Nefndin hafnar framkomnum drögum að samningi við Reykjavíkurborg um gistináttagjald vegna einstaklinga með lögheimili á umráðasvæði Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Borgarfjarðar eystri og Vopnafjarðarhrepps. Einstaklingum með lögheimili í fyrrgreindum sveitarfélögum býðst félagsleg þjónusta og stuðningur við vanda sínum í heimabyggð. Ef aðsetur og lögheimili fara ekki saman skv. lögheimilislögum þá þurfa viðkomandi einstaklingar annað hvort að koma í lögheimilissveitarfélag til þess að þiggja þjónustu eða flytja lögheimili í aðsetursveitarfélag til þess að þiggja þjónustu þar. Félagsþjónusta á Austurlandi á erfitt með að þjónusta einstaklinga sem búsettir eru hinu megin á landinu og ítrekar nefndin að lögheimili skal fylgja aðsetri. Nefndin setur fyrir sig upphæð stakrar gistináttar en væri til viðræðu um að greiða hóflegt gjald fyrir einstaklinga með lögheimili á svæði nefndarinnar, væri unnt að vinna að vanda viðkomandi einstaklings meðfram dvöl hans á höfuðborgarsvæðinu og þá með þeirri fyrirætlan að viðkomandi flytji aðsetur sitt heim og þiggi félagslega aðstoð í heimahéraði. Nefndin vill einnig taka fram að vilji einstaklingur með lögheimili hér eystra en aðsetur í Reykjavík fá húsnæðisúrræði hér fyrir austan, þá yrði brugðist við þeim vanda í samræmi við metna þörf. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hjá ofangreindum sveitarfélögum er lítill og brugðist við bráðum vanda skjólstæðinga hið snarasta. Samþykkt samhljóða.