Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns), 707. mál.

Málsnúmer 202005032

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 513. fundur - 11.05.2020

Bæjarráð samþykkir að óska eftir að fræðslustjóri og félagsmálastjóri fari yfir frumvarpsdrögin og geri athugasemdir ef þurfa þykir og skili þeim til bæjarráðs.

Félagsmálanefnd - 183. fundur - 18.05.2020

Félagsmálanefnd fagnar framkomnu lagafrumvarpi og telur það bæta aðstæður barna sem eiga foreldra sem ekki deila heimili. Jákvætt er að það sé tekið fram í lögunum að forsenda þess að semja um skipta búsetu barns sé góð samvinna foreldra með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þannig er einnig hnekkt á því að forsendur samvinnunnar eigi að taka mið af þörfum barnsins og það tekið fram að skólasókn barns miðist við einn grunn- eða leikskóla svo festa sé í uppeldi og umönnun barnsins.
það er góð þróun réttarfars og þá með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að börn geti sjálf snúið sér til stjórnvalds til þess að hlutast til um uppeldisaðstæður sínar, forsjá, lögheimili, búsetu og umgengni. Réttarstaða barna er bætt til muna við að það sé tekið fram í lögunum að hlusta eigi á sjónarmið barns til samræmis við aldur þeirra og þroska.
Breytingar er jafna rétt foreldra til almennra stuðningsúrræða s.s. húsaleigubóta, barnabóta, skattaívilnana og samningar um framfærslu barns þegar búseta barns er skipt, er af hinu góða og til þess fallin að jafna stöðu foreldra sem áður hafa ekki getað notið stuðnings vegna lögheimilisreglunnar. Í frumvarpinu er rætt um að þjónustu skuli beina á bæði heimili og Sjúkratyggingar Íslands þar nefndar en ekki fjallað sérstaklega um stöðu barna með alvarlega fötlun sem þurfa stuðning hins opinbera í formi stuðnings- og hjálpartækja. Nefndin gerir ráð fyrir að sérstaklega verði fjallað um rétt þessara barna í reglugerð ráðherra og vill benda á mikilvægi þess að þau börn sem vegna alvarlegrar fötlunar fái tæki á bæði heimili ef þau eru stór og fyrirferðarmikil og erfiðleikum bundið að flytja þau á milli heimila. Í því samhengi er bent á háa skilnaðartíðni foreldra með fötluð börn og mikilvægi þess að hið opinbera styðji vel við samvinnu foreldra með mikið fötluð börn. Má þar einnig nefna umönnunarbætur og fleira er lýtur að málefnum barna með fötlun og þunga umönnunarbyrði foreldra.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 515. fundur - 25.05.2020

Fljótsdalshérað fagnar framkomnu lagafrumvarpi og telur það bæta aðstæður barna sem eiga foreldra sem ekki deila heimili. Jákvætt er að það sé tekið fram í lögunum að forsenda þess að semja um skipta búsetu barns sé góð samvinna foreldra með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þannig er einnig hnekkt á því að forsendur samvinnunnar eigi að taka mið af þörfum barnsins og það tekið fram að skólasókn barns miðist við einn grunn- eða leikskóla svo festa sé í uppeldi, umönnun og félagslegri stöðu barnsins.

Það er góð þróun réttarfars og þá með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að börn geti sjálf snúið sér til stjórnvalds til þess að hlutast til um uppeldisaðstæður sínar, forsjá, lögheimili, búsetu og umgengni. Réttarstaða barna er bætt til muna við að það sé tekið fram í lögunum að hlusta eigi á sjónarmið barns til samræmis við aldur þeirra og þroska.

Breytingar er jafna rétt foreldra til almennra stuðningsúrræða s.s. húsaleigubóta, barnabóta, skattaívilnana og samningar um framfærslu barns þegar búseta barns er skipt, er af hinu góða og til þess fallin að jafna stöðu foreldra sem áður hafa ekki getað notið stuðnings vegna lögheimilisreglunnar.

Sveitarfélög hafa flest sett sér reglur um forgangsröðun og forgangsgjaldtöku í leikskólum og þá m.a. horft til sérstöðu einstæðra foreldra. Eðlilegt hlýtur að teljast í því sambandi að líta til foreldra sem velja og fylgja skiptri búsetu í anda lagafrumvarpsins með sama hætti og sambúðarforeldra, sbr. einnig meðferð greiðslu barnabóta skv. frumvarpinu.

Í frumvarpinu er rætt um að þjónustu skuli beina á bæði heimili og Sjúkratryggingar Íslands þar nefndar en ekki fjallað sérstaklega um stöðu barna með alvarlega fötlun sem þurfa stuðning hins opinbera í formi stuðnings- og hjálpartækja. Nefndin gerir ráð fyrir að sérstaklega verði fjallað um rétt þessara barna í reglugerð ráðherra og vill benda á mikilvægi þess að þau börn sem vegna alvarlegrar fötlunar fái tæki á bæði heimili ef þau eru stór og fyrirferðarmikil og erfiðleikum bundið að flytja þau á milli heimila. Í því samhengi er bent á háa skilnaðartíðni foreldra með fötluð börn og mikilvægi þess að hið opinbera styðji vel við samvinnu foreldra með mikið fötluð börn. Má þar einnig nefna umönnunarbætur og fleira er lýtur að málefnum barna með fötlun og þunga umönnunarbyrði foreldra.