Atvinnu- og menningarnefnd

89. fundur 11. júní 2019 kl. 17:00 - 18:30 á bæjarskrifstofu á Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Anna Gunnhildur Ingvarsdóttir formaður
  • Aðalheiður Björt Unnarsdóttir varaformaður
  • Ívar Karl Hafliðason aðalmaður
  • Aron Steinn Halldórsson aðalmaður
  • Óðinn Gunnar Óðinsson
  • Benedikt V. Warén áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi

1.Aðstaða fyrir Leikfélag Fljótsdalshéraðs

Málsnúmer 201902006

Fyrir liggur erindi frá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs þar sem óskað er eftir liðsinni sveitarfélagsins við að leysa fyrirliggjandi aðstöðuvanda leikfélagsins.

Benedikt lagði til að styrkupphæðin yrði kr. 420.000.
Var tillagan felld með öllum greiddum atkvæðum.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að Leikfélag Fljótsdalshéraðs verði styrkt um kr. 650.000 vegna félags- og geymsluaðstöðu það sem eftir er af árinu, sem tekinn verði af lið 0581. Starfsmanni falið að gera samning við leikfélagið þar sem kveðið verði m.a. á um verkefni á vegum þess.
Mögulegur stuðningur við leikfélagið á næsta ári verði tekinn upp við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2020.
Nefndin leggur til að metið verði hvort Kornskálann við Sláturhúsið megi á komandi árum nota sem félags- og geymsluaðstöðu fyrir leikfélagið.

Samþykkt með þremur atkvæðum (AGI, ABU, ASH), en einn sat hjá (ÍKH).

2.Reglur um listaverk í eigu sveitarfélagsins, valnefnd

Málsnúmer 201905117

Fyrir liggja reglur um listaverk í eigu sveitarfélagsins sem staðfestar voru 6. mars 2019, en samkvæmt þeim ber atvinnu- og menningarnefnd að tilnefna tvo fulltrúa í valnefnd, til tveggja ára, sem ásamt atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa gerir tillögur til nefndarinnar um kaup eða móttöku á listaverkum.

Benedikt Warén leggur til að Gissur Árnason skipi valnefnd ásamt Kristínu Hlíðkvist Skúladóttur.
Tillagan felld með öllum greiddum atkvæðum.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að valnefndina skipi Skúli Björn Gunnarsson og Kristín Hlíðkvist Skúladóttir, ásamt atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Viðurkenning vegna menningarstarfs

Málsnúmer 201904079

Atvinnu- og menningarnefnd er einróma um hver skuli hljóta Menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs 2019, sem afhent verða 17. júní.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Landvarsla á Víknaslóðum og nágrenni

Málsnúmer 201806099

Fyrir liggja drög að samningi milli Fljótsdalshéraðs og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs um landvörslu á Víknaslóðum, í Stórurð og Stapavík sumarið 2019.

Atvinnu- og menningarnefnd leggur til að samningurinn verði samþykktur og verði styrkurinn tekinn af lið 1305.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Landvarsla á Víknaslóðum og nágrenni 2020

Málsnúmer 201906037

Fyrir liggur erindi frá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahópi Borgarfjarðar eystra, dagsett 6. júní 2019, með beiðni um stuðning til að tryggja landvörslu á Víknaslóðum og Stórurð, Stapavík og Gönguskarði sumarið 2020.

Atvinnu- og menningarnefnd vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar í haust fyrir árið 2020.
Nefndin leggur til að náttúruverndarnefnd taki málið jafnframt til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 18:30.