Frístund 2020-2021

Málsnúmer 202002030

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 285. fundur - 11.02.2020

Ruth Magnúsdóttir, skólastjóri Egilsstaðaskóla, vakti máls á því að aftur er von á fjölmennum árgangi inn í 1. bekk á næsta skólaári og þá þrengir enn að Frístund þar sem meira húsnæði þarf fyrir bekkjarkennslu.

Fræðslunefnd kallar eftir að sem fyrst liggi fyrir niðurstaða frá þeim starfshópi sem er að vinna að tillögugerð varðandi starfsemi Frístundar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 288. fundur - 21.04.2020

Farið yfir stöðu mála vegna starfsemi Frístundar, einkum með áherslu á starfið á næsta skólaári, en fyrir liggur að stór árgangur kemur inn í grunnskólana annað árið í röð. Ruth Magnúsdóttir vakti sérstaka athygli á stöðu þeirra barna sem eiga rétt á sérstakri þjónustu á grundvelli málefna fatlaðra. Það er mikilvægt að huga sérstaklega að því að þessi hópur fái þjónustu við hæfi.

Fræðslunefnd leggur áherslu á að unnin verði aðgerðaáætlun á grundvelli skýrslu starfshóps um Frístundastarfsemi sem fjallað var um á fundi nefndarinnar 10. mars sl. og þannig tryggt að sú framtíðarsýn sem þar er sett fram fái framgang. Í því sambandi leggur fræðslunefnd áherslu á að haft verði samráð við hagsmunaaðila við mótun áætlunarinnar. Fræðslunefnd óskar eftir að íþrótta- og tómstundanefnd vinni að framgangi málsins en mun koma að málum eftir því sem óskað er.

Fræðslunefnd leggur áherslu á að við niðurröðun tíma í íþróttahúsinu í haust verði tekið tillit til þarfa Frístundar og tryggt að starfsemin fái rými þar nú þegar aðstaða í íþróttahúsinu stækkar mikið með tilkomu fimleikasalarins.

Samþykkt samhljóða með nafnakalli.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 62. fundur - 30.04.2020

Fyrir liggur bókun fræðslunefndar vegna Frístundar 2020-2021.

Íþrótta- og tómstundanefnd tekur undir með fræðslunefnd og leggur áherslu á að unnin verði aðgerðaáætlun á grundvelli skýrslu starfshóps um Frístundastarfsemi og þannig tryggt að sú framtíðarsýn sem þar er sett fram fái framgang. Nefndin leggur til að starfsmaður vinni málið áfram í samvinnu við fræðslustjóra.

Íþrótta- og tómstundanefnd tekur undir þá áherslu á að við niðurröðun tíma í íþróttahúsinu í haust verði tekið tillit til þarfa Frístundar og tryggt að starfsemin fái rými þar nú þegar aðstaða í íþróttahúsinu stækkar mikið með tilkomu fimleikasalarins.

Samþykkt samhljóða.