Réttur til atvinnuleysisbóta og/eða fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga á tímum COVID-19

Málsnúmer 202005143

Félagsmálanefnd - 183. fundur - 18.05.2020

Samband íslenskra sveitarfélaga beinir því til sveitarfélaga að kanna hvort rétt sé að víkja tímabundið frá skilyrðum um veitingu fjárhagsaðstoðar vegna COVID-19 faraldursins, að umsækjendur þurfi að loka rekstri (sýna fram á að rekstri hafi verið hætt) í ljósi aðstæðna á vinnumarkaði. Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra (RSK 5.02) teljist viðkomandi uppfylla skilyrði fyrir því að fá fjárhagsaðstoð til framfærslu ef samdrátturinn er tilkominn vegna faraldursins. Breytt framkvæmd felur í sér:

Sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa lægri tekjur en sem nema grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að viðkomandi hafi tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra (eyðublað RSK 5.02) sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri.
Jafnframt þarf umsækjandi að hafa leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 og reglur viðkomandi sveitarfélags um fjárhagsaðstoð.
Taki sjálfstætt starfandi einstaklingur að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu fjárhagsaðstoðar skal hann tilkynna það til Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs enda á viðkomandi ekki rétt á fjárhagsaðstoð á því tímabili sem verkefnið stendur yfir. Sé umsækjandi í hlutastarfi með tekjur undir grunnfjárhæð skal gerð krafa um að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit.
Lagt er til að breytt verklag gildi á sama tímabili og ákvæði til bráðabirgða við lög um atvinnuleysistryggingar sem heimilar sjálfstætt starfandi einstaklingi að sækja um atvinnuleysisbætur enda þótt viðkomandi hafi ekki tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um lok starfsemi.
Sé framkvæmd aftur breytt til fyrra horfs ber að tilkynna viðtakendum stuðnings um það með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

Ofangreindar tillögur Sambands íslenskra sveitarfélaga eru samþykktar samhljóða af Félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs. Gildistími breytinga á reglum Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs um fjárhagsaðstoð er eins og segir í tillögum sambandsins, á meðan í gildi eru ákvæði til bráðabirgða við lög um atvinnuleysistryggingar sem heimilar sjálfstætt starfandi einstaklingi að sækja um atvinnuleysisbætur.