Frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli

Málsnúmer 201505023

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 295. fundur - 11.05.2015

Lagður fram tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis, dags. 6. maí 2015, með beiðni um umsögn.

Bæjarráð telur að mikilvægt sé að skipulagsvald sveitarfélaga sé almennt virt. Þó telur bæjarráð að uppi séu og geti verið aðstæður sem réttlæta inngrip stjórnvalda landsins alls í ákveðnar skipulagsáætlanir. Um slíkt eru þó nokkur dæmi. Í ljósi mikilvægis Reykjavíkurflugvallar fyrir landið allt telur bæjarráð að eðlilegt sé að ríkisvaldið hlutist sérstaklega til um skipulag flugvallarins og styður því frumvarpið.
Bæjarráð bendir þó jafnframt á að eðlilegt getur talist að sett sé sérstök löggjöf um alþjóðaflugvelli á landinu þar sem meðal annars er tekið á skipulagsmálum þeirra valla með hagsmuni landsins alls að leiðarljósi.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 217. fundur - 20.05.2015

Lagður fram tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis, dags. 6. maí 2015, með beiðni um umsögn.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og telur að mikilvægt sé að skipulagsvald sveitarfélaga sé almennt virt. Þó telur bæjarstjórn að uppi séu og geti verið aðstæður sem réttlæta inngrip stjórnvalda landsins alls í ákveðnar skipulagsáætlanir, svo sem þegar almannahagsmunir krefjast þess.
Um slíkt eru þó nokkur dæmi. Í ljósi mikilvægis Reykjavíkurflugvallar fyrir landið allt telur bæjarstjórn að eðlilegt sé að ríkisvaldið hlutist sérstaklega til um skipulag flugvallarins og styður því frumvarpið.
Bæjarstjórn bendir þó jafnframt á að eðlilegt getur talist að sett sé sérstök löggjöf um alþjóðaflugvelli á landinu þar sem meðal annars er tekið á skipulagsmálum þeirra valla með hagsmuni landsins alls að leiðarljósi.

Samþykkt með 7 atkv. en 2 sátu hjá (Á.K. S.Bl.)

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 220. fundur - 01.07.2015

Tengd málinu voru frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli og skýrsla svokallaðrar "Rögnunefndar" um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu.

Til máls tóku Stefán Bogi Sveinsson, Þórður Mar Þorsteinsson, Gunnar Jónsson, Sigrún Blöndal, Guðmundur Sveinsson Kröyer, Gunnar Jónsson, Sigrún Blöndal og Stefán Bogi Sveinsson sem lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa B-lista:

Það er samfélögum úti um landið afar mikilvægt að til staðar séu samgöngumannvirki sem tryggja traustar og skjótvirkar samgöngur við höfuðborg Íslands og þá sameiginlegu þjónustu sem þar hefur verið byggð upp fyrir landið allt. Reykjavíkurflugvöllur þjónar þessu hlutverki í dag. Meðan ekki er búið að leysa hann af hólmi er algjörlega óásættanlegt að hann verði látinn víkja eða að honum þrengt.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs lýsti á fundi sínum þann 20. maí yfir stuðningi við frumvarp til laga um skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar. Jafnframt lýsti bæjarstjórn því yfir að eðlilegt gæti talist að sambærilegar reglur giltu um alla millilandaflugvelli. Við studdum málið þá og teljum að þær breytingar sem síðan hafa verið gerðar á frumvarpinu séu í fullu samræmi við þessa samþykkt bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og styðjum það heilshugar sem fyrr.

Nú nýverið skilaði stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair group, svonefnd Rögnunefnd, skýrslu sinni um flugvallarkosti fyrir innanlandsflug, aðra en Vatnsmýri, þó að auki sé farið yfir nokkra valkosti sem fela í sér breytingar á flugvellinum þar.

Við teljum skýrsluna geta verið ágætt innlegg í áframhaldandi umræðu um staðsetningu innanlandsflugsins en teljum þó að hún geti ekki falið í sér nein endanleg svör hvað það varðar. Við lýsum okkur sem fyrr reiðbúin til þátttöku í málefnalegri umræðu um framtíð innanlandsflugsins. Við viljum hinsvegar ítreka mikilvægi þess að allir aðilar þessa máls, og þá ekki síst Reykjavíkurborg, komi upp úr skotgröfunum, viðurkenni þá hagsmuni sem samfélögin úti um landið hafa af tryggri tengingu við höfuðborgina og vinni af heilindum að lausn málsins þannig að tekið sé tillit til allra hagsmunaaðila þessa máls.