Áheyrnarfulltrúar grunnskóla, Þórhalla Sigmundsdóttir, Margrét Sigfúsdóttir og Þorvaldur Hjarðar tóku þátt í fundinum undir liðum 1 og 2. Ruth Magnúsdóttir, skólastjóri Egilsstaðaskóla, tók þátt í fundinum undir lið 1. Áheyrnarfulltrúar tónlistarskóla, Drífa Sigurðardóttir og Bríet Finnsdóttir mættu á fundinn undir liðum 2 og 3. Sóley Þrastardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum tók þátt í fundinum undir lið 3.
1.Breyttir kennsluhættir í grunnskólum Fljótsdalshéraðs
Ruth Magnúsdóttir mætti á fundinn fyrir hönd grunnskólastjóra til að endurvekja umræðu um breytta kennsluhætti með bættum tæknilausnum sem er verkefni sem kynnt hefur verið fyrir fræðslunefnd. Hún benti m.a. á samkeppnishæfi skóla og nemenda í þessu samhengi og sagði frá heimsókn í grunnskóla í Fjarðabyggð í því sambandi. Hún minnti á mikilvægi þess að ekki væri aðeins um tæknivæðingu skólanna að ræða heldur jafnframt bæði tæknilegan og kennslufræðilegan stuðning til að tryggja sem markvissasta nýtingu búnaðarins.
Fræðslunefnd fer fram á að fá endurskoðaða tillögu að innleiðingu breyttra kennsluhátta í grunnskólunum með uppfærðri kostnaðaráætlun í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun í vor.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
2.Húsnæðismál Fellaskóla og Tónlistarskólans í Fellabæ
Rætt um þrengsli og viðhaldsþörf í húsnæði Fellaskóla og Tónlistarskólans í Fellabæ.
Fræðslunefnd fer þess á leit við Eignasjóð að fá yfirlit yfir það viðhald sem gert er ráð fyrir að unnið verði í ár og hefur verið unnið í Fellaskóla undanfarin 10 ár. Jafnframt fer nefndin þess á leit að fá yfirlit yfir viðhaldskostnaðarþátt í reiknaðri innri leigu á sama tíma.
Fræðslunefnd gerir að tillögu sinni að þeim starfshópi sem hefur hafið störf vegna hliðstæðrar aðstöðu í húsnæði Egilsstaðaskóla verði falið að skoða húsnæðismál í Fellaskóla í ljósi þessa erindis samhliða þeirri vinnu.