Vegagerðin - Ýmis mál

Málsnúmer 201306092

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs - 59. fundur - 25.06.2013

Vegagerðin - Ýmis mál

Umhverfis- og héraðsnefnd fer þess á leit við Vegagerðina að endurskoða ákvörðun sína varðandi skilgreiningu Brennistaðavegar.

Fyrir u.þ.b. níu árum voru gerðar töluverðar lagfæringar á umræddum vegi sem urðu til þess að vegfarendur fóru að nota þessa leið í auknum mæli. Í dag fara ábúendur á Brennistöðum nánast alfarið sinna ferða eftir þessum vegi og auk þess nota veginn reglulega aðilar eins og landpóstur, mjólkurbíll og skólabíll, enda styttir þessi kafli leiðir umtalsvert fyrir þessa aðila.

Ákveðið var árin 2011 og 2012 að veita fé úr styrkvegasjóði til lagfæringa á veginum, en nefndin leggur á það áherslu að framvegis verði honum viðhaldið ásamt öðrum héraðsvegum.

Þar sem styrkvegafé er af skornum skammti ítrekar nefndin óskir sínar um endurskilgreiningu á veginum milli Gilsársteigs og Brennisstaða í Eiðaþinghá.
Finna má dæmi á Héraði þar sem hliðstæðir vegir eru flokkaðir sem héraðsvegir.

Þar sem umferð hefur beinst í svo auknum mæli á þennan veg eftir lagfæringarnar, er viss ábyrgðarhluti að sinna viðhaldi hans með takmörkuðu styrkvegafé.

Það er með öryggi og hagsmuni vegfarenda að leiðarljósi sem þetta er lagt til.

Nefndin telur lága úthlutun úr styrkvegasjóði til Fljótsdalshéraðs vera í hróplegu ósamræmi við umfang styrkvegakerfisins og viðhaldsþörf þess í víðfeðmasta sveitarfélagi landsins.

Ennfremur bendir nefndin Vegagerðinni á það að nauðsynlegt er að fara meðfram vegum í sveitarfélaginu eftir að snjóa leysir og hreinsa upp laskaðar vegstikur sem liggja eins og hráviði meðfram vegum víðs vegar um sveitarfélagið.

Samþykkt með handauppréttingu

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 236. fundur - 15.07.2013

Bæjarráð tekur undir bókun umhverfis- og héraðsnefndar um að Vegagerðin endurskoði ákvörðun sína varðandi skilgreiningu Brennistaðavegar. Jafnframt tekur bæjarráð undir með nefndinni og hvetur Vegagerðina til að fara með vegum í sveitarfélaginu, lagfæra vegstikur og tína upp brotnar stikur utan vegar.

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs - 61. fundur - 24.09.2013

Vegagerðin - Ýmis mál. Á fundi umhverfis- og héraðsnefndar þann 25.júní síðastliðinn var samþykkt bókun sem komið var á framfæri nokkrum málum sem rædd hafa verið í nefndinni og komið ábendingar um frá íbúum. Ekkert svar hefur borist frá Vegagerðinni.

Umhverfis- og héraðsnefnd ítrekar fyrri bókun sína frá 25.júní síðastliðnum og óskar svara við þeim erindum er þar koma fram.

Samþykkt með handauppréttingu

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 184. fundur - 30.09.2013

Á fundi umhverfis- og héraðsnefndar þann 25.júní síðastliðinn var samþykkt bókun þar sem komið var á framfæri nokkrum málum sem rædd hafa verið í nefndinni og komið ábendingar um frá íbúum. Ekkert svar hefur borist frá Vegagerðinni.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og héraðsnefnd sem ítrekar fyrri bókun sína frá 25.júní síðastliðnum. Málið verður tekið upp við Vegagerðina á fundi, sbr. lið 1.16.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs - 63. fundur - 26.11.2013

Vegagerðin - Ýmis mál
Svarbréf frá Vegagerðinni dagsett 25.10.2013 um þjónustu vegar frá Brennistöðum að Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Málið áður á dagskrá 24. 09.2013

Lagt fram til kynningar