Atvinnu- og menningarnefnd

17. fundur 13. apríl 2015 kl. 17:00 - 20:00 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Guðmundur Sveinsson Kröyer formaður
  • Ragnhildur Rós Indriðadóttir aðalmaður
  • Þórður Mar Þorsteinsson aðalmaður
  • Gunnar Þór Sigbjörnsson aðalmaður
  • Kristjana Jónsdóttir aðalmaður
  • Óðinn Gunnar Óðinsson
Fundargerð ritaði: Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-. menningar- og íþróttafulltrúi

1.Skógrækt á Héraði

Málsnúmer 201503112

Á fundinn undir þessum lið mætti Þröstur Eysteinsson frá Skógrækt ríkisins.

Skógrækt er mikilvæg atvinnugrein á Fljótsdalshéraði og hafa margir af henni bæði beina og óbeina atvinnu. Skógrækt ríkisins er með mjög öfluga starfsemi á Fljótsdalshéraði, bæði á Hallormsstað og á Egilsstöðum, en á Egilsstöðum hafa aðalskrifstofur stofnunarinnar verið frá 1990.
Atvinnu- og menningarnefnd hvetur ríkisvaldið til að styrkja og efla þessa starfstöð enn frekar.

Skógrækt hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár með lægri fjárveitingum til greinarinnar. Landsframleiðsla á skógarplöntum hefur hrapað úr rúmlega 6 milljón plöntum niður í um 3 milljónir plantna. Samdrátturinn hefur sett rekstur gróðrarstöðva í uppnám og er nú svo komið að flestar eiga í töluverðum rekstrarerfiðleikum og sumar hafa þegar hætt störfum. Þetta hefur valdið því að ársverkum í gróðrastöðvum hefur fækkað verulega og verktökum fækkað í gróðursetningu og girðingavinnu. Þessi mikli samdráttur á framleiðslu skógarplantna undanfarin ár mun hafa alvarleg áhrif á afkomu hinna ýmsu greina sem byggja afkomu sína á skógrækt og skógarvinnslu.

Atvinnu- og menningarnefnd telur mjög mikilvægt að ríkisvaldið bregðist strax við með aukningu á fjármagni til plöntuframleiðslu og gróðursetningar, svo hægt sé m.a. að standa við gerða samninga og ræktunaráætlanir. Þá vekur atvinnu- og menningarnefnd athygli á að stærri hluti af kostnaði við framleiðslu á plöntum og nýræktun skóga eru laun sem skila fjárframlögum til baka til ríkis og sveitarfélaga í formi skatta og gjalda.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Þjónustusamfélagið á Héraði

Málsnúmer 201504016

Á fundinn undir þessum lið mættu Sigrún Hólm Þórleifsdóttir og Ívar Ingimarsson fulltrúar Þjónustusamfélagsins á Héraði. Þeim að lokum þakkaðar góðar umræður.

Ferðaþjónusta er hratt vaxandi atvinnugrein og mikilvæg fyrir Fljótsdalshérað. Nefndin hvetur til þess að sveitarfélagið og fyrirtæki hugi sem fyrst að ásýnd og fegrun umhverfisins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Greining á þróun atvinnulífsins

Málsnúmer 201504026

Fyrir liggur tilboð frá Austurbrú tilboð vegna vinnu við gerð greiningar á þróun atvinnulífsins á Fljótsdalshéraði síðast liðin ár.

Málið er í vinnslu.

4.Ljósmyndasýningin Arctic Biodiversity

Málsnúmer 201504013

Fyrir liggur tölvupóstur frá Dagmar Ýr Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Alcoa Fjarðaáls, þar sem sveitarfélaginu er boðin ljósmyndasýningin Artic biodiversity til sýningar.

Atvinnu- og menningarnefnd þakkar fyrir og þiggur boðið með þökkum. Gert verði ráð fyrir að ljósmyndunum verði komið fyrir í eða við miðbæ Egilsstaða.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Umsókn um styrk vegna ljósmyndaverkefnis

Málsnúmer 201503153

Fyrir liggur styrkumsókn frá Ragnhildi Aðalsteinsdóttur, dagsett 25. mars 2015, vegna ljósmyndaverkefnis og sýningar.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að sýningin verði styrkt um kr. 100.000 sem verði tekið af lið
05.89.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Verklagsreglur um afnot af húsnæði sveitarfélagsins

Málsnúmer 201503160

Fyrir liggja drög að verklagsreglum um afnot af húsnæði sveitarfélagsins.

Atvinnu- og menningarnefnd samþykkir drögin fyrir sitt leyti.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Umsókn um styrk vegna útgáfu plötu og tónleika

Málsnúmer 201504022

Fyrir liggur styrkumsókn frá Breka Steini Mánasyni, vegna útgáfu á plötu Laser Life og til að halda útgáfutónleika.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að verkefnið tónleikar á Egilsstöðum verði styrkt um kr. 50.000 sem tekið verði af lið 05.89.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 20:00.