Bæjarráð Fljótsdalshéraðs tekur undir þingsályktunartillögu þess efnis að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjarvíkurflugvallar og er afstaða bæjarráðs í þá veru að flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns jafngóður eða betri kostur verði tilbúinn til notkunar. Þá tekur bæjarráð undir greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni. Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu og fjölþættu hlutverki í samgöngum íbúa landsbyggðarinnar, þá er tilgangur hluta ferðanna að sækja læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og tengist staðsetning flugvallarins þannig brýnum öryggishagsmunum almennings. Þá gegnir flugvöllurinn einnig lykilhlutverki í tengingu landsbyggðanna við opinbera grunnþjónustu og mikilvægar opinberar stofnanir, sem flestar eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.
Samþykkt með tveimur atkv. en 1 sat hjá (SIÞ)
Steinar Ingi Þorsteinsson lagði fram eftirfarandi bókun: Fulltrúi L-listans í bæjarráði tekur undir margt í meðfylgjandi greinargerð með þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Það er mjög mikilvægt að flugsamgöngur séu með sem skilvirkustum hætti á milli höfuðborgar og landsbyggðarinnar. Það er hins vegar ekki hlutverk löggjafarvaldsins að hlutast til um skipulagsvald sveitarfélags með slíkum hætti eins og kveðið er á um í tillögunni. Vísað er í því samhengi til umsagnar Samband íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurvelli, 361. mál. frá 4. júní 2015 en þar segir: Samband íslenskra sveitarfélaga hlýtur að vara eindregið við því að löggjafinn haldi áfram að feta sig í þá átt að skerða forræði sveitarfélaga á eigin málefnum.
Eftirfarandi bókun lögð fram: Fulltrúa D, B og M lista líta svo á að ekki sé með tillögunni verið að vega að skipulagsrétti sveitarfélaga.