Bæjarráð hefur kynnt sér stöðu og rekstur Reiðhallarinnar og þá valkosti sem menn standa frammi fyrir. Einnig bætti Björn Ingimarsson bæjarstjóri við frekari upplýsingum sem hann hefur aflað.
Bæjarráð samþykkir að boða til fundar á Iðavöllum mánudaginn 7. okt. kl. 20:00 með hagsmunaaðilum, í samráði við stjórn reiðhallarinnar. Þar verið farið yfir stöðuna og þá valkosti sem eru í umræðunni.
Karl Lauritzson, Ragnhildur Rós Indriðadóttir og Árni Kristinsson óskkuðu eftir því að fram kæmi að þau styddu ekki ákvörðun bæjarráðs í málinu.
Stefán Bogi Sveinsson og Gunnar Jónsson lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það var að frumkvæði landbúnaðarráðuneytisins sem farið var af stað með það verkefni á sínum tíma að reisa reiðhallir í öllum landshlutum. Að frumkvæði ríkisvaldsins var leitað til hestamannafélaga um samstarf um verkefnið og jafnframt var óskað eftir fjármunum frá viðkomandi sveitarfélögum. Fljótlega breyttust þó forsendur verkefnisins, höllunum fjölgaði og fjármagn til hverrar og einnar minnkaði sem því nam. Því má ljóst vera að ákveðinn forsendubrestur varð í verkefninu strax í upphafi. Þrátt fyrir það risu reiðhallir hringinn í kringum landið. Það er nánast hægt að fullyrða að ekkert þessara verkefna hefur farið eins og lagt var upp með í byrjun og hér um bil allsstaðar hafa sveitarfélög mátt koma inn í verkefnið á mismunandi stigum til þess að taka við boltanum. Reiðhöllin á Iðavöllum er aðeins síðasta dæmið af mörgum um þetta.
Halda má fram með nokkrum rökum að ógæfa verkefnisins hafi verið ónógur stuðningur ríkisvaldsins þegar á reyndi og síðan misráðnar ákvarðanir eða skortur á ákvörðunum af hálfu stjórnenda sveitarfélagsins í gegnum tíðina þegar kemur að málefnum hestamanna. Við hinu síðara verður ekki gert úr þessu en vonandi tekst að rétta hlut verkefnisins gagnvart ríkinu þótt seint sé.
Undanfarin ár hefur verið háð varnarbarátta í fjármálum sveitarfélagsins. Hefur hún einkennst af því að reynt hefur verið að standa vörð um þá þjónustu sem þegar er til staðar og bregðast við þeim bráðasta vanda sem upp hefur komið hvað varðar fjárfestingu og framkvæmdir.
Sú ákvörðun sem tekin var um að Fasteignafélag Fljótsdalshéraðs keypti reiðhöllina á Iðavöllum teljum við vera í fullu samræmi við framangreind sjónarmið um að leitast við að verja þá þjónustu og aðstöðu sem í boði er í sveitarfélaginu. Ekki er hægt að ímynda sér að um mikið bráðari vanda geti verið að ræða varðandi aðstöðu og þjónustu við íbúa heldur en stóð fyrir dyrum í vikunni varðandi reiðhöllina.
Ítreka ber að ennþá er að því stefnt að tekjur af rekstri hallarinnar standi undir kostnaði við fjármögnun og rekstur hennar. Þetta er krefjandi verkefni sem framundan er og kallar á ríka samstöðu hestamanna, ræktenda, ferðaþjónustuaðila og annarra sem komið geta að nýtingu hallarinnar.
Menningar og íþróttanefnd vekur athygli á að áætluð kaup sveitarfélagsins á reiðhöllinni á Iðavöllum eru þvert á áherslur nefndarinnar í uppbyggingarmálum. Nefndin leggur áherslu á að áformin hafi ekki áhrif á núverandi forgangsröðun hennar.
Samþykkt með fjórum atkvæðum (PS, AA, HÞ, ÁÓ) en einn sat hjá (GG).
Bæjarráð samþykkir að boða til fundar á Iðavöllum mánudaginn 7. okt. kl. 20:00 með hagsmunaaðilum, í samráði við stjórn reiðhallarinnar. Þar verið farið yfir stöðuna og þá valkosti sem eru í umræðunni.