Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs

69. fundur 24. maí 2018 kl. 16:30 - 17:30 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Kristbjörg Mekkín Helgadóttir aðalmaður
  • Almar Aðalsteinsson aðalmaður
  • Erla Jónsdóttir formaður
  • Aron Steinn Halldórsson aðalmaður
  • Einar Freyr Guðmundsson aðalmaður
  • Ásta Dís Helgadóttir varaformaður
  • Árndís Birgitta Georgsdóttir aðalmaður
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir starfsmaður
Fundargerð ritaði: Bylgja Borgþórsdóttir verkefnastjóri íþrótta- tómstunda- og forvarnarmála

1.Opnunartími Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum

Málsnúmer 201804099

Undir þessum lið mætti Karen Erla Erlingsdóttir, forstöðukona Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum, og ræddi við ungmennaráð um opnunartíma sundlaugar.

Ungmennaráð þakkar Kareni fyrir að sitja fyrir svörum enda eru mál Íþróttamiðstöðvar og sundlaugar ungu fólki hugleikin.

Ungmennaráð stefnir að frekari vinnu við málaflokkinn næsta haust.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Ungmennaþing 2018

Málsnúmer 201711032

Ályktun Ungmennaþings 2018:

"Þann 12. apríl 2018 stóð Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs fyrir Ungmennaþingi í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þema þingsins í ár var geðheilbrigði ungs fólks og fluttu þau Tara Ösp Tjörvadóttir, Sigrún Sigurpálsdóttir, Elísabet Reynisdóttir og Ólafur Sigurðsson erindi. Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir stýrði þinginu en Jón Jónsson og Albert Eiríksson komu inn með stutt innslag hvor fyrir sig. Þakkar Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs öllum þeim sem fluttu erindi á þinginu, Sigurbjörgu fyrir fundarstjórn, Árna Ólasyni og Menntaskólanum fyrir aðstoð og góðan vilja, sem og öllum gestum þingsins fyrir að mæta og láta rödd sína heyrast.

Þinggestir voru sammála um að skólum á landsbyggðinni, bæði grunn- og framhaldsskólum, ætti að vera gert kleift að bjóða upp á aukna geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungmenni, t.d. með ráðningum sálfræðinga og annarra sérfræðinga. Þá kalla ungmenni eftir aukinni fræðslu um geðheilbrigðismál í skólum. Helstu ástæður þess að ungu fólki á Austurlandi líður illa gætu verið t.d. íhaldssamara samfélag, þar sem umræða um geðheilbrigði er styttra komin en í stærri samfélögum og ungmenni veigra sér jafnvel við að segja frá vanlíðan og finna fyrir pressu á að passa inn í samfélagið. Að ungmenni á Austurlandi fái ekki þá aðstoð sem þarf og að langt sé í sérfræðiþjónustu. Þá var vöngum velt yfir því hvað ungmenni á Fljótsdalshéraði gætu gert hvert fyrir annað og voru þar nefndar hugmyndir eins og að aðstoða við að leita hjálpar, tala saman, hlusta hvert á annað, og vera almennileg hvert við annað.

Gestir á þinginu veltu fyrir sér nýtingu Vegahússins ungmennahúss á Fljótsdalshéraði og eins markaðssetningu og kynningarmálum. Flestum finnst Vegahúsið ekki nægilega vel nýtt fyrir ungmenni eða kynnt þeim sem aldur hafa til að stunda húsið. Meðal hugmynda til að bæta þjónustu Vegahússins, svo það nýtist sem úrræði fyrir ungmenni, voru að breyta opnunartíma, bæta við opnunum og bjóða upp á meiri hópastarfsemi en nú er gert. Til þess að þetta sé mögulegt þarf að veita fjármagni til Vegahússins, en það hefur verið af virkilega skornum skammti síðustu ár.

Ungmennaráð telur nauðsynlegt að Fljótsdalshérað og sveitarfélög á Austurland leggi áherslu á aukin úrræði og bætta geðheilbrigðisþjónustu í fjórðungnum, ekki síst hjá yngri aldurshópum samfélagsins."

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs telur ungmennaþing nauðsynlegan vettvang til að ná til ungs fólks í sveitarfélaginu og leggur til að Ungmennaþing 2019 verði haldið þann 11. apríl og að grunnskólar sveitarfélagsins, sem og Menntaskólinn á Egilsstöðum, geri ráð fyrir þeirri dagsetningu í skóladagatali.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Sveitarstjórnarkosningar 2018

Málsnúmer 201805125

Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs hvetur ungt fólk sérstaklega til þess að láta sig málefni samfélagsins varða, kynna sér fólk og málefni og nýta kosningarétt sinn í sveitarstjórnarkosningum sem fram fara laugardaginn 26. maí.

Þá bendir ráðið á að öll framboð á Héraði fengu spurningalista frá ungmennaráði og svör þeirra hafa verið sett á Facebook síðu ráðsins (https://www.facebook.com/Ungmennaráð-Fljótsdalshéraðs-1841593346072565/).

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 17:30.