Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

365. fundur 05. desember 2016 kl. 09:00 - 12:00 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Anna Alexandersdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Stefán Bogi Sveinsson aðalmaður
  • Sigrún Blöndal varaformaður
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri
Í upphafi fundar gerði bæjarstjóri grein fyrir því að Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur hlutu umhverfisverðlaun ferðamálastofu fyrir verkefnið Dyrfjöll Stórurð gönguparadís.
Bæjarráð fagnar þessari viðurkenningu og þakkar sérstaklega þeim sem að verkefninu komu.

1.Fjármál 2016

Málsnúmer 201601001

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri fór yfir nokkrar tölur úr rekstri sveitarfélagsins.

Einnig farið yfir áhrif þess kjarasamnings sem Samband sveitarfélaga og samninganefnd kennara undirrituðu í lok nóvember og bíður nú staðfestingar.
Jafnframt skoðað hvernig Fljótsdalshérað getur mætt þeim kostnaðarauka sem hann felur í sér.
Þó bæjarráð telji að æskilegra hefði verið að ganga frá kjarasamningi til lengri tíma, telur bæjarráð rétt að stjórn Sambands sveitarfélaga staðfesti samninginn, enda brýnt að eyða þeirri óvissu sem uppi er. Jafnframt telur bæjarráð mikilvægt að unnið verði af krafti í samræmi við þær bókanir sem að fylgja samningnum og vonast til að sú vinna geti orðið grundvöllur að langvarandi sátt.

2.Fundargerð 216. fundar stjórnar Hitaveitu Egilsstaða og Fella

Málsnúmer 201611126

Fundargerð 216. fundar stjórnar Hitaveitu Egilsstaða og Fella lögð fram til kynningar.

Þar voru teknar fyrir gjaldskrár sem hér segir:


Vatnsveitugjöld 2017.
Samkvæmt 8. gr. í samþykktum um gjaldskrár vatnsveitna í rekstri HEF ehf. ber stjórn að taka ákvörðun um vatnsgjald samkvæmt 3. grein samþykktanna og samþykkir stjórn HEF að grein 3 verði eftirfarandi:

Af öllum fasteignum, sem eru gjaldskyldar skal greiða vatnsgjald sem nemur kr. 245 (var 245)á fermetra skv. fasteignamati og fast gjald kr. 8.600 (var kr. 8.250) á matseiningu. Árlegt vatnagjald af sumarhúsum / frístundahúsum, skal að lágmarki vera kr. 25.640 (var kr. 24.900)

Notkunargjald skv. mæli skal vera kr. 30 (var kr. 28) pr rúmmetra og frá Urriðavatnsveitu kr. 23 (var kr, 22) pr rúmmetra

Holræsagjöld vegna álagningar 2017.

Holræsagjald verði óbreytt, eða 0,32% af fasteignamati.

Vegna hreinsunar rotþróa samkv. gjaldskrá, breytast upphæðir árlega samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar, eins og fram kemur í samþykktinni.

3.Fundargerð 844. stjórnarfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201612003

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4.Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins haustið 2016

Málsnúmer 201611108

Lagt fram kynningarefni frá haustþingi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins sem haldið var í Strasbourg 19. - 21. október 2016. Frá Íslandi sóttu þingið Anna G. Björnsdóttir frá Sambandinu og sveitarstjórnarfulltrúarnir Björn S. Blöndal Reykjavík og Gunnhildur Ingvarsdóttir Fljótsdalshéraði.

5.N4, Að Austan, beiðni um styrk fyrir þáttagerð 2017

Málsnúmer 201611117

Lagður fram tölvupóstur frá N4, dags. 28. nóvember 2016, með beiðni um styrk vegna gerðar þáttanna "Að Austan" 2017.
Stefán Bogi vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að endurnýja samninginn til eins árs og er heimild til að hækka greiðslur í honum í allt að kr. 770.000.

Jafnframt samþykkir bæjarráð að óska eftir fundi með forsvarsmönnum N4 og felur bæjarstjóra að koma honum í kring.

6.Rannsóknarleyfi á vatnasviði Geitdalsár

Málsnúmer 201608064

Kynntar hugmyndir að samningi vegna rannsókna- og nýtingarleyfis.
Málið er að öðru leyti í vinnslu.

7.Reglugerðir vegna búvörusamninga

Málsnúmer 201611128

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að taka saman umsögn vegna 19. gr. draga um reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt, í samræmi við umræður á fundinum.

8.Sérstakur húsnæðisstuðningur

Málsnúmer 201612001

Lagður fram tölvupóstur frá Velferðarráðuneytinu, dagsettur 30. nóvember 2016, þar sem kynntar eru leiðbeinandi reglur vegna húsnæðisstuðnings við leigjendur.

Bæjarráð gerir athugasemd við það að í drögunum er ekki að finna útfærslu á því nýmæli að sveitarfélög skuli veita foreldrum eða forsjáraðilum 15 - 17 ára barna, sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjærri lögheimili, húsnæðisstuðning.

9.Samþykkt um fráveitur í þéttbýlisstöðum á Fljótsdalshéraði

Málsnúmer 201604103

Ræddar nauðsynlegar breytingar á samþykkt um fráveitur á Fljótsdalshéraði.

Breytingarnar koma. m.a. til vegna tilvitnana í lög og því að nú sér Hitaveita Egilsstaða og Fella um fráveitur á vegum sveitarfélagsins.

Bæjarstjóra falið að kalla eftir athugasemdum frá HEF og í framhaldi af því að vinna málið áfram í samstarfi við heilbrigðisnefnd.

Fundi slitið - kl. 12:00.