Uppreiknaðar fjárhæðir fjárhagsaðstoðar árins 2019 teknar fyrir og samþykktar. Upphæðir kynntar á heimasíðum sveitarfélaganna er standa að Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs.
Með nýjum lögum er tóku gildi þann 1. október 2018 er sveitarfélögum gert að stofna notendasamráð fatlaðs fólks skv. 8. gr. og 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Innan þjónustusvæðisins Austurlands hefur til tveggja ára verið í gangi tilraunaverkefni um notendasamráð sem hefur gefið góða raun. Nefndin felur Guðbjörgu Gunnarsdóttur, verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks og Helgu Þórarinsdóttur, verkefnastjóra hjá Skólaskrifstofu að útfæra samráðsnefndina sem nú er starfandi og aðlaga að nýjum lögum í samráði við Félagsþjónustuna í Fjarðabyggð. Einnig er þeim falið að leggja fram kostnaðaráætlun þar sem ekki er gert ráð fyrir þessum lið í fjárhagsáætlun félagsþjónustu fyrir yfirstandandi ár.
Fæðisgjald í Stólpa, hæfingu og iðju hefur verið það sama síðan árið 2011 og hafa starfsmenn málaflokksins lagt til endurskoðun á gjaldinu til samræmis við heimsendan mat þar sem verð fyrir bakkamat er 1070,- kr. Fæðisgjaldið er nú 500,- kr. og innifelur morgunmat, hádegismat og kaffihressingu. Nefndin bendir á mikilvægi þess að notendur þjónustunnar komi að matargerð og undibúningi matmálstíma. Nefndin samþykkir að hækka fæðisgjald í skrefum, í þetta skiptið úr 500,- kr. í 700,- kr. Verðbreyting tekur gildi 1. mars n.k. Næsta endurskoðun fæðisgjalds fer fram samhliða fjárhagsáætlunargerð ársins 2020.
Dagvistun aldraðra á Fljótsdalshéraði hefur yfir að ráða 3 sértækum rýmum sem 5 einstaklingar nýta eins og er og 1 er á biðlista, auk 5 almennra rýma sem 8 einstaklingar nýta. Síðast fékkst aukning á rýmum árið 2014. Þar sem starfsfólk félagsþjónustu verður vart við aukinn þunga í þjónustu við aldraða, bæði félagslega heimaþjónustu, akstursþjónustu, heimsendan mat og aukna ásókn í dagvistarrými telur nefndin fulla ástæðu til þess að sækja um fjölgun rýma í dagþjónustu. Með hliðsjón af aldursdreifingu í samfélaginu og fjölgun aldraðra og áherslum ríkisins á að aldraðir búi sem lengst heima með stuðningsþjónustu, biðlista eftir því að komast í hjúkrunarrými og niðurlagningu dvalarheimila er nauðsynlegt að fjölga rýmum í dagdvöl. Nefndin vill benda á að úthlutun rýma er ekki bundin við einstaklinga eins og þekkist innan fötlunargreirans, heldur falla niður greiðslur með einstaklingi ef hann ekki nýtir rýmið á tilteknum tíma s.s. vegna hvíldarinnlagnar. Slíkt fyrirkomulag gerir rekstraráætlanir erfiðar og kallar á það að fjöldi notenda sé meiri en fjöldi úthlutaðra rýma. Þetta er kostnaður sem fellur á sveitarfélögin og ríkið ætti að mæta með skilvirkari hætti. Nefndin felur félagsmálastjóra í samvinnu við forstöðumann Hlymsdala að gera drög að umsókn um fjölgun rýma í dagvistun aldraðra og leggja fyrir nefndina.