Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

455. fundur 28. janúar 2019 kl. 08:15 - 10:15 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Anna Alexandersdóttir formaður
  • Stefán Bogi Sveinsson varaformaður
  • Steinar Ingi Þorsteinsson aðalmaður
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
  • Hannes Karl Hilmarsson bæjarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri

1.Fjármál 2019

Málsnúmer 201901002

Björn Ingimarsson fór yfir álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2019, en álagningarseðlar hafa nú verið sendir út og eru sýnilegir í íbúagátt og á island.is. Álagningarseðlar eru sendir út á pappír til fyrirtækja og eldri borgara, en annars birtast þeir greiðendum með rafrænum hætti.

2.Lánasamningur nr. 1902_06 - Lánasjóður Sveitafélaga

Málsnúmer 201901168

Fyrir fundinum liggur lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga, en hann er upp á 100 milljónir. Lánið er tekið til að ljúka fjármögnun á uppgjöri við lífeyrissjóðinn Brú. Lánið er verðtryggt, með breytilegum vöxtum og er til 15 ára.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lánasamningurinn verði samþykktur, enda er lántakan í samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2019.

3.Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga

Málsnúmer 201811004

Björn og Hannes sögðu frá fundinum og umræðum þar. Á næsta fundi sem fyrirhugaður er á morgun, verða starfshópar skipaðir og skapalón fyrir verkefni þeirra kynnt. Áformað er að starfshóparnir hefji vinnu sína 5. febrúar og að verkefnastjórar mæti á fyrsta fund þeirra. Einnig fór Björn yfir tillögur að fulltrúum Fljótsdalshéraðs í starfshópunum.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögur.

4.Ályktun frá foreldraráði Hádegishöfða og Tjarnarskógar

Málsnúmer 201811075

Farið yfir drög að svörum við fyrirspurnum foreldraráðs Tjarnarskógar og Hádegishöfða sem bæjarstjóri hefur tekið saman. Fram kom að væntanlegar eru frekari upplýsingar.
Málið að öðru leyti í vinnslu.

5.Reiðhöllin Iðavöllum

Málsnúmer 201901155

Rætt um stöðu reiðhallarinnar á Iðavöllum innan stjórnkerfis sveitarfélagsins.
Bæjarráð samþykkir að hér eftir heyri rekstur hennar undir íþrótta- og tómstundanefnd og að atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi og verkefnastjóri íþrótta-, tómstunda- og forvarnarmála verði tengiliðir við notendur reiðhallarinnar. Reksturinn verði innan málafokks íþróttamála, en viðhald reiðhallarinnar heyri áfram undir Eignasjóð.

6.Sjálfbærar borgir framtíðarinnar (e. Cities that Sustain Us)

Málsnúmer 201901167

Verkefnið Cities that Sustain Us (CiSuUs) er rannsóknar- og þróunarverkefni sem miðar að því að kanna sálfræðilegt samspil fólks og umhverfis með hagnýtingu gagnvirks, þrívíðs sýndarveruleika. Undir merkjum CiSuUs hefur tilraunastofa í sýndarveruleika verið þróuð en hún opnar áhugaverða möguleika á rannsóknum, niðurstöðum og framsetningu sem gætu leitt til betur upplýstrar ákvarðanatöku og meiri umhverfisgæða.
Cities that Sustain Us-verkefnið hefur síðan 2016 notið styrks frá Tækniþróunarsjóði og fyrir dyrum stendur að sækja um frekari styrk.
Að baki verefninu standa dr. Hannes Högni Vilhjálmsson (ábyrgðarmaður) dr. Kamila Rún Jóhannsdóttir og dr. Páll Jakob Líndal hjá gerfigreindarsetri Háskólans í Reykjavík (CADIA)og dr. Terry Hartig hjá Uppsala-háskóla í Svíþjóð.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Fljótsdalshérað lýsir yfir áhuga á samstarfi við CiSuUs í því verkefni sem hér er sótt um fjármuni til. Framlag Fljótsdalshéraðs fælist í því að vera rannsóknarhópi innan handar um gögn sem gætu nýst, veita ráðgjöf og skapa vettvang fyrir hagnýtingu þeirra afurða og niðurstaðna sem úr verkefninu koma.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Stækkun Keflavíkurflugvallar - beiðni um umsögn

Málsnúmer 201901066

Kynnt umsögn Fljótsdalshéraðs um stækkun Keflavíkurflugvallar, en eftir henni var kallað frá Skipulagsstofnun.

Fundi slitið - kl. 10:15.