Þann 18. desember s.l. fengu sveitarfélög senda umsagnarbeiðni frá nefndarsviði Alþingis vegna annars vegar frumvarps til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og hins vegar frumvarps til laga um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum. Umsagnarfrestur var til 15. þ.m. sem er allt of skammur tími þegar tekið er tillit til jóla- og áramóta. Því er það að Félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs óskar eftir að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum þó það sé utan fyrrgreinds tímaramma.
Frumvörpin eru nánast óbreytt frá þeirri útgáfu sem lögð var fram á síðasta þingi. Samband íslenskra sveitarfélaga sendi inn umsagnir á fyrri stigum málsins þar sem áhersla var lögð á víðtæka sátt um áformaðar breytingar. Vísað er til athugasemda sambandsins, dagsett 15. maí 2017 og greinargerðar sambandsins frá í maí 2017.
Félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs styður framkomnar athugasemdir sambandsins en vill jafnframt árétta að tillögur sambandsins er snúa að akstursþjónustu verði teknar til skoðunar. Þar sem Velferðarráðuneytið hefur, án samráðs, breytt því ákvæði sem áður ríkti samkomulag um við fyrri vinnslu frumvarpanna. Mikilvægt er að líta til kostnaðarmats við útfærslu akstursþjónustu sem hefur í för með sér verulegan útgjaldaauka af hálfu sveitarfélaga. Til þessa þarf að líta við nánari útfærslu á þjónustuþættinum, sem og skerpingu á rammalögum um viðmið vegalengda, tíðni og mörk þjónustu, jafnt til fatlaðra sem og aldraðra.
Félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs styður framkomna tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sett verði lagastoð undir starf nefndar sem ætlað er að fylgjast með áhrifum væntanlegra lagabreytinga á fjárhag og stjórnsýslu sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að fylgjast náið með kostnaði við útfærslu nýrra laga og skapa farveg til úrlausnar á málum sem snúa að mögulegum ágreiningi um aukinn kostnað sem upp kann að koma, sem og um þann ágreining er þegar er fram kominn. Vísað er í þau 10 atriði sem sambandið hefur bent á í greinargerð sambandsins þar að lútandi og vöktun þarf að beinast að.
Félagsmálanefnd vill taka undir kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að samhliða lögfestingu á NPA, verði ákveðið að kostnaðarhlutdeild ríkisins í gerðum NPA samningum, hækki úr 25% í 30%. Varðandi rök er vísað í fyrrgreinda greinargerð sambandsins.
2.Frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga