Samstarfssamningur við Íþróttafélagið Hött

Málsnúmer 201611095

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 364. fundur - 28.11.2016

Lögð fram til kynningar drög að samstarfssamningi við Íþróttafélagið Hött. Drögin eru jafnframt til skoðunar hjá stjórn Hattar.
Málið er áfram í vinnslu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 376. fundur - 06.03.2017

Davíð Sigurðarson formaður Hattar sat fundinn undir þessum lið og fór yfir hugmyndir að uppbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Einnig var ræddur samstarfssamningur við íþróttafélagið Hött, um uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna að drögum að samstarfssamningi og málið verður jafnframt áfram í vinnslu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 384. fundur - 08.05.2017

Til fundarins mættu Davíð Sigurðarson formaður Hattar og Einar Andrésson úr byggingarnefnd Hattar, til að ræða samstarfssamning milli Hattar og Fljótsdalshéraðs um uppbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum.
Eftir góða kynningu og umræður var gestunum þökkuð koman og veittar upplýsingar.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 385. fundur - 15.05.2017

Lögð fram endurgerð drög að samningi milli Íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs, um uppbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Gerðar voru smávægilegar breytingar á 9. grein samningsdraganna og þau síðan lögð fyrir, með áorðnum breytingum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð gerir það að tillögu sinni við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að undirrita samningsdrögin, eins og þau liggja nú fyrir.

Tillagan samþykkt með 2 atkvæðum (G.J og S. Bl.) en 1 var á móti. (S.B.S.)

Stefán Bogi Sveinsson lagði fram eftirfarandi bókun:

Þó að ég sé fylgjandi þeim markmiðum sem sett voru fram í viljayfirlýsingu sveitarfélagsins og Íþróttafélagsins Hattar um uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum sé ég mér ekki annað fært en að greiða atkvæði gegn fyrirliggjandi samningsdrögum. Ástæður þess eru í fyrsta lagi að ég tel óeðlilegt að gera slíkan samning áður en hönnun og endanleg kostnaðaráætlun liggur fyrir. Hins vegar tel ég að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er nú varðandi leikskólapláss í sveitarfélaginu, og með vísan til þess að viðbygging við leikskólann Hádegishöfða var sett jafn framarlega og fimleikasalur í forgangsröðun framkvæmda sem samþykkt var í bæjarráði í desember 2013, þá sé eðlilegt að sá valkostur verði skoðaður til fulls og endanleg ákvörðun tekin um þá framkvæmd samhliða ákvörðun um uppbyggingu íþróttamiðstöðvar.

Ég tel að eðlilegt sé að næsta skref sé að gera nýja viljayfirlýsingu sem feli í sér eftirfarandi:

Lokið verði við fullnaðarhönnun á framkvæmdinni sem lýst er í samningsdrögunum. Sveitarfélagið leggi fram fjármagn til þeirrar vinnu. Út frá þeirri hönnun verði unnin endanleg kostnaðaráætlun.
Sveitarfélagið ráðist í breytingar á anddyri íþróttamiðstöðvar og starfsmannaaðstöðu, sem er fyrsti áfangi verksins samkvæmt samningsdrögum.
Endanleg ákvörðun um samning við íþróttafélagið og tímaramma verkefnisins verði tekin fyrir árslok.

Jafnframt verði fyrir árslok tekin ákvörðun um tímaáætlun viðbyggingar við leikskólann Hádegishöfða.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarráð samþykkir jafnframt að fela bæjarstjóra að vinna áfram að greiningu á möguleikum vegna viðbyggingar við leikskólann Hádegishöfða, í samræmi við fyrri ákvörðun bæjarráðs um forgangsröðun framkvæmda hjá sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.