Tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun 2013-2016

Málsnúmer 201404138

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 255. fundur - 23.04.2014

Lögð fram umsagnarbeiðni frá nefndarsviði Alþingis um þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun 2013-2016.

Ítrekaðar eru kröfur um að flughlöð við Egilsstaðaflugvöll verði stækkuð til að auka öryggi vallarins og notkun hans auk þess að byggt verði aukið svæði fyrir þyrlur við flugvöllinn.

Nokkur brýn verkefni í vegabótum liggja fyrir á Austurlandi sem eru til þess fallin að styrkja stöðu atvinnulífs á svæðinu. Til skemmri tíma litið þarf að leggja áherslu á að strax verði ráðist í lagningu bundins slitlags á tengivegi innan sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs. Sýnt var fram á með úttekt sem unnin var á vegum sveitarfélagsins haustið 2008 að það hefur setið eftir við uppbyggingu vegakerfisins. Þannig eru enn um 180 km tengivega malarvegir en um þá fer umtalsverð umferð.

Með því að ráðast í lagningu bundins slitlags á þessum vegum, eða hluta þeirra, má ná fram umtalsverðum sparnaði í veghaldi, auka öryggi vegfarenda draga verulega úr mengun og skapa jarðvinnuverktökum atvinnu. Þeir vegir sem um ræðir m.a. eru Borgarfjarðarvegur, Upphéraðsvegur um Fell, Hróarstunguvegur, Hlíðarvegur (stofnvegur)og veginn um efri Jökuldal.

Sveitarfélagið leggur áherslu á að gert verði ráð fyrir gerð nýrrar brúar yfir Lagarfljót á samgönguáætlun. Endurnýjun brúarinnar hefur verið á stefnuskránni í áratugi. Aukið vatnsmagn í Lagarfljóti og ísmyndun við brúnna hefur leitt af sér raunverulegar áhyggjur um að brúin geti við tilteknar aðstæður verið í hættu með alvarlegum afleiðingum, ekki síst þar sem vatnslagnir og rafmagns- og gagnakaplar liggja um brúna.

Að lokum leggur bæjarráð þunga áherslu á mikilvægi þess að unnið verði markvisst að gerð Fjarðarheiðaganga, milli Héraðs og Seyðisfjarðar, og að fullnægjandi fjármagn verði sett í rannsóknir á þeim göngum á næstu þremur árum. Í fyrirliggjandi áætlun er gert ráð fyrir 150 milljónum í rannsóknir á næstu þremur árum en til að klára megi verkefnið er þörf á að tvöfalda þetta fjármagn. Ljóst er að bæði Fljótsdalshérað og Seyðisfjörður myndu hafa verulegan ábata af gerð ganganna enda um að ræða nauðsynlega samgöngubót sem styðja myndi við atvinnulíf á svæðinu. Þá myndi það tryggja nauðsynlegan aðgang að samgöngum um flugvöll og höfn og bæta aðgang íbúa að heilbrigðiskerfi, framhaldsmenntun og annarri þjónustu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 196. fundur - 07.05.2014

Bæjarstjórn Fljótsdalshérað leggur áherslu á að tekið verði ríkt tillit til Austurlands við gerð fjögurra ára samgönguáætlunar. Sérstaða svæðisins felst meðal annars í miklu magni vega án bundins slitlags, fjölda einbreiðra brúa og mjög erfiðra vetrarsamganga á milli margra þéttbýliskjarna.
Atvinnulíf á Fljótsdalshéraði varð fyrir miklu áfalli í hruninu, enda verktakastarfsemi undirstöðuatvinnugrein á svæðinu. Þessu áfalli hefur ekki verið mætt af hálfu stjórnvalda og ekki hlotið athygli á borð við áföll sem orðið hafa í öðrum atvinnugreinum.
Bæjarstjórn bendir á að í samgönguframkvæmdum liggur kjörið tækifæri til að efla og styrkja innviði samfélagsins ásamt því að styðja við verktakastarfsem. Í ljósi þessa vill bæjarstjórn benda á eftirfarandi verkefni og mælast til þess að þeim verði að einhverju marki fundinn staður innan fjögurra ára samgönguáætlunar.

Fjarðarheiðargöng frá Seyðisfirði til Fljótdalshéraðs: Nauðsynlegt er að tryggja nægjanlegt fjármagn til þess að ljúka rannsóknum og undirbúningi. Gert er ráð fyrir 150 milljónum á tímabili áætlunarinnar en bæta þarf öðru eins við.

Vegur um Öxi: Bæjarstjórn bendir á að hluti þeirrar framkvæmdar er vegagerð innst í Skriðdal þar sem öllum undirbúningi er lokið og aðeins vantar fjármagn. Því hvetur bæjarstjórn til þess að í það minnsta verði ráðist í þann vegarkafla á gildistíma fjögurra ára áætlunar.

Lagarfljótsbrú: Mikil þörf er orðin á endurnýjun brúarinnar sem þolir alls ekki þungaflutninga og þá miklu umferð sem um hana fer. Bæjarstjórn hvetur til þess að ráðist verði í hönnun og undirbúning hið fyrsta og þá í beinu samhengi við fyrirhugaðar framkvæmdir við brú á Jökulsá á Fjöllum, en þessar brýr eru báðar mikill flöskuháls fyrir flutninga millli Norður- og Austurlands.

Bundið slitlag á tengivegi: Sýnt var fram á með úttekt sem unnin var á vegum sveitarfélagsins haustið 2008 að það hefur setið eftir við uppbyggingu vegakerfisins. Þannig eru enn um 180 km tengivega malarvegir en um þá fer umtalsverð umferð. Þeir vegir sem um ræðir m.a. eru Borgarfjarðarvegur, Upphéraðsvegur um Fell, Hróarstunguvegur, Hlíðarvegur (stofnvegur)og vegurinn um efri Jökuldal.

Flughlöð við Egilsstaðaflugvöll: Nauðsynlegt er orðið að stækka flughlöð til að auka öryggi vallarins og notkun hans auk þess sem bæjarstjórn telur mikilvægt að byggt verði aukið svæði fyrir þyrlur við flugvöllinn. Þarna er horft til mikilvægis þess að björgunarþyrla frá Landhelgisgæslunni verði til frambúðar staðsett á Egilsstaðaflugvelli auk þess sem gera má ráð fyrir umsvifum á vellinum í tengslum við komandi olíuleit og þá er þörf fyrir þyrluaðstöðu á vellinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.