusamfélagið

Lagt fram til kynningar

Skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs - 109. fundur - 22.01.2014

Til umræðu og afgreiðaslu er fundargerð 2. fundar vinnuhóps um þjónustusamfélagið. Um er að ræða þá málaflokka, sem heyra undir skipulags- og mannvirkjanefnd.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir að eftirfarandi verði tekið upp við Vegagerðina á fundi hennar og sveitarfélagsins þann 31. janúar 2014: Útskot við vegina, sem liggja að Egilsstöðum og Fellabæ, upplýsingaskilti við útskotin og skilti Vegagerðarinnar á planinu við N1.
Þau verkefni sem snúa að skipulagsmálum verði tekin upp við gerð deiliskipulags eða endurskoðun þeirra. Nefndin felur skipulags- og byggingarfulltrúa að skilgreina þau verkefni og leggja fyrir næsta reglulega fund nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs - 71. fundur - 27.05.2014

Til umræðu er 2. fundur vinnuhóps um þjónustusamfélagið. Málið var áður á dagskra 21.01.2014.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Umhverfis- og héraðsnefnd leggur til við bæjarstjórn að fenginn verði fagaðili til að hanna umhverfi aðkomuleiða í þéttbýlið samkvæmt tillögu frá vinnuhóp Þjónustusamfélagsins 10.12.2013.

Samþykkt með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 198. fundur - 04.06.2014

Til umræðu er 2. fundur vinnuhóps um þjónustusamfélagið. Málið var áður á dagskrá 21.01.2014.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Að tillögu umhverfis- og héraðsnefndar samþykkir bæjarstjórn að fenginn verði fagaðili til að hanna umhverfi aðkomuleiða í þéttbýlið samkvæmt tillögu frá vinnuhóp Þjónustusamfélagsins 10.12.2013.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.