Fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn

Málsnúmer 201601129

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs - 48. fundur - 11.01.2016

Ákveða þarf dagsetningu fyrir sameiginlegan fund ungmennaráðs og bæjarstjórnar. Adda Steina, tekur að sér að koma því í kring.
Umræður voru um málefni sem ráðið hefur hug á að ræða við bæjarstjórn. Óskað er eftir því að bæjarstjórn útbúi einnig lista yfr mál sem hún óskar eftir álit á og svörum við, frá ungmennaráðinu.
Ungmennaráð leggur þannig til að fyrir sameiginlegan fund liggi fyrir formleg dagskrá.


Umræður og vangaveltur ungmennaráðs um afstöðu bæjarstjóranar á neðangreindum málefnum. Eftirfarandi óskar ungmennaráð að ræða við bæjarstjórn á fyrirhuguðum sameiginlegum fundi:

Lagt er til að Egilsstaðir verði meira áberandi á samfélagsmiðlum. Allir fulltrúar ráðsins eru sammála um að Egilsstaða filter á Snapchat mundi vera staðnum til góðs. Einnig ætti það að vera mögulegt að merkja sig inn á Egilsstaði á Facebook, sem er ekki, enn sem komið er. Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að leggja meiri vinnu í að vera aðgengilegt og aðlaðandi viðkomustaður á samfélagsmiðlum.

Því er velt upp hvort bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hafi sýnt því áhuga á að taka á móti flóttafólki. Ungmennaráð óska eftir að fá upplýsingar um hvar fulltrúar bæjarstjórnar standa varðandi umræður og ákvarðanir sem varða móttöku flóttafólks.

Í kjölfarið er rætt almennt um stöðu nýbúa af erlendum uppruna á Fljótsdalshéraði. Telur bæjarstjórnin sveitarfélagið standa sig vel hvað varðar stuðning og þjónustu við nýbúa í sveitarfélaginu? Er þjónustan fullnægjandi og aðgengileg eða telja fulltrúar bæjarstjórnar eitthvað vera sem betur mætti fara og þá hvernig er verið að vinna að því? Lögð var áhersla á stöðu barna og ungmenna af erlendum uppruna í sveitarfélaginu. Aðgengi þeirra að stuðningi við skólastarf og jöfn tækifæri til að stunda það íþrótta og tómstundastarf sem er í boði.

Óskað er eftir umræðu á fundinum um afstöðu og framtíðarsýn bæjarstjórnar hvað varðar tómstundastyrki/frístundakort fyrir börn og ungmenni á Fljótsdalshéraði.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 230. fundur - 20.01.2016

Á fundi ungmennaráðs kom fram að ákveða þarf dagsetningu fyrir sameiginlegan fund ungmennaráðs og bæjarstjórnar og leggja fram dagskrá.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir að fela forseta bæjarstjórnar í samráði við bæjarstjóra að leggja fram lista yfir þau málefni sem bæjarstjórn vill ræða við ungmennaráðið á sameiginlegum fundi. Jafnframt er þeim falið að ganga frá dagskrá fyrir fundinn í samráði við starfsmann ungmennaráðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.