Elín Rán fór yfir stöðuna í starfsmannamálum skólans en einni grunnskólakennarastöðu var sagt upp í sumar vegna fækkunar nemenda. Einnig var stöðuhlutföllum almennra starfsmanna fækkað umtalsvert á milli skólaáranna og telur Elín Rán að þar sé svo komið að ekki sé hægt að sinna nauðsynlegri gæslu, m.a. í búningsklefum í íþróttahús, mönnun í leikskóla þar sem aldursbil barna er mjög breitt með mönnuninni eins og henni er skipað nú. Elín Rán hefur samið við þann kennara sem nú vinnur uppsagnartíma sinn að sinna sérstökum stuðningi við nemanda sem þarf stuðning allan skólatíma sinn og það er mat hennar að þeim stuðningi sé best komið með þessum hætti. Hún óskar því eftir að fá heimild til að semja við viðkomandi um að halda þeim stuðningi áfram og óskar jafnframt eftir heimild til aukningar á stöðugildum skólaliða sem nemur allt að 50% starfi svo hægt sé að sinna gæslu með ásættanlegum hætti. Skólanefnd samþykkir fyrir sitt leyti umbeðna viðbót við stöðugildi skólaliða og jafnframt að samið verði við þann kennara sem nú sinnir fyrrnefndum einstaklingsstuðningi um áframhaldandi starf til áramóta.