Umsagnarbeiðni um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024, 434. mál og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034, 435. mál
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs fagnar þeim áherslum er fram koma í fyrirliggjandi tillögu að þingsályktun um fimm ára samgönguáætlun sem eru til þess fallnar að efla svæðið sem búsetu- og atvinnuþróunarvalkost. Má þar nefna ákvörðun um að hefjast handa við undirbúning framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þegar á árinu 2020, fyrirhugaðar framkvæmdir við Jökuldalsveg ár árinu 2020, framkvæmdir við vegabætur um Vatnsskarð á árinu 2020 og áherslu varðandi það að Egilsstaðaflugvöllur verði settur í forgang sem varaflugvöllur hér á landi. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs fagnar því að gert sé ráð fyrir því að hefjast handa við framkvæmdir á Axarvegi á árinu 2021 en furðar sig á að ekki skuli gert ráð fyrir fjármunum á árinu 2020 til að ljúka hönnun og samningagerð við landeigendur. Slíkt er forsenda þess að raunhæft verði að hefjast handa við framkvæmdir á árinu 2021 og er því óskað eftir því að í endanlegri áætlun verði gert ráð fyrir nauðsynlegu fjármagni vegna þessara þátta á árinu 2020. Eins og áður hefur komið fram þá lýsir bæjarráð Fljótsdalshéraðs yfir vonbrigðum með að framkvæmdum við Borgarfjarðarveg (Eiðar ? Laufás) seinki frá fyrri áætlun, enda brýnt að sá vegur verði að fullu lagður bundnu slitlagi sem fyrst, sem og að hugað verði að frekari vegaframkvæmdum á Efra- Jökuldal m.a. vegna aukinnar umferðar ferðamanna að Stuðlagili. Bæjarráð leggur einnig áherslu á það að bygging nýrrar Lagarfljótsbrúar verði ekki seinkað frá því sem fram kemur í fyrirliggjandi drögum.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.